09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Það var alveg rjett, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði nú síðast, að allir þingmenn muni skilja, hvert er stefnt. Það var einnig hárrjett, sem hann og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) tóku fram, að sameina mætti þjóðmenjasafnið hinum tveim söfnunum. En hví þá ekki ganga lengra? Taka náttúrugripasafnið, listasafn Einars Jónssonar og öll væntanleg söfn og setja undir eina og sömu yfirstjórn. Það væri lafhægt, ef sjerfræðingur væri við hvert safn, sem ynni alt verkið. Þá hefðu menn tryggt sjer það, sem nú er verið að byrja á, að yfirmaðurinn gerði alls ekkert gagn Hann hefði þá svo margt undir, að alt gengi í umsjónarstörf, en sjerfræðingar ynnu alt og bæru ábyrgð á öllu. Þetta skilja allir, en tvísýnt mundi verða um sparnaðinn af þessu fyrirkomulagi. Jeg sætti mig því betur við brtt. hv. þm. V.-Ísf., þar sem hún gerir ráð fyrir að halda yfirstjórnum safnanna aðskildum.

Þessi söfn vor hafa verið borin saman við stóru söfnin erlendis, sem væru margfalt stærri en þessi tvö söfn samanlögð og lytu þó einni yfirstjórn. En munurinn er sá, að þau eru samstæðar stofnanir. Og hve mikill fjöldi manna starfar ekki við þau. Jeg hefi af tilviljun skrifað, hve margir starfa við dönsku söfnin og taka laun eftir launalögum. Við konunglega bókasafnið eru: 1 yfirbókavörður, 6 bókaverðir og 14 undirbókaverðir. Við háskólabókhlöðuna: 1 yfirbókavörður, 5 bókaverðir, 12 undirbókaverðir. Við konunglega skjalasafnið: 1 yfirskjalavörður, 4 skjalaverðir, 11 aðstoðarskjalaverðir, 3 registratorar. Við þjóðmenjasafnið: 2 forstjórar, 5 umsjónarmenn, 7 aðstoðarumsjónarmenn, 1 konservator, 2 ritarar. Auk þeirra er fjöldi starfsmanna við þessi söfn, sem er ekki getið um í launalögunum, aðstoðarmenn, þjónar, bókbindarar, ljósmyndarar, dyraverðir o. s. frv. Það er jafnauðvelt fyrir Dani sem okkur að komast af með einn yfirmann við hvert safn, þegar hann hefir alla þá sjerfræðilegu aðstoð, sem hann getur á kosið. En að því er enginn sparnaður, og mundi ekki heldur verða hjer. Þessum yfirmanni mundi beinlínis verða bætt við; það mundi auðvitað verða valinn til þess ágætur maður, sem yrði sennilega mesti sómi og prýði fyrir söfnin.

Að meira húsrúm yrði vegna þessarar sameiningar, er mjer óskiljanlegt. Rúmmál hússins eykst auðvitað ekki, þó að einn yfirmaður stjórni báðum söfnunum. Þó mætti auka húsrúmið með einu móti: slá öllum reitunum saman og koma á aftur gamla glundroðanum. Láta bækurnar vera innan um skjölin og skjölin innan um bækurnar og hafa hvorttveggja í einum sal. Þá yrði ónýtt verk þess ágætismanns, sem kom safninu á fót sem sjerstakri stofnun og skóp það að miklu leyti. Þá er sögu skjalasafnsins lokið, það verður ekki einu sinni sel frá Landsbókasafninu, heldur einungis hluti úr því. Í mörg ár var unnið að því af kappi að skilja söfnin sundur, og fer mikið verk forgörðum, ef því er glundroðað saman aftur.

Um tillögur Halldórs Hermannssonar er það að segja, að það er vafalaust, að hann hefir ágætt vit á bókasöfnum, en jeg efast um, að tillögur hans í þessu máli eigi að mega sín svo mikils, að rjett sje að samþykkja þetta vegna þeirra. Hann hefir dvalið mestan aldur sinn erlendis og er ekki lengur kunnugur hjer; hann þekkir bókasöfn, en síður, hvað oss hentar hjer, og er því ekki meira mark takandi á tillögum hans en annara góðra manna.

Það mun til lítils að karpa lengur um þetta. Jeg get gjarnan verið með því að setja einn mann yfir öll söfnin, ef menn vilja endilega bæta manni við.