21.02.1924
Neðri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

3. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls að svo stöddu, en get þó ekki varist að gera nokkrar aths. út af ummælum hæstv. fjrh. (KlJ). Hann kvað þessa löggjöf um útflutningsgjöldin vera nú runnin svo inn í meðvitund þjóðarinnar, að það mætti löghelgað kallast. Kvað hann og sjálfsagt að leggja slík gjöld á útfluttar vörur. Jeg lít svo á, að því fari fjarri, að þessar ástæður geti komið til greina að því er snertir framlenging þessara laga. Eina rjettmæta ástæðan er fjárþröng ríkissjóðsins. Jeg hefi til þessa verið á móti slíkum gjöldum, en er það síður nú, sökum þess, að horfur útgerðarinnar eru nú vænni en áður, þótt ekki sje annars gott að spá neinu í því efni. Jeg geri annars ráð fyrir, að þetta mál verði athugað í sambandi við önnur frv., sem væntanlega verða lögð fyrir þetta þing. Ef til dæmis þingið kemur sjer saman um að leggja nú á innflutningshöft, þá hefir það í för með sjer talsverða tekjuskerðing fyrir ríkissjóðinn. Lít jeg svo á, að best fari á því, að sama nefnd fjalli um þau mál öll, því að ilt verður að taka ákvarðanir um þau nema í sambandi hvert við annað.