01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

5. mál, vegalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Við umræðurnar um þetta mál í Nd. gerði jeg grein fyrir því, að eftir því sem sakir stæðu með fjárhag ríkissjóðs nú, væri ekki tímabært að afgreiða þetta frv., þar sem svo mikið af viðhaldskostnaði flutningabrautanna á að færast af hjeruðunum yfir á ríkissjóð. Jeg vil nú leyfa mjer að vekja athygli háttv. deildar á því, að þó að viðhald þetta hafi verið þungt á sýslunum, þá hefir löggjafarvaldið gert eigi svo litlar ráðstafanir til, að það verði þeim ekki of þungbært hjer eftir, en það er með heimildarlögunum um sýsluvegasjóði frá síðasta þingi, þar sem sýslufjelögunum er gefin heimild til að skipa vegamálum sínum svo, að ríkissjóður greiði viðhaldskostnað sýsluveganna í hlutfalli við framlag hjeraðanna, þannig, að tillag ríkissjóðs fer hækkandi í hlutfalli við það, sem framlag hjeraðanna eykst. Það var því fyllilega gengið út frá því á síðasta þingi, að svo framarlega sem heimildarlög þessi væru notuð, þá væri engu sýslufjelagi ofboðið með viðhaldsskyldunni. Jeg gat þess og í háttv. Nd., að það væri stefnuleysi að fara nú að breyta þessu á næsta þingi. Það lágu fyrir áætlanir frá vegamálastjóra, þar sem hann gerir ráð fyrir, að viðhaldskostnaðurinn muni nema um 40 þús. kr. En í þessari upphæð er þó innifalin upphæð til nýbyggingar á dálitlum kafla Holtavegarins, að 1/3, en gert er ráð fyrir, að 2/3 hlutar sjeu greiddir úr ríkissjóði. Af þessari upphæð mundu um 2/3 færast yfir á ríkissjóð jafnóðum og sýslufjelögin nota heimildarlögin. Eru þá eftir milli 10–15 þús. kr., sem lenda á sýslufjelögunum, og er síst hægt að telja, að það sje ofraun fyrir sýslumar að borga það; að minsta kosti er það ljett, samanborið við að borga alt viðhaldið, eins og verið hefir.

Það má þó enginn líta svo á, að útgjöld ríkissjóðs til viðhalds vega sjeu takmörkuð með þessu, því að ennþá standa lögin frá 1923 um sýsluvegasjóði opin fyrir sýslunum. Geta þær því fengið framlag úr ríkissjóði til viðhalds annara vega, sem þær þurfa. Má því búast við, að kostnaðurinn af þessu frv. fyrir ríkissjóð verði vart minni en 40 þús. kr. Jeg hefði síður en svo amast við, að hraði vegalagninganna hefði aukist, ef nú væri sá rjetti tími til þess. En jeg lít svo á, að það sje þvert á móti nú, þegar þótt hefir óumflýjanlegt að draga úr öllum framkvæmdum á hvaða sviði sem er.

Jeg skal geta þess, að í Nd. bar jeg fram tillögu til rökstuddrar dagskrár til afgreiðslu á málinu, af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú tilgreint. Dagskrártill. þessi var feld með 14:12 atkv. Jeg hefi nú viljað segja þetta hjer, til þess að vita, hvort hv. deild finni ekki ástæðu til að taka málið út af dagskrá nú, til frekari yfirvegunar frá þessu sjónarmiði, áður en það verður tekið til endanlegrar afgreiðslu.