10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

19. mál, nauðasamningar

0585Frsm. (Jón Kjartansson):

Jeg býst við því, að allir hv. þdm. sjeu sammála um það, að nauðsyn sje á að fá lög um þetta efni. Eins og getið er um í ástæðum frv., hafa á árunum 1908–1922 verið að meðaltali 13,2% gjaldþrotamál í skiftarjetti, eða 198 bú verið uppskift.

Það vita nú allir, hve mikið rugl gjaldþrot veldur einstaklingnum, sem fyrir því verður, og eins þjóðfjelaginu í heild, og fyrir utan truflunina á eignum, þá kosta skiftin ærna peninga, svo að bæði maðurinn, sem verður gjaldþrota, og eins skuldheimtumennirnir bíða stórtjón.

Svo hefir lögum hjer í landi verið háttað, að einn einasti skuldheimtumaður hefir getað ráðið því, hvort einhver maður varð gjaldþrota, jafnvel þó það kæmi í bága við 99 aðra skuldheimtumenn. Sjá allir, hve óheppilegt það er að gefa einum manni slíkt vald, sem getur bygst á röngum, persónulegum ástæðum, en ekki því, sem best er fyrir aðra skuldheimtumenn, skuldunautinn sjálfan eða viðskiftin í heild sinni. En þessi truflun, sem gjaldþrot veldur á starfi og atvinnurekstri skuldunautsins, er svo skaðleg, að nauðsyn ber til, að settar sjeu hömlur fyrir því, að fáir, hvað þá einn einasti skuldheimtumaður, fái ráðið niðurlögum hans. Eins og nú standa sakir eru engin ráð fyrir mann, sem illa er staddur fjárhagslega og getur ekki staðið í skilum, nema annaðhvort að verða gjaldþrota eða reyna samninga. En sá hængur er á þessu, að samningarnir takast næstum aldrei, því að þar rekst það sama á og áður, að einn einasti skuldheimtumaður getur sett sig á móti. Þetta frv. á að ráða bót á þessu. Þar er gert ráð fyrir því, að verndað sje með lögum, að samningar geti tekist. Skuldunautinum er ýmist fyrir eða eftir gjaldþrot gefinn kostur á að semja, en í báðum tilfellunum fyrir milligöngu skiftarjettar eða annars aðilja, sem ríkið setur í slíkum málum. Þetta hefir þann kost, að atvinnurekstur skuldunautsins þarf ekki að truflast, en skuldheimtumennirnir geta og haft hag af því, að honum sje forðað frá gjaldþroti, heldur geti í stað þess boðið miklu betri samninga en verða myndi, ef hann yrði gjaldþrota og búið tekið.

Jeg skal ekki fara frekar út í þetta mál. Jeg býst við því, að allir hv. þm. hafi lesið frv. og kynt sjer það rækilega. Nefndin fór nákvæmlega yfir það og fann ekki ástæðu til að gera frekari breytingar á því en felast í brtt., sem við það voru samþyktar í hv. Ed. og eru á þskj. 111. Eru þær flestar smávægilegar, orðabreytingar, sem þó horfa til bóta.

Nefndin telur rjett, að frv. verði samþykt óbreytt. Það er samið eftir fyrirmynd annara þjóða. Hafa slík lög gefist vel. Er því ætlandi, að engin hætta sje á að reyna þau hjer og sem minstu breytt uns reynslan hefir úr því skorið, hverjir agnúar kynnu að vera á lögunum.

Jeg vil aðeins taka það fram að endingu, af því það er ekki skýrlega sagt í frv., að tilætlunin er ekki sú, að lögin nái eingöngu til einstaklinga, heldur engu síður til fjelaga og stofnana, hlutafjelaga, samvinnufjelaga og annara slíkra. Er þetta tekið fram í nál., enda þykist jeg vita, að það hafi verið tilætlun hv. höf.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið; verður heppilegast, að reynslan skeri úr um það.