20.02.1924
Neðri deild: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1925

Bjarni Jónsson:

Jeg gat að vísu ekki gert mjer fyllilega í hugarlund, hvað hæstv. fjármálaráðherra (KlJ) myndi nú segja, en þó hafði jeg hugsað mjer, hver myndi verða aðalþátturinn í máli hans, þá er jeg hafði litið lauslega yfir nokkrar greinar frv. þessa. Jeg veit, að bæði hann og hæstv. samstjórnarmaður hans, og svo einnig aðrir háttv. þm., eru hjer saman komnir í þeim einlæga ásetningi að bjarga þessu landi — með því að bæta hag landssjóðs og væntanlega landsmanna. En þess er hjer að gæta, að hagsmunir ríkissjóðs og hagsmunir þjóðarinnar fara ekki ávalt saman. Skal jeg þar til dæmis taka, að á undanförnum þingum hefir það stundum komið fyrir, að þingið þyrfti að hlaupa undir bagga með nauðstöddum hrepp eða sýslu. Hefir það þótt vænlegra heldur en að bíða með hjálpina þangað til í algert óefni væri komið. Því að, eins og flestir munu játa, reynist það oftast ljettara að verja falli heldur en að reisa á fætur, eftir að fótanna er einu sinni mist. Nú sje jeg ekki betur, úr því að mönnum virðist útlitið svo skuggalegt, en að það gæti komið fyrir á árinu 1925, að ríkissjóður yrði að hlaupa einhversstaðar undir bagga á svipaðan hátt. Þá eru bjargráð við menn, t. d. dýrtíðarvinna, sem stundum hefir veitt verið og má enn verða, óhjákvæmileg. Og enn hjálp við atvinnuvegi. Það geta t. d. talist alveg nauðsynleg bjargráð við þjóðina, að studd sjeu atvinnufyrirtæki eins og útgerðin, t. d. með ábyrgð, ef ella er örvænt um, að þeim verði haldið áfram. Þá lít jeg einnig svo á, að það geti talist sjálfsagður þjóðarbúhnykkur, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir nýstofnaða innlenda tryggingarsjóði, svo sem lífsábyrgðir, brunabætur og sjóvátryggingar. Getur mitt hreppstjóravit ekki betur sjeð en að óráðlegt sje fyrir jafnskarpskygna fjármálamenn sem vjer erum að láta fje vort streyma þannig að óþörfu út úr landinu, og ekki bætir það gengi krónunnar. Þá er ennfremur að leggja fje í framkvæmdir til atvinnubóta, þegar svo stendur á, að menn lenda í atvinnuþroti, annaðhvort fyrir óhöpp eða af fyrirhyggjuleysi, en seint mun ríkissjóður láta menn deyja drotni sínum úr sulti, án þess að hlaupa undir bagga. Slíkar atvinnubætur yrðu aðallega vegagerðir, sjúkrahússmíð, símalagningar og þess háttar. Auðvitað er þetta neyðarúrræði, en þó myndu menn að jafnaði veita fje til þessa, enda ber að meta framar nauðsyn þjóðarinnar en hag ríkissjóðs. Þá skal jeg nefna liðsinni til samgöngubóta; er jafnan í fjárlögum ætluð álitleg upphæð í þessu skyni og jafnan við aukið, ef þörf þykir á. Fyrir skömmu áttu Íslendingar engin skip, og þótti hlægileg ef þeir ætluðu að eignast skip, þar sem enginn kynni að sigla. Þó sýndu landsmenn þann dugnað að stofna Eimskipafjelag Íslands með almennum samtökum, svo það má kalla þjóðareign, þó ekki sje það ríkiseign, nema að litlu leyti. Síðustu árin hefir fjelagið siglt í köpp við erlend fjelög, er bjóða niður flutningsgjöldin. Hin erlendu fjelögin standa þar ólíku betur að vígi, þar sem þau geta valið um viðkomustaði, en íslensku skipin verða að þræða inn á hverja vík, til þess að sækja hálfan ullarpoka eða kindarkrof. Þó sýna landsmenn ekki fjelaginu þá ræktarsemi, að þeir láti það sitja fyrir aðalflutningum sínum, heldur skifta jöfnum höndum við erlendu fjelögin, og ef til vill framar. Nú þótt landsmenn kunni ekki skil á sínum eigin hag um nokkurra ára skeið, getur ríkissjóður á engan hátt setið hjá og horft á þann misskilning verða fjelaginu að falli, heldur verður hann að hlaupa undir bagga og hjálpa fjelaginu og bjarga með því miklu meiri hagsmunum þjóðinni til handa heldur en hjálpinni nemur. Jeg nefni þessi dæmi einungis til þess að sýna fram á, að það tvent fer ekki altaf saman, að bjarga hagsmunum þjóðarinnar og láta tekjur og gjöld ríkissjóðs standast á.

Jeg sje það á fjárlagafrv. og ræðu hæstv. fjrh. (KlJ), að megnið af þessari þjóðarhjálp er lagt í sölurnar til þess að forðast halla og fá nokkurn afgang. En það er enginn vandi fyrir stjórn eða þing eða hvern, sem vera skal, að gæta hags ríkissjóðs, ef hann á að vera sem sparisjóðsbók, þar sem standa á heima það, sem inn er lagt, við það, sem út er tekið. Allur vandinn er þá að taka aldrei meira út en inn er látið. Sparisjóðsbókin getur staðið hallalaus, þótt eigandinn drepist úr sulti. Til þess að alt standi heima þarf ekki annað en niðurskurð, og sje um það eitt hugsað, getur þing og þjóð látið skrásetja sig sem Sláturfjelag Suðurlands nr. 2. Hitt hygg jeg fremur verkefni þings og stjórnar, að sjá svo um hag ríkissjóðs, að hann geti unnið aðalverk sitt, að vera alstaðar og ætíð til taks að styðja og hjálpa, þegar ríður á, þjóðinni til hagsbóta. En það er öllu meiri vandi en hitt.

Þetta er ekki mælt sjerstaklega til hæstv. stjórnar, heldur til allra þeirra manna, sem bjarga vilja þjóðinni með niðurskurði, en það er sú leiðin, sem flestir munu vilja fara til þess að bjarga þjóðinni. En þeim skal jeg benda á, að niðurskurðarleiðin er ekki heldur trygg. Hvernig sem fjárlögin eru úr garði gerð og hve glæsilegar sem tölurnar eru, getur alt farið norður og niður engu að síður. Þó að tekjurnar verði jafnháar áætluninni að krónutali, geta þær orðið verðgildisminni, eins og reynsla síðustu ára hefir sýnt. Jafnframt verður að bæta upp verðfallið, og þegar önnur hliðin fer þannig upp um leið og hin fer niður, skilst mjer, eftir mínu hreppstjóraviti, að alt muni gliðna í sundur.

Það er því ekki einhlítt að skera niður. Það verður því að taka upp aðra aðferð, sem er tryggari, og sú eina, sem komið getur að haldi, er jeg vil kalla að festa tekjurnar. Festa krónuna, eða þá reikna tekjurnar eftir öðru verðmæti. Krónan getur þá dinglað fram og aftur eins og hún vill, þegar þessi fasti verðmælir heldur sjer.

Ráðið til þessa ætti að vera auðfundið. Norðmenn hafa t. d. tekið gullkrónuna og fest tekjurnar á þann hátt. Sama gætum vjer gert. Jeg veit ekki með vissu, hvers virði gullkrónan muni vera nú, en eftir dollaraverðinu fyrir nokkrum dögum ætti hún að standa í hjer um bil kr. 2,20. Ef þær upphæðir, sem nú standa í fjárlögum, yrðu innheimtar í gullkrónum, myndu tekjurnar aukast um meira en helming.

Jeg veit nú ekki nema mönnum kunni að finnast þetta óþarflega mikill tekjuauki og ónauðsynlegt harðræði við landsmenn, enda ætti þessi aðferð að vera óþörf fyrir þjóð, sem hefir vanist á að reikna í landaurum í meira en 1000 ár. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, þó að vjer tækjum upp þessa aðferð til þess að reikna með föstu verðgildi, sem vjer kunnum einir af öllum þjóðum.

Til þess að tryggja landssjóð fyrir verðfalli á tekjum hans á þessum fjárl., nægir að reikna núverandi tekjur hans í álnum og margfalda síðan á komandi árum með hlutfallinu milli þeirrar álnar, sem nú gildir, og þeirrar, sem gildir næsta ár á undan því, sem áætlunin er gerð fyrir. Þá verður hlutfallið

af : an

þar sem a merkir alin, n líðandi ár, en f ártalið x-1, en x er árið, sem áætlunin er gerð fyrir.

Ef þetta væri ákveðið, mætti stöðva tekjugildið, svo að það verði aldrei minna en nú er til ætlast. Það er nú að vísu svo, að þessi fjárlög eru samin með það fyrir augum, að þau gildi fyrir árið 1925. En ákvæðin, sem tekjurnar eru teknar eftir, stafa frá ýmsum árum. Ættum vjer því að ganga feti framar og festa ekki tekjurnar í samræmi við það, sem nú er áætlað, heldur taka tillit til verðmætis þeirra, þegar hver og einn tekjustofn var ákveðinn. Tekjustofna þá, sem ákveðnir eru með lögum eldri en 1914, mætti margfalda með hlutfallinu milli meðalálnarinnar fyrir síðasliðið ár, sem er 137, og meðaltals meðalálnanna síðustu 20 árin fyrir 1914, en það er 53. Tekjustofna, sem ákveðnir eru síðan 1914, mætti margfalda með hlutfallinu milli 137 og meðalálnar hvers árs, og koma þá hlutföllin:

fyrir árið 1914 137:60

— — 1915 137: 61

— — 1916 137:92

— — 1917 137:99

— — 1918 137:115

— — 1919 137:144

— — 1920 137:195

— — 1921 137:189

— — 1922 137:157

Við þetta mundu sumir tekjustofnarnir hækka, en aðrir, sem samþyktir hafa verið síðastliðin 4 ár, lækka. En þyki mönnum þetta of flókið, mætti reikna allar tekjur framvegis eftir hlutfallinu milli síðasta árs og meðaltals síðastliðinna 30 ára, en það yrði 137:89. Með því að reikna þannig, yrði aðalupphæð teknanna eftir þessu frv. á elleftu miljón kr.

Þetta, sem jeg nú hefi sagt, er bygt á því, að hver og einn tekjustofn á að sjálfsögðu aldrei að verða verðminni heldur en það þing ætlaðist til, er samþykti hann. Með þessu mótinu verða tekjurnar stöðvaðar eða festar, svo að þær ættu að hrökkva fyrir útgjöldunum, án þess að til niðurskurðar þurfi að koma. Og þó greiðir enginn meira en löggjöfin ætlaðist til, þegar lögin voru sett.

Nú er það sýnt, að við þetta myndu útgjöld ríkissjóðs og aukast nokkuð. En eigi þá að bæta hag ríkissjóðs, getur hver og einn sagt sjer sjálfur, að tekjuaukinn verður að koma einhversstaðar að. Verði leitað þeirra bragða, að skera niður, kemur hann líka einhversstaðar að, sem sje frá hinum skornu mönnum.

Jeg skal nú sýna dæmi þess, hversu varhugaverður niðurskurður getur verið og gagnslítill. Heyrt hefi jeg, að sumir menn vilji skera niður heimspekisdeild Háskólans. Þar vinna nú 6 menn, sem hafa um 5000 kr. hver að meðaltali. Samkvæmt gamalli venju þykir ekki sæmandi að kasta embættismönnum fyrirvaralaust út á klakann, og myndu þessir menn því njóta biðlauna fyrstu árin, sem svara myndu 2/3 embættislauna þeirra. Sparnaðurinn yrði því fyrst í stað einar 10000 kr. árlega. Til móts við þessa upphæð kemur nú margt annað. Nú stunda 6 menn nám í þessari deild. Þessir menn yrðu að fara utan til að halda áfram námi sínu. Auðvitað yrðu þeir ekki lægra settir en aðrir íslenskir stúdentar, sem nema erlendis þær greinir, sem ekki er kostur að nema hjer. Þeir fengju því 1200 kr. árlega hver um sig, og það í danskri mynt, og er þá komið hátt upp í þessar 10000 kr. Munurinn er sá, að þetta fje fer út úr landinu, í stað þess að láta kennarana njóta þess. Við þetta bætist, að það fje, sem piltarnir þurfa sjer til lífsuppheldis umfram styrkinn, verður að flytja úr landi í dönskum krónum, og er það síst til þess að bæta gengið. Þá er og rjett að geta þess, að nú gjalda þeir fyrir fæði og húsnæði í Reykjavík, sem einhver kann að hagnast á. Þetta er gott dæmi þess, hve lítill sparnaður er að slíkum niðurskurði. Þó að 10 embættismenn verði settir á sveitina í stað þess að leyfa þeim að þjóna embættum sínum, bætir það í engu hag landssjóðs eða þjóðarinnar. Nema menn legðu þá beinlínis niður við trog og mannaket væri í háu verði erlendis og ótollað.

Eins og jeg hefi tekið fram, yrðu tekjurnar hærri, ef svo væri reiknað, sem jeg hefi nú greint. En álögurnar kæmu þá niður nákvæmlega á þann hátt, sem löggjafinn ætlaðist til í upphafi. Gjaldendur nytu ekki gengisgróðans og ríkissjóður tapaði ekki á honum. Ríkissjóður hefði þá nægilegt fje til þess að standa sómasamlega straum af útgjöldum sínum og tilkostnaði, og gæti hlaupið undir bagga með þeim atvinnugreinum, sem þyrftu opinbers styrks í bili.

Þingið á ekki að koma saman eingöngu til þess að bæta hag þjóðarinnar með reikningslegum jöfnuði á fjárlögunum, heldur einnig með viturlegum lögum. Það á þingið að telja höfuðskyldu sína og þykjast eiga erindi til þess á hverju ári, því að enginn er svo vitur, að hann geti spáð í 2 ára eyðu, eins og nú er ástatt. Það á fyrst og fremst að sjá um að skapa ekki drepandi kyrstöðu í landinu, með því að neita um fje til nauðsynlegra athafna, heldur gæta þess, að blóðrás þjóðfjelagsins, framkvæmdirnar, stöðvist ekki, svo að alt, sem til framfara horfir, gangi ekki eins vel, heldur betur en áður.

Hæstv. fjrh. (KlJ) drap á eitt atriði, sem sjálfsagt er, að þingið láti til sín taka, en það er að bæta gengi íslensku krónunnar. Jeg hygg, að menn muni vera á einu máli um það, að lántaka sje ekki einhlít til þess að stöðva fall krónunnar. Fyrir nokkrum árum hefði það ráð verið ærið til þess að koma í veg fyrir gengishrun, áður en það hófst. Árið 1920 skoraði jeg á stjórnina að taka lán, því að þá var einsætt, að fje það, er þeir menn skulduðu bönkunum, sem ekki gátu selt síld sína, hlaut að standa fast um langan aldur, og varð því ekki notað til þess að styðja, atvinnuvegina eða greiða erlendar skuldir. Það er þetta tjón, sem menn búa að enn þann dag í dag. Menn mega ekki furða sig á, þó að þjóðarbúskapinn muni um minna en mikinn hluta eins árs framleiðslu, sem brást svo algerlega, að jafnvel varð að greiða stórfje fyrir að kasta afurðunum í sjóinn. Þetta tjón lætur nú til sín finna, og bætur þess verða ekki gripnar upp úr engu. Bankarnir verða fyrst og fremst fyrir þessu tjóni, þeir tapa fje sínu, eða það stendur fast um langan tíma. Úr þessu hefði verið bætt, ef lán hefði verið tekið í tíma, meðan lánstraust landins var gott, í stað þess að bíða þangað til þjóðin var komin í gapastokkinn og lánið fjekst ekki nema með miklum eftirgangsmunum og ókjörum.

Þetta hefir miklu frekar valdið hruni krónunnar en seðlaútgáfan. Þó að það sje að vísu rjett, að of mikil seðlaútgáfa geti verið hættuleg fyrir gengið, get jeg ekki fallist á, að hún hafi nokkurn tíma verið hófi meiri hjer á landi. Seðlaútgáfan hefir komist upp í rúmar 11 milj. króna, en árið 1914 var hún 3¼ milj. kr. Þá var krónan ekki meira en fjórðungs ígildi við það, sem hún var 1914, og ef ferfölduð er seðlaútgáfan þá, koma út tæpar 13 milj. kr., sem er meira en úti var af seðlum, þegar mest var. — Það eru skuldirnar og kröfurnar á menn, sem felt hafa gengið, því að þegar erfitt fór að verða með yfirfærslur, þá tóku menn að selja þær og færa niður verð þeirra. Hitt er aftur á móti mjög vafasamt, hversu auðvelt sje eða með hverju móti hægt sje að rjetta gengið við aftur. Nú hafa ýmsir danskir menn keypt talsvert af íslenskum krónum og keypt fisk fyrir, og taka þá auðvitað allan hagnað í sínar hendur. Má vel vera, að þeir reyni að lækka íslensku krónuna sem mest, þegar gjalddagi kemur, og væri þá mikið í það varið fyrir oss, ef vjer gætum sett krók á móti bragði. Mjer er ekki vel kunnugt um muninn á innfluttum og útfluttum vörum, en tel víst, að hann sje ekki svo mikill, að rjettlætt fái gengislækkunina. Mikið gagn gæti af því flotið, ef hægt væri að fá þjóðina til að spara. En það er ekki löggjafarmál. Alþingi er ekki húsbóndi þjóðarinnar. Það er undir vilja þjóðarinnar sjálfrar komið, hvort hún vill hætta að lifa um efni fram. Lærist henni það ekki og vilji hún ekki spara við sig, getur vel komið til mála, að grípa verði til innflutningshafta, en það er neyðarúrræði. Svo er þá líka á það að líta, hvað það sje, sem banna beri innflutning á. Ekki framleiðir land vort alt, sem þjóðinni er nauðsyn á. Það er því ekki nóg að þingmenn ræði um þetta í hornum og skúmaskotum, heldur þyrfti nefnd að setjast á rökstóla, sem skipuð væri fulltrúum allra atvinnuvega, og auk þess konu og lækni. Vel gæti jeg ímyndað mjer, að svo færi, að sparnaðurinn við þetta reyndist sýnu minni en menn gera sjer í hugarlund. Og meira en lítið hlyti örugt tolleftirlit að kosta oss, svo stórt og vogskorið sem land vort er. Öllu heppilegra myndi það reynast að hækka að mun tollinn á óþarfa varningi og þeim vörutegundum, er menn vildu hefta innflutning á, því að með því væri ríkissjóður betur settur, og þó auðmenn einir hefðu þá efni á að klæðast silki og safala, þá væri það huggun fyrir oss hina, að þeir hefðu þurft að gjalda drjúgan toll í ríkissjóð fyrir það skart. Jeg vil nú ekki bæta mörgum fleiri skraddaraþönkum við þetta, þó enn þá sjeu eftir ýms atriði, sem benda mætti á, svo sem það, að nota betur innlend hráefni og kenna mönnum að búast sem mest að sínu. Myndi það reynast hyggilegt, að komið yrði hjer upp vönduðum sútunarsmiðjum og klæðaverksmiðjum. Vantar talsvert á, að þessar iðngreinar sjeu komnar í rjett horf.

Þetta áttu aðeins að vera almennar athugasemdir viðvíkjandi fjárlögunum, og hefi jeg komið með þær vegna þess, að mjer hefir alloft verið borin á brýn bruðlunarsemi á fje landsins, ekki síst ef vísindi og listir áttu í hlut. Vita það þó allir menn, að slíku verður hjer ekki haldið uppi án stuðnings hins opinbera. Og þó jeg viti, að fjármálamenn þingsins muni koma með margvíslegar tillögur og snjallar, fjárhag landsins til viðreisnar, og jeg efa ekki, að háttv. þm. sjeu hingað komnir með einlægan vilja til þess, þá vildi jeg þó ekki láta undan falla að koma með þessar athugasemdir, sem nokkurskonar veganesti handa háttv. fjárveitinganefnd, þar sem jeg mun ekki að þessu sinni, sem stundum að undanförnu, dvelja dagvistum með þeim, sem nú fjalla um fjárlögin.