10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

19. mál, nauðasamningar

Forsætisráðherra (JM):

Jeg þarf engu að bæta við það, sem hv. frsm. (JK) hefir sagt. Jeg er alveg samdóma honum um það, að þetta sjeu þörf lög og að það geti verið mjög heppilegt að hægt sje að grípa til þeirra. Hefir þörfin oft komið í ljós, eins og hv. frsm. sagði. Jeg er einnig sammála honum um það, að ekki sje vert að vera að hugsa um breytingar á lögunum í einstökum atriðum fyr en reynslan hefir sýnt þá galla, sem á frv. kynnu að vera. Enda er ekki líklegt, að breytinga sje þörf, því að svipuð lög hafa verið um langan aldur hjá öðrum þjóðum og gefist vel.

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. nefnd fyrir aths. um, að lögin nái einnig til fjelaga. Var sú meining höfundar og það hefir verið undir hann borið, hvort ekki nægði að taka það fram í aths., og taldi hann það vera.

Eins og kunnugt er, var þetta frv. borið fram af fyrv. stjórn. Var því mjög vel tekið í hv. Ed., og jeg vona, að svo verði og hjer.