21.02.1924
Neðri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

11. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (SE):

Þetta frv. er enn eitt þeirra frv., er mentamálanefnd 1920 hefir samið, og hefir stjórnin aðeins gert smábreytingar á till. mentamálanefndar. Samkvæmt frv. eins og það kom frá nefndinni er gert ráð fyrir kenslu í bókhaldi, viðskiftafræði og sjóvinnufræði, en þessar greinar hafa ekki verið kendar í skólanum til þessa, nema hvað fyrirlestrar hafa verið haldnir í sjóvinnufræði síðasta vetur. Ráðuneytið hefir ekki viljað gera sjóvinnufræði að skyldugrein við skólann, heldur ákveðið, að um slíkt megi skipa fyrir með reglugerð. Og er þessi breyting gerð á frv. af því, að sjóvinnufræðslan mundi hafa mikinn kostnað í för með sjer. Tungumálakensla aukin er mjög þýðingarmikil fyrir skólann, og yfirleitt verður að telja nauðsynlegt að koma þessum skóla í sem best horf.

Vona jeg svo, að hv. deild taki frv. þessu svo vel, að það fái ekki einungis að ganga til 2. umr. og mentamálanefndar, heldur einnig fái það samþykki þingsins og nái að verða að lögum.