31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

12. mál, mælitæki og vogaráhöld

Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg mun ekki verða langorður um þetta mál. Það er komið frá hv. Ed. og hefir verið athugað í allhn., en hún hefir ekki getað orðið sammála. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) leggur til, að frv. verði felt, en við hinir nefndarmennirnir leggjum til, að það verði samþykt óbreytt.

Eins og kunnugt er, var með lögum frá 14. nóv. 1917 sett á stofn ný stofnun til þess að löggilda mælitæki og vogaráhöld og hafa eftirlit með öllu slíku, og var henni jafnframt fengin einkasala á slíkum áhöldum fyrir ríkið. Þetta fyrirkomulag hefir reynst stirt og þunglamalegt og nokkuð dýrt fyrir landsmenn, þó því verði hinsvegar ekki neitað, að löggildingarstofan hafi gert gagn. En það sýnist þó ekkert vera því til fyrirstöðu, að framkvæmd þessa eftirlits verði nú falin lögreglustjórum landsins.

Við fyrstu umræðu hreyfði jeg því, að jeg feldi mig ekki allskostar við ákvæði 2. gr. frv., þar sem löggilding á þessum tækjum er aðeins falin lögreglustjórum kaupstaðanna, en ekki öðrum. Einn aðalókostur þess fyrirkomulags, sem verið hefir, var einmitt þau óþægindi og sá mikli kostnaður fyrir landsmenn, að þurfa ætíð að senda áhöld til viðgerðar og löggildingar hingað til höfuðstaðarins. Víða verða þessi sömu óþægindi áfram, þrátt fyrir frumvarp þetta. En ef vel verður haldið á lögunum í framkvæmdinni, ætti þeim óþægindum að ljetta mjög, enda hægt að breyta lögum fljótt. Nefndin sá sjer því ekki fært að flytja brtt. um þetta atriði, því það mundi tefja málið. En meiri hl. allshn. leggur áherslu á það, að málinu sje hraðað. Jeg mun svo ekki fjölyrða meira að sinni, en leyfi mjer að leggja það til, að frv. verði samþykt óbreytt.