09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Ásgeir Ásgeirsson:

Við 2. umr. þessa máls tók jeg aftur brtt. mína á þskj. 302, sem nú kemur undir atkvæði. Hún er í samræmi við brtt., sem jeg flutti við 3. umr. fjárlaganna, en var þá vísað frá, þar sem hún var talin koma í bága við gildandi lög. Í þeirri tillögu var farið fram á, að fjárveiting til aðstoðarskjalavarðar yrði látin falla niður í eitt ár, og þar sem hæstv. stjórn hafði láðst að veita það starf um nokkurn tíma, og gera verður ráð fyrir, að úrskurður hæstv. forseta hafi verið á rökum bygður, vildi jeg forða henni frá áframhaldandi lagabroti með tillögunni.

Þessi brtt. mín er svo ljós, að hún þarfnast lítilla skýringa. Í henni felst nálega sami sparnaður sem í ákvæðum frv. um sameiningu forstöðumannaembættanna við söfnin, en hún hefir þann mikla kost, að með henni er farin sú leið, er flestir mentamenn og þeir, sem nokkur skifti hafa við safnið, gætu betur felt sig við. Og maður sá, sem nú er settur til að veita safninu forstöðu, sættir sig ólíkt betur við hana, en telur sameiningu safnanna alveg ótæka.

Jeg skal ekki dæma um sameiningu þessara tveggja safna, en vil að eins leyfa mjer að benda á, að ef sameina á á þessu sviði, gæti eins komið til greina að sameina öll 3 söfnin, Landsbókasafn, Þjóðskjalasafn og Þjóðmenjasafn. Það er sannanlegt, að þetta má gera, og hafa svo sjerfróða aðstoðarmenn við öll söfnin undir yfirstjórn eins og sama manns. Ef sameina á einungis þessi tvö söfn, sem hjer ræðir um, þá er ef til vill of skamt farið, en það liggur ekki fyrir að þessu sinni.

Nú mun vera gert ráð fyrir því, að sá maður, sem settur er í þjóðskjalavarðarstöðuna, fái veitingu fyrir henni, sem og er alveg rjettmætt. En þá liggja ekki mikil rök til þess að fara nú að sameina embættið við annað embætti, um leið og það er veitt. Annaðhvort er að sameina ekki embættið öðru embætti, og fella þá niður aðstoðarmannsstarfið, eða þá að veita ekki embættið og láta sameininguna komast á þegar í stað.

Verði aðstoðarskjalavarðarstarfið lagt niður, tel jeg sjálfsagt, að yfirskjalavörður fái einhverja lítilsháttar fjárupphæð til nauðsynlegrar aðstoðar, og mundu 500 kr. sennilega hrökkva til þess.

Jeg vil benda þeim hv. þm., sem eru á móti sameiningunni, á það, að þeir ættu að geta felt sig betur við till. mína en frv. sjálft, og ættu því að greiða henni atkvæði. Að öðrum kosti mun frv. verða samþ. óbreytt, og mun jeg að minsta kosti greiða atkvæði með því, þó að brtt. mín verði feld.