24.03.1924
Efri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

3. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Landsstjórnin lagði fyrir þingið í þingbyrjun frv. til laga um framlenging á gildi laga um útflutningsgjald. Hefir það verið venja, að á hverju þingi hin síðustu ár hefir verið komið fram með frv. til laga um framlenging á gildi þessara laga. Lögin eru, eins og hv. deild er kunnugt, síðan 1921 og voru þá sett út árið. Síðan hefir þingið sjeð, að ríkissjóður hafði ekki efni á að missa þennan tekjustofn, og því hafa lögin jafnan verið framlengd ár frá ári. Þegar lög þessi voru sett í upphafi, þá var það gert með hálfum hug. En þó að þau íþyngdu framleiðslunni nokkuð, þá voru ástæðurnar fyrir setning laganna brýnar, og eru það ekki síður nú. í hv. Nd. hefir fjhn. fallist á frv. þetta og álítur hún tekjurnar af því ekki ógætilega áætlaðar um 400 þús. kr. Segir í nál., að sumir nefndarmenn telji það óaðgengilegt að framlengja lögin. Nefnd þessarar hv. deildar var því einnig samþykk að framlengja lögin, og kom engin rödd fram um það, að framlengingin væri óaðgengileg. Gjaldið er í sjálfu sjer ekki órjettlátur skattur. Það er, eins og menn vita, 1% af útflutningsverðinu, og eru lögin að því leyti rjettlátari en mörg önnur lög af þessu tægi. Og ennfremur eru lögin skaðlaus að því leyti, að þau verka ekki á dýrtíðina í landinu. Og þó að segja megi, að lögin íþyngi nokkuð útflytjendum, þá mun þó svo komið, að þeir sjeu orðnir vanir þessum skatti. Það, að fjhn. Ed. kom fram með brtt. á þskj. 184, að í stað „til ársloka 1925“ í frv. komi: „þangað til öðruvísi verður ákveðið“, stafar af því, að reynslan hefir sýnt, að þingið fær altaf tilmæli um það að framlengja gildi þessara laga, og áleit nefndin því aðeins til tafar að binda gildi laganna við vissan tíma. Það eru engar horfur á því, að gjaldinu verði ljett af í nánustu framtíð, og því ákvað nefndin að koma fram með þessa brtt. Það er auðvitað, að verði brtt. nefndarinnar samþykt, þá þarf sjerstök lög til þess að afnema lögin um útflutningsgjald, sem annars hefði ekki þurft, ef gildi þeirra hefði verið bundið við ákveðinn tíma, eins og hingað til. En þess ber einnig að gæta í þessu sambandi, að það hefir og hefði nú einnig þurft sjerstök lög til framlengingarinnar. Ef svo skyldi fara, að það yrði alment viðurkent, að ástæðurnar fyrir gjaldi þessu væru horfnar, þá er ekki erfitt að fá það afnumið með lögum, en meðan ástæðurnar eru svo ríkar, að útlit er fyrir, að þær haldist um ófyrirsjáanlega langan tíma, þá er að brtt. nefndarinnar töluverður tíma og vinnusparnaður fyrir þingið.

Nefndin leggur því til, að hv. deild samþykki frv. með þeim breytingum, sem hún hefir gert við það á þskj. 184.