22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

12. mál, mælitæki og vogaráhöld

Klemens Jónsson:

Jeg hefi fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að lögreglustjórar til sveita hafi þessa löggildingu á hendi, og treysti jeg þeim eins vel til þess og lögreglustjórum í kaupstöðum yfirleitt. Þó mun að jafnaði mega gera ráð fyrir, að heldur sje valið af betri endanum í kaupstaðina. (MT: Það hefir stundum orðið misbrestur á því). Það kann að vera nú upp á síðkastið, eftir að það er farið að eiga sjer stað, að lögreglustjórar úr kaupstað flytja sig í sveitina, eins og nýlega kom fyrir. Löggildingartækin eru dýr, og tel jeg því alveg ónauðsynlegt að leggja í þann kostnað í sumum sýslum, svo sem Dalasýslu og Rangárvallasýslu, þar sem fáar verslanir eru. Aftur á móti get jeg vel fallist á, að rjett geti verið, að sýslumaðurinn í Árnessýslu hafi löggildingu á hendi, og getur væntanleg nefnd athugað það.