15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

19. mál, nauðasamningar

Frsm. (Jón Magnússon):

Um frv. það, er hjer liggur fyrir, þarf jeg ekki að tala langt mál, því að nefndinni hefir komið saman um, að þörf sje á að setja lög um það efni, er frv. ræðir um. Hefir hún því að mestu leyti fallist á ákvæði frumvarpsins.

Eins og eðlilegt er, er frumvarp þetta samið eftir erlendri fyrirmynd. En útlend lög um þetta efni ná misjafnlega langt. Veita sum t. d. aðeins verslunar- og útgerðarmönnum kost á nauðasamningum. Getur því verið álitamál, hve langt eigi að ganga í þessu efni, en nefndin hefir þó gengið svo langt, að hún telur rjett að veita öllum jafnt kost á þessum samningum.

Eins og frumvarpið ber með sjer, er lagaskipun þessi orðin mjög gömul, því að hún er tekin frá hinum gömlu Rómverjum, eins og svo margt annað skynsamlegt í lögum. Jeg þarf ekki hjer að færa rök fyrir því, af hverju vjer teljum lagaskipun þessa nauðsynlega, því að það er fyrst og fremst gert í ástæðunum fyrir frumvarpinu og ennfremur í áliti nefndarinnar. En jeg vil aðeins minnast á það, sem drepið er á í nál., að okkur finst ákvæði 2. gr. frumvarpsins helst ekki eiga við í þessum lögum, og um það hefi jeg borið mig saman við þann, sem samdi frumvarpið, og er hann mjer samdóma. Nefndin telur ekki þessa breytingu á hinum almenna áskorunarfresti eiga heima í þessum sjerstöku lögum, en að öðru leyti felst nefndin á ákvæðið í sjálfu sjer. Nefndinni fanst þó ekki ástæða til að gera sjerstök lög um þetta atriði.

Aftur getur verið spurning, hvort gefa eigi mönnum kost á nauðasamningum hvað eftir annað, ef þeir verða oft gjaldþrota. En reki menn sig á það við framkvæmd laganna, að þetta ákvæði sje óheppilegt, er vitanlega altaf hægt að breyta því.

Af þeim ástæðum, sem þegar hafa verið taldar, hefir nefndin ekki gert neinar þær breytingar við frv., sem telja má verulegar efnisbreytingar, heldur aðallega aðeins orðabreytingar. Tel jeg þó rjettara, að sjerstaklega sjeu bornar undir atkvæði 2. og 3. brtt. nefndarinnar. Vel má vera, að sumum þyki 11. og 12. brtt. óþarfar. En nefndin taldi þó rjettara að gera þessar breytingar, þar sem hjer er um að ræða úrskurði og skiftagerðir, og hefir höfundur frv. fallist á, að þetta sje rjett hugsun. Annars hygg jeg, að rjett sje að samþykkja allar brtt., og svo vitanlega alt frv. í heild. Og tel jeg vel farið, að hæstv. stjórn kom fram með frv. þetta, því að altaf getur komið fyrir, að nota þurfi nauðasamninga.