14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

5. mál, vegalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg get að mestu látið mjer nægja að vísa til nál. samgmn. hv. Ed. og Nd. á þskj. 179 og 349. Það er í raun og veru aðeins gerð ein meiri háttar breyting á eldri vegalögum með frv. þessu, og er hún í því fólgin, að viðhald flutningabrauta, sem áður hefir hvílt að miklu leyti á hjeruðunum eða sýslufjelögunum, flyst nú yfir á landssjóð, en eins og kunnugt er, þá hefir hann áður tekið á sínar herðar viðhald margra þessara vega að meira eða minna leyti eftir sjerstökum ákvörðunum.

Eftir að sú breyting komst fram á síðasta þingi, að ríkið skyldi taka að sjer viðhald Flóabrautarinnar og Borgarnesbrautarinnar, var í sjálfu sjer lítið orðið eftir af hinni fyrri tilhögun, nema norðan- og austanlands og vegir á austanverðu Suðurlandsundirlendi. Það má því telja það sjálfsagða sanngirni, að viðhaldinu sje einnig ljett af þessum hjeruðum.

Jafnframt þessari breytingu er líka gerð breyting á flokkaskifting veganna, svo að samkvæmt frv. falla nú flutningabrautir undir þjóðvegi, þar sem þær falla inn í kerfi þjóðveganna, þegar viðhaldskostnaður hvorratveggja vega lendir á ríkissjóði.

Þá er enn sú breyting gerð á vegalögunum 1907, að þjóðvegunum hefir verið fjölgað og þeir lengdir, og á það aðallega við um norðurhjeruðin og Strandasýslu. Annarsstaðar hafa litlar breytingar orðið á í þessu efni, nema um veginn austur um frá Húsavík, sem á síðasta þingi var breytt og nú á að liggja um bygðir með sjó fram, í staðinn fyrir að liggja um fjöllin og Mývatnssveit.

Hækkunin, sem lagt er til að nú verði á gjöldum til hreppa- og sýsluvega, stafa auðvitað af breyttu verðlagi peninganna, og eru þessi gjöld nú síst hærri en þau voru ákveðin 1911.

Það eru fremur lítilvægar þær breytingar, sem samgmn. Nd. hefir lagt til, að gerðar verði á frv., og felst hún á það að mestu eins og það kom frá hv. Ed. Við 4. gr. er lítil breyting gerð, og var það til samkomulags við einn hv. nefndarmann. Er hún í því fólgin, að vegamálastjóri geri tillögur um legu fjallvega til ráðherra, og verði þeir ákveðnir eftir þeim tillögum. Að því er kemur til brtt. við 7. gr., þá eru þar feld niður orðin „fastur“ og „fastir“, fyrir þá skuld, að ekki virðist ástæða til, að þessir starfsmenn, sem þar er um að ræða, hafi föst embætti, heldur ættu þau að geta fallið niður þegar lítið er að gera og þeirra er ekki þörf. Hinsvegar þarf enginn að óttast það, þó að þessi orð falli niður, að ráðning mannanna standi ekki óhögguð eftir sem áður meðan þeirra er þörf, og aðstoðarmaðurinn getur verið eins lengi í stöðu sinni fyrir því.

Brtt. við 49. gr. er fram komin vegna ósamræmis milli þessara laga og samþyktarlaga um sýsluvegi frá síðasta þingi. Þar var gert ráð fyrir því, að kauptúnahreppar gætu sloppið við að greiða helming sýsluvegagjaldsins með því skilyrði að leggja ákveðið fje til veganna heima hjá sjer. En eftir þessu frv. geta þeir með sömu skilyrðum sloppið algerlega við öll fjárframlög til sýsluvega, eins og ákveðið var með líkum skilyrðum með vegalagabreytingunni frá 1911, en það samræmist ekki samþyktarlögunum frá 1923, enda virðist lítil sanngirni í því, að láta þessa hreppa verða lausa við alt framlag til sýsluvega, og síst þegar það er athugað, að vegir eru venjulega dýrastir og vandaðastir í námunda við kauptúnin og þá notaðir eins í þarfir þeirra.

Nú er þetta lagað hjer og samræmt 4. gr. laga 1923 og skilyrðin gerð svipuð í báðum tilfellum, en hámarksgjald til hreppsvega í kauptúnum, þegar svo stendur á, hefir nefndin fært niður í 4 kr., í stað 5 kr. í frumvarpinu frá hv. Ed. Er það sýnilegt, að því hærra sem hreppsvegagjaldið er, því þyngri kvöð er það á hlutaðeigandi hreppi, sem kemur móti ívilnuninni, sem nú verður að öllu hliðstæð samþyktarlögunum, og fanst nefndinni sanngjarnlegt að færa þetta gjald niður.

Fleiri brtt. eru ekki við frv. En 3 hv. nefndarmenn hafa ritað undir nál. með fyrirvara, og er mjer ekki fullkomlega ljóst, hvað á milli ber, nema að því leyti er hv. form. nefndarinnar hefir gert fyrirvara um sinn ágreining. Að því er kemur til hinna tveggja, þá hygg jeg, að ágreiningurinn sje ekki mikill. Yfirleitt tel jeg frv. þetta mjög þarft og góða skipun á vegamálunum, og að minsta kosti mikla rjettarbót frá því, sem áður var, því að eins og við er að búast, er vegalöggjöfin orðin úrelt og ósamræmileg vegna ýmsra breytinga á síðari árum. Vil jeg því vænta þess, að frv. þetta fái að ganga rjetta boðleið gegnum hv. deild og greiðlega.