29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

50. mál, hundahald í kaupstöðum og kauptúnum

Jakob Möller:

Jeg ætla aðeins að geta þess, að ef við flm. þessa frv. hefðum ekki orðið fyrri til, var það fullráðið af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur að koma á framfæri frv. í þessa átt. Er það fyrir forgöngu lækna hjer í bæ, eins og hv. samþm. minn, hv. 4. þm. Reykv. (MJ), þegar hefir sagt í ræðu sinni áðan, að þetta frv. er fram komið. Frumvarp þetta, sem hjer liggur fyrir, hefir verið haft í skopi og meðal annars hefir það verið sagt, að þetta frv. væri frumburður hins nýstofnaða Íhaldsflokks. Þetta er í rauninni ekki stórvægilegt atriði, en þar sem jeg hefi lagt nafn mitt við þetta frv., þá er þó bert, að ekki á sá flokkur allan heiðurinn af því! Frv. ætti því ekki að þurfa að mæta neinni andúð þess vegna, enda er engin ástæða til að ætla, að þetta mál verði flokksmál. Þetta er eingöngu heilbrigðismál, og telja læknar það mjög þýðingarmikið, að hemill sje hafður á hundahaldi í bæjum og kauptúnum. Tek jeg svo undir með hv. 4. þm. Reykv., að nefnd sú, sem þetta mál fær til meðferðar, ráðgist um það við Gunnlaug Claessen lækni, — þann mann, sem mest hefir beitt sjer fyrir þetta mál.