21.02.1924
Neðri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

3. mál, útflutningsgjald

Fjármálaráðherra (KlJ):

Jeg skal játa, að það er fremur leiðinlegt að þurfa að bera fram ár eftir ár frv. til laga um framlenging laga, sem aðeins var til ætlast að stæðu um stutta stund; en jeg vona, að þessi háttv. deild, eftir að hafa hlýtt á ræðu mína í gær um fjárhagsástæður ríkisins, sjái, að það muni illa vera hægt að komast af án útflutningsgjalds. Ákvæði um útflutningsgjöld hafa nú staðið í lögum full 40 ár; voru fyrst sett lög um það efni árið 1881, og tók það þá aðeins til sjávarafurða, en með ótal viðaukum og breytingum hefir síðan verið dregið meira og meira inn undir þetta gjald og árið 1919 voru lögin endursamin og um leið lagt útflutningsgjald á hjerumbil allar afurðir landsins. Þetta gjald nam samkv. landsreikningnum 1920 um 800 þús. kr., en á þinginu 1921 voru þessi lög afnumin með sjerstökum lögum, nr. 60 það ár, og tvenn ný lög sett í staðinn, — lög um útflutningsgjald af síld og sjerstök lög um 1% útflutningsgjald af verði allra annara útfluttra afurða íslenskra. Hvers vegna þetta var gert, hefi jeg ekki athugað til fulls og hefi ekki skilið, hvaða ástæða hafi verið til þess að fara þessa leið, að vera að tvískifta gömlu lögunum, sem höfðu staðið yfir 40 ár og alla tíð verið drjúg tekjulind fyrir ríkissjóðinn.

Það getur ekki komið til mála að afnema þau lög án þess að setja í staðinn eitthvað, sem bæti ríkissjóði upp tekjumissinn. Því það er auðsætt, að ríkissjóðurinn þolir ekki með nokkru móti, að tekjur hans sjeu rýrðar. Auk þess eru lög þessi orðin löghelguð, og býst jeg ekki við að útgerðarmenn eða bændur búist við, að slíkum gjöldum verði ljett af. Yrðu þessi lög afnumin, þá yrði gamla fyrirkomulagið að koma í staðinn. Teldi jeg það heppilegast, því óviðurkvæmilegt er að framlengja þannig sí og æ þessi lög, sem í upphafi var aðeins ætlað að standa um skamma stund. Vonast jeg og til þess, að úr þessu verði þess skamt að bíða, að gerð verði endanleg skipun á þeim málum.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og svo til hv. fjhn.