31.03.1924
Neðri deild: 37. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

12. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jón Baldvinsson:

Þetta mál var rætt allítarlega á þingi í fyrra og þá komið fram með flest rök með og móti, sem hægt var. En þó fór svo, að það var ekki afgreitt. En nú hefir hæstv. stjórn látið það ganga aftur, og meiri hluti allshn. leggur til að það gangi fram. Hjer er sem sje um það að ræða að taka löggildingu mæli- og vogaráhalda af þeirri sjerstöku skrifstofu, sem það hefir haft hingað til, og fá lögreglustjórum í kaupstöðum landsins í hendur.

Aðalatriðið fyrir mjer, er jeg legg á móti þessu frv., er það, að mjer virðist þetta fyrirkomulag ekki eins tryggilegt. Jeg vil þó ekki neita því, að lögreglustjórar geti haft nokkurt eftirlit. En þeir hafa í mörg horn að líta, eins og kunnugt er, og hugsanlegt er, að slík aukastörf verði frekar út undan. Jeg held, að sjerstök stofnun fylgist betur með og geti fremur haft hönd í bagga, ef aflaga fer.

Það var viðurkent í fyrra, að löggildingarstofan hefði gert mikið gagn með því að laga þessi áhöld víða um land. Og jeg óttast, að þegar frá líði muni sækja í sama horf, og gæti þá svo farið, að menn yrðu til knúðir að taka af nýju upp eftirlitið á þann hátt, sem nú hefir verið um hríð. Þetta er ekki mikið fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð. Það er aðeins lítil fjárhæð, sem veitt er árlega í þessu skyni, og alls ekki ástæða til þess að horfa í það.

Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú talið, get jeg ekki fylgt þessu frv. nje mælt með því, að það verði samþykt í þessari hv. deild.