14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

5. mál, vegalög

Pjetur Þórðarson:

Jeg get ekki stilt mig um að þakka hæstv. atvrh. (MG) fyrir það, hvernig hann hefir tekið í þetta mál. Virðist hann hafa gert sjer það ljóst öðrum fremur, hvað fyrir mjer vakti.

Það hefir verið minst á flutningabrautir, sem hafa ekki verið teknar í þjóðvegatölu í frv. og talið hefir verið rangt að láta vera fyrir utan kerfið, og er þá sjerstaklega átt við Eyjafjarðarbrautina og nokkurn hluta af Borgarfjarðarbrautinni. Mætti segja með nokkrum sanni, að Grímsnesbraut í Árnessýslu hefði þá átt að vera tekin undan með svipuðum rjetti. En þess er að gæta, að Árnessýsla er eitt þeirra hjeraða, sem stynja undir útgjöldum til vega, og hefir sýslan afskaplega mikið að annast í þessu efni, þó að þessi braut sje tekin upp í lögin.

Jeg ætti síst að mæla á móti því, að þessar brautir, sem jeg nefndi, væru teknar upp í frv., þar sem önnur þeirra er í mínu hjeraði, en þó hika jeg við það. Það virðist að vísu vaka fyrir hv. þm. að taka sem mest af þessum vegum upp á arma ríkissjóðs, en jeg þykist vita, að það muni talið fylla ennþá meira á, ef þessar brautir eru teknar með. Það má auðvitað segja, að lítið muni um einn kepp í sláturtíðinni, þó að þær yrðu teknar í frv., en jeg hika þó við að flytja brtt. um það að svo stöddu.

Þar sem sumir menn halda því fram, að með þessu frv. sje verið að ljetta öllu af hjeruðunum, þá er það minna en virðist í fljótu bragði. Jeg skal fúslega viðurkenna, að miklu er ljett af Mýrasýslu, en hún hefir ærið eftir, þó að þetta gangi fram, og jafnvel þótt hinn helmingur Borgarfjarðarbrautarinnar væri tekinn upp í frv.

Það veitti ekki af, að gengið væri svo langt, sem fært þykir, í því að koma á samþyktum samkvæmt lögunum frá 1923. Það er alkunnugt, að Mýrasýsla, Borgarfjarðarsýsla og Árnessýsla hafa ærið að greiða og eru ekki færar um meiri byrðar en þær hafa, þó að frv. verði að lögum. Ef þetta er að nokkru leyti að snúa frá þeirri stefnu, er tekin var í fyrra, eins og hæstv. atvrh. og hæstv. fjrh. tóku fram, þá ætti sá snúningur ekki að hafa íþyngjandi áhrif á ríkissjóð, og ekkert frekar en þó að frv. yrði ekki að lögum. Þá mundu halda áfram að drífa að sanngjarnar kröfur um að auka þjóðvegakerfið eins og það er nú og ljetta viðhaldi veganna af hjeruðunum, eins og líka var gefið fyrirheit um í fyrra jafnhliða samþykt laganna um sýsluvegasjóði, og sje jeg því ekki, að það geri neitt til, þó að nokkru leyti sje snúið aftur frá stefnunni í fyrra, enda er það miklu minna en nú hefir verið gert orð á.

Mjer þykir sanngjarnt, að nefndin taki á ný til athugunar kostnaðinn af þessu. Er eðlilegt, að hann sje þyrnir í augum sumra hv. þm., þar sem engin grein er gerð fyrir honum. Vænti jeg þess, að þá muni koma í ljós, að ekki er farið lengra en koma mun á daginn smátt og smátt hvort sem er.