22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

5. mál, vegalög

Einar Árnason:

Jeg hefi skrifað undir nál. samgmn. í þessu máli með fyrirvara og í tilefni af því komið fram með 2 brtt. við þetta frv., á þskj. 190.

Jeg býst við, að þeim hv. þdm., sem áttu sæti á síðasta þingi, þyki ekki undarlegt, þó að fyrri breytingartillagan komi fram. En vegna þeirra, sem nú sitja hjer í fyrsta sinn, verð jeg að fara nokkrum orðum um aðdraganda þessa máls.

Um mörg undanfarin ár hafa komið fram kröfur um það, að viðhald brautanna frá Reykjavík og austur verði ljett af sýslufjelögunum og þeim verði haldið við af ríkissjóði. Lengi vel neitaði þingið öllum þessum kröfum og engin breyting var gerð á fyrirkomulagi þessara mála þar til á þinginu í fyrra. Þá báru þm. Árnesinga í Nd. fram enn á ný frv. þess efnis, að viðhaldi brautarinnar frá Reykjavík austur að Þjórsárbrú væri ljett af sýslunni og ríkissjóður kostaði viðhaldið. Undir meðferð málsins í Nd. var sú breyting gerð á frv., að brautinni frá Borgarnesi að Haugum var bætt við, og þannig kom málið til Ed.

Nd. samþykti þetta frumvarp, sýndi ljóslega, að hjer var stefnubreyting á ferðinni, og jafnframt lá það í augum uppi, að ef þessi braut væri tekin, þá leiddi það til þess, að fleiri kæmu á eftir. Enda kom það á daginn, því að 2. þm. Rang. bar fram brtt. þess efnis, að viðhald Holtavegarins væri einnig lagt á ríkissjóðinn, og fleiri þingmenn komu með brtt í sömu átt.

Samgmn. Ed., sem hafði frv. þetta til athugunar, fjekk vegamálastjóra á fund sinn til að ræða þetta mál við hann. Vegamálastjóri taldi óhjákvæmilegt, að ríkissjóður kostaði viðhald flutningabrautanna allra, því að sýslusjóðunum væri það um megn, og vegirnir mundu eyðileggjast sökum vanhirðu, ef sýslunum væri ætlað að sjá um viðhald þeirra. Samgmn. þessarar deildar lagði því til, að vegalögin frá 1907 skyldu endurskoðuð og frv. til nýrra vegalaga lagt fyrir næsta þing. Nefndin segir svo í nál. sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„— — — og væntir nefndin þess, að viðhaldsskyldunni verði í endurskoðuðum vegalögum ljett algerlega af sýslufjelögunum að því er allar flutningabrautir snertir.“

Og við meðferð málsins í þessari deild segir frsm.:

„ — — — Nefndin álítur, að það eigi að endurskoða vegalögin í heild sinni fyrir næsta þing. Vegamálastjóri hefir tjáð nefndinni, að hann hafi ekkert á móti því frá sinni hálfu. Hann álítur einmitt, að viðhaldi flutningabrautanna verði að ljetta af sýslunum, því þeim sje það bæði um megn fjárhagslega og auk þess sje ólag á viðhaldinu.“

Og síðar segir frsm.:

„— — — Nefndin leggur áherslu á það, að endurskoðun laganna fari sem fyrst fram og að þá yrði viðhaldið á öllum flutningabrautum sett inn í þau í einu lagi.“

Það kemur því skýrt fram hjá nefndinni, að hún ætlast til þess, að viðhald flutningabrautanna verði lagt á ríkissjóðinn. Jeg bjóst því fastlega við, að eftir þessu yrði farið, enda hefir það líka verið gert að mestu leyti, en þó furðar mig mjög á því, að þegar frv. nú kemur fram, þá skuli tvær flutningabrautir vera skildar eftir, sem sje Eyjafjarðarbrautin og brautin upp Borgarfjörð. Jeg fyrir mitt leyti get ekki við þetta unað, og flyt því hjer brtt. að því er Eyjafjarðarbrautina snertir. Jeg bjóst við, að samnefndarmaður minn, hv. 3. landsk. þm. (HSn) mundi flytja brtt. viðvíkjandi Borgarfjarðarbrautinni eftir því, sem hann ljet orð falla í samgöngumálanefnd um daginn. En nú hefir hann ekki gert það. Jeg mun þó að sjálfsögðu styðja tillögu um það, ef hún kemur fram síðar. Það stendur svo líkt á með Eyjafjarðarbrautina og ýmsar aðrar brautir, t. d. Sauðárkróksbrautina, Hvammstangabrautina, Eyrarbakkabrautina, Keflavíkurbrautina og Biskupstungnabrautina, sem teknar hafa verið í tölu þjóðvega, að jeg býst ekki við, að hægt sje að. komast hjá því samræmisins vegna að samþykkja þessa brtt. Brautin frá Akureyri og inn Eyjafjörð er fjölfarin mjög, ekki aðeins af innanhjeraðsmönnum, heldur og af langferðamönnum, sem leggja leið sína inn Eyjafjörðinn til að sjá hjeraðið. Bílaumferð er þar líka mjög mikil. Þetta alt gerir það að verkum, að viðhald brautarinnar er mjög dýrt og erfitt fyrir sýsluna. Jeg sje ekki þörf á því fyrir mig að fara frekar út í þessa brtt.; hún er svo sjálfsögð, eftir því sem á undan er gengið.

Um hina brtt. skal jeg taka það fram, að hún er gerð í samráði við vegamálastjóra og orðuð af honum. Það var ágreiningur í nefndinni um það, hvernig skilja bæri 20. gr. Vegamálastjóri álítur, að misskilja megi 20. gr. og þar af leiðandi beita 18. gr. ranglega. Það er helst svo að skilja á 20. gr., að hreppsbúum sje ekki heimilt að verja fje úr sveitarsjóði til vegagerðar fyr en hreppsvegagjaldið hefði verið hækkað upp í hámark, sem sje 5 kr. En jeg er þeirrar skoðunar, að þetta sje ósanngjarnt, því að það getur verið nauðsynlegt fyrir hreppa að verja fje úr sveitarsjóði til vegagerða, án þess að ástæða sje til þess að hækka hreppsvegagjaldið upp í hámark.

Brtt. þessi á því að heimila sveitarfjelögunum að verja fje úr sveitarsjóði til vegagerða, án þess að hækka hreppsvegagjöldin upp í 5 kr. Jeg vona því, að hv. þdm. sjái, að þessi brtt. er til skýringar, og greiði henni þess vegna atkvæði.