29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (KlJ):

Eins og sjest á greinargerðinni með frv., þá er það fram komið fyrir ósk erlendra vátryggingarfjelaga. Fer það fram á þrjár breytingar á tekjuskattslögunum. Í nefndum

lögum nr. 74, 27. júní 1921, 3. gr., er svo ákveðið, að fjelög, og þar á meðal erlend vátryggingarfjelög, skuli greiða skatt af nettótekjum sínum af starfseminni hjer á landi, og án tillits til þess, hvernig starfsemin yfir höfuð gengur. Með þessu frv. er sú breyting á því gerð, að hjer eftir skuli skatturinn reiknaður út eftir hlutfallinu milli allra iðgjaldatekna fjelagsins hjer á landi og allra iðgjaldatekna þess af allri starfseminni, hvar sem hún er. Þessi aðferð tíðkast víða annarsstaðar og þykir að mörgu leyti hentug. Hafi t. d. fjelagið engar tekjur af starfsemi sinni hjer á landi, þá fær landssjóður þó hlutfallslegan skatt af allri útkomu fjelagsins. Stjórnin hafði mál þetta til meðferðar 1922 og fjelst hún á, að þessar breytingar myndu vera rjettmætar, þó að ekki yrði því við komið að leggja fram frv. þessa efnis fyrir síðasta þing. Í sumar var mál þetta tekið upp aftur af umboðsmanni vátryggingarfjelaganna hjer á landi, hr. Axel Tulinius. Hafði stjórnin þá leitað umsagnar skattstjóra Reykjavíkur um málið og hann tjáð sig því fylgjandi. Fyrir því var svo afráðið að bera frv. þetta fram hjer.

Í 9. gr. laganna um tekju- og eignarskatt eru ekki taldar til skattskyldra tekna þær fjárhæðir, sem ábyrgðarfjelögin leggja frá til tryggingar skuldbindingum við þá, sem trygðir eru hjá þeim. En í 12. gr. reglugerðar um tekju og eignarskatt, 14. nóv. 1921, er þessi grein talsvert þrengra lögskýrð, því þar stendur svo: „Þetta getur þó einungis gilt um skuldbindingar, sem gerðar verða þegar á hendur fjelaginu, t. d. brunatrygging á húsi, sem er brunnið, líftrygging, sem greiða verður bráðlega af því að sá er látinn, sem trygður var“, o. s. frv.

Dönsk lög ganga lengra í þessu efni, segja fortakslaust, að ábyrgðarfjelög sjeu undanþegin því að greiða skatt af upphæðum, sem lagðar hafa verið til hliðar til þess að standast vátryggingarskyldur, eða í ,,bónus“-sjóð, sem ekki þekkist hjer. Þessu er farið fram á að breyta þannig, að fjármálaráðherra getur sett nánari fyrirmæli um heimild fjelaganna til slíks frádráttar.

Það hefir reynst ómögulegt fyrir fjelögin að skila framtölum sínum og reikningum innan þess tíma, er lögin ákveða, og er því þriðja breytingin sú, að ráðherra geti sett ákvæði um það. Skattstjóri hefir fallist á, að rjett sje, að þessi breyting sje gerð. Reynslan mun sýna, hvort ríkissjóður muni tapa eða græða við breytinguna. En það er álit skattstjóra, að útkoman muni verða mjög svipuð.

Að svo mæltu vil jeg óska, að frv. verði vísað til fjhn. að lokinni umr.