14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

5. mál, vegalög

Pjetur Þórðarson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, en hann nær raunar ekki lengra en það, að jeg hefði helst kosið, að frv. hefði fengið að ganga breytingalaust í gegnum hv. deild. Það er að vísu ekki svo, að jeg sje í sjálfu sjer mótfallinn brtt. eða telji þær ekki geta átt við, en það, sem jeg óttaðist, var það, að þær myndu tefja málið og stefna því í tvísýnu. Og því hefði jeg viljað sporna á móti. Annars vona jeg, að hv. Ed. láti ekki samþykt frv. stranda á þeim breytingum, sem væntanlega verða gerðar á því hjer í hv. deild, ef tími vinst til.

En þetta var nú aukainnskot. Aðallega vildi jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um frv. eins og það liggur nú fyrir. Það er alkunnugt, að margítrekaðar óskir hafa komið fram á Alþingi um það að taka vegalöggjöfina til endurskoðunar, og hefir það nú verið gert af vegamálastjóra, þeim manni, sem mest hefir um þau efni fjallað. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir nú í framsöguræðu sinni lýst aðalbreytingunum, sem frv. þetta gerir á gildandi vegalögum. Jeg er þó tæplega samdóma honum í því, að það, að ljetta viðhaldinu á vegunum af sýslunum, sje mesta breytingin, heldur finst mjer hún vera fólgin í því, að nú veru vegir teknir upp í tölu þjóðvega, sem þar hafa ekki áður fallið undir, og aðrir feldir í burtu, og er það aðallega og öllu heldur vegna vegakerfisins en hins, hvernig og hvar viðhaldið kemur niður. Á jeg hjer sjerstaklega við vegi samkv. 2. gr. frv. Vegamálastjóri hefir tekið upp í frv. nokkuð af flutningabrautum, sem þá heita þjóðvegir, en öðrum hefir hann þó slept. Meðal þeirra flutningabrauta, sem ekki eru teknar, eru hálf Borgarfjarðarbraut og Eyjafjarðarbraut. Þá eru það óneitanlega miklar breytingar að ljetta viðhaldi nokkurra sýsluvega af sýslunum og flytja það yfir á landssjóðinn. Eru þær breytingar í samræmi við það að taka vegi þessa upp í tölu þjóðvega. Er þetta kerfi nú alt komið í eina fullkomna heild, sem Alþingi getur svo aukið við smátt og smátt, eftir því sem ástæður liggja til. Og þó svo sje, að ýmsum hv. þm. finnist sem einhverjir landshlutar hafi orðið útundan að þessu sinni, þá má gera ráð fyrir, að tíminn fyrir þá sje ekki kominn enn, en jeg tel víst, að þetta kerfi verði aukið og fullkomnað, eftir því, sem tímar líða og nauðsyn ber til. Því vil jeg vænta þess, að þó að allir hv. þm. sjeu ekki ánægðir, þá sjeu þau atriði, sem þeim finst, að miður fari, svo smávægileg, að þeir sjái, að ekki sje rjett að setja það fyrir sig, en telji sjer skylt að stuðla að því, að lögin komist á. Mjer er það áhugamál, að þetta þing geti afgreitt lögin, og því hefi jeg skrifað undir nál. með fyrirvara, að jeg hefði helst kosið, að sem minstar breytingar hefðu verið gerðar á frv., til þess að tefja ekki fyrir því.

Finnist einhverjum hv. þm., að of langt sje gengið í því að ljetta viðhaldinu af sýslunum, þá vil jeg aðeins minna á það, að hjer eftir falla ýmsir vegakaflar alveg á sýslurnar, sem taka verður upp í tölu sýsluvega eða halda við á annan hátt, en sem áður hvíldu að nokkru á ríkissjóði. Eins gæti jeg ímyndað mjer, að sumir háttv. þm. hefðu ef til vill fengið ýmugust á frv. vegna þess, að hjer eru sumir vegir, sem sumpart eru fjallvegir eða mjög erfiðir, teknir upp í tölu þjóðvega, en það er tekið fram í 12. gr. frv., hvernig vegamálastjóri hugsar sjer, að með þetta verði farið. Þar segir svo: „Nú verður álitið gagnlegt að gera einhvern þjóðvegarkafla akfæran, og má þá, þegar ástæður eru fyrir hendi, gera það að skilyrði, að hlutaðeigandi sýslufjelög eða sveitarfjelög leggi fram tiltekinn hluta vegagerðarkostnaðarins.“ Þetta er nýung, því að hingað til hafa allir vegir í þjóðvegatölu verið akfærir, en það sýnir, að ekki er skuldbindandi að gera veginn akfæran, ef það er miklum erfiðleikum bundið eða kostar svo mikið, að það nemi stórum fjárhæðum. Viðhaldið yrði þá aðallega fólgið í því að ryðja götur og hlaða upp vörður o. s. frv. Að þessu athuguðu þarf enginn að fráfælast frv. fyrir þessar sakir.

Vil jeg svo að lokum mæla fastlega með því, að frv. nái fram að ganga, og þó jeg vilji ekki sjerstaklega fara að mæla á móti þeim brtt., sem fram eru komnar við það, þá tel jeg þó málið betur komið án þeirra.