29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

3. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller:

Mjer finst það blátt áfram ósæmileg meðferð á máli, að hv. þm. sjeu að hvíslast á um það sín á milli, en nefnd sú, sem það heyrir undir, fái ekki að fjalla um það. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) segir, að breyting Ed. á frumvarpinu sje ekki stórvægileg. En mjer finst það ekki smávægileg breyting, þegar bráðabirgðagjald er gert að föstu gjaldi. En þetta gjald verður einmitt fastur skattur, ef þessi breyting hv. Ed. verður samþykt. Ýmsir þingmenn hafa látið í ljós, að þeir vildu alls ekki gera þetta að föstu gjaldi. Vil jeg vekja athygli hv. sömu þm. á því, að nú er tækifæri til þess að sýna, að þeim hafi verið alvara. Jeg vil leyfa mjer að halda fast fram þeirri kröfu, að nefndin fái að athuga þetta á þinglegan hátt.