09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get byrjað á því að taka undir með hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að vel geti komið til mála að sameina ekki aðeins forstöðu Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns, heldur einnig forstöðu Þjóðmenjasafnsins. Þetta er ekkert nýmæli; hefir það meðal annars verið orðað af þeim manni, sem nú má telja einna fróðastan allra núlifandi Íslendinga í þessum efnum. En það liggur ekki fyrir og á ekki við að svo stöddu. Forstöðumaður Þjóðmenjasafnsins er maður á besta aldri, og yrði þessi sameining auðvitað að bíða þangað til hann ljeti af störfum, og má þá altaf taka þetta til athugunar seinna meir.

Um sameiningu Landsbókasafnsins og Þjóðskjalasafnsins get jeg sagt, að jeg hygg, að ekki verði á móti því borið, að hún sje vel framkvæmanleg. Bæði söfnin samanlögð eru ekki nema lítið safn í samanburði við stóru söfnin erlendis, og það þótt ekki sje borið saman við allra stærstu söfnin, en þeim nægir einn forstöðumaður að vísu með dugandi aðstoðarmönnum. Það eru engin rök gegn sameiningu forstöðumannsembættanna, að forstöðumaðurinn væri þá ekki vel sjerfróður um skjalasafnið, eða þá bókasafnið, hann gæti ekki verið sjerfróður nema um annaðhvort safnanna, því að þá verður sjerfræðin hjá aðstoðarmönnunum. Jeg er alveg sannfærður um, að altaf má takast að fá vel hæfan mann til þess að vera aðstoðarmaður við skjalasafnið.

Það er ekki mjög mikið, sem frv. og brtt. hv. þm. V.-Ísf. ber á milli. Í báðum er gert ráð fyrir, að í skjalasafninu vinni einn maður, sem er sjerstaklega fróður í þeirri grein. En það er mjög haganlegt, að sami maðurinn veiti báðum söfnunum forstöðu. Landsbókasafnið vantar tilfinnanlega húsrúm, en Þjóðskjalasafnið hefir mikið rúm, sem það þarf ekki að nota í náinni framtíð. Ef sami maður ræður yfir báðum söfnunum, er vitanlega hægt að koma þessu miklu betur fyrir. Landsbókasafnið getur þá fengið aukið rúm, án þess að þrengja of mjög að hinu safninu.

Sparnaður er og nokkuð meiri eftir tilhögun frv. Munurinn á launum er dálítill, og auk þess gæti einn maður ekki annað öllu skjalasafninu. Hann þyrfti aðstoð einstöku sinnum, en sjeu bæði söfnin undir sömu stjórn, er auðvelt að veita þá aðstoð frá Landsbókasafninu, þá sjaldan er það þyrfti.

Það er nú í ráði að veita þjóðskjalavarðarembættið þeim manni, sem settur er í það. Þess þyrfti auðvitað ekki, en jeg hefi orðið var við það, að mjög margir þingmenn telja það viðkunnanlegra, að hann fái að stýra safninu þau ár, sem hann á eftir að starfa við það, en hann er nú talsvert fullorðinn maður. En þegar hann lætur af embætti, ætti þessi sameining sennilega að komast á.

Það hefir verið haft á móti þessari sameiningu, að hún hafi ekki verið borin undir starfsmenn skjalasafnsins. Það er satt, að þetta var í fyrstu ekki borið beinlínis undir þjóðskjalavörð, enda var það vitanlegt, að hann var þessu allmjög mótsnúinn. En jeg átti tal um þetta við landsbókavörð, þegar jeg starfaði í launanefndinni, og taldi hann ekkert verulegt þessu til fyrirstöðu. En seinna fann hann ýms vankvæði á því. Það er og öllum kunnugt, að Halldór prófessor Hermannsson telur þetta vel framkvæmanlegt og rjettmætt.

Þegar við hv. þm. V.-Ísf. erum samdóma um það, að ekki þurfi nema einn mann til þess að annast skjalasafnið, þá get jeg ekki skilið, hvers vegna hann kýs ekki heldur að hafa aðstoðarmann í því, en yfirstjórn og reikningsfærslu í einu lagi fyrir bæði söfnin. Það yrði haganlegra fyrir bæði söfnin. Hv. þm. gat um, að einn maður, sem ætti að sjá um safnið eitt, mundi þurfa einhverja aðstoð, en hví má ekki hugsa sjer, að sú aðstoð gæti komið frá hinu safninu, eins og jeg tók fram áðan! Ef söfnin væru undir stjórn eins manns, mætti enn komast af með einn lestrarsal, og mætti þá ef til vill taka herbergi yfirskjalavarðar fyrir vinnustofu handa einstaka vísindamönnum. Í mínum augum mælir því alt með því, að einn maður hafi yfirstjórn beggja safnanna, en sjerþekkingin sje hjá aðstoðarskjalaverði.

Jeg skal svo láta útrætt um málið að sinni. Jeg hefi áður mælt fyrir þessari sameiningu og flutt frv. um hana. Jeg vænti þess, að allir hv. þm. skilji þetta einfalda mál og að hv. deild geti fallist á frv. óbreytt, eins og það hefir verið borið fram af stjórninni fyr og nú.