17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

46. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Eins og sjest á þskj. 129, þá hefir mál þetta legið fyrir sjútvn. Hefir hún athugað frv. allrækilega og orðið sammála um að mæla með, að það nái fram að ganga; þó með nokkrum breytingum.

Við 1. umr. hafa verið teknar fram helstu ástæðurnar fyrir því, að frv. er fram komið, og þarf jeg því ekki að rekja það nánar. En jeg vil með fám orðum minnast á einstaka liði þess og þær brtt., sem nefndin hefir við það gert.

Með 1. gr. frv., sem er breyting á 3. gr. laganna frá 1923, hefir nokkur rýmkun verið gerð frá því, sem nú er. En sú rýmkun fer í þá átt að leyfa mönnum að öðlast skírteini til að fara með 12–50 ha. vjel, ef þeir hafa áður stundað vjelgæslu í 12 mánuði eða lengur.

2. brtt. við frv. fer fram á, að menn, sem um ræðir í 4. gr. laganna, sem próf hafa frá vjelskólanum, skuli hafa farið með vjelar í 12 mánuði, í stað 6. í frv. var þessi tími ákveðinn 24 mánuðir, en nefndin breytti því.

Þá hefir sjútvn. ekki getað fallist á, að orðin „eða til stuttra ferða“ falli burt í 6. gr. laganna. En hingað til hefir það verið mjög á reiki, hvað telja beri stuttar ferðir. Sumir telja þar undir t. d. ferðir til Sandgerðis, aðrir til Akraness o. s. frv. En nýlega mun þó dómur í hæstarjetti hafa fallið um það efni, hvað telja beri siglingar innfjarða, og var á það minst í nefndinni að breyta frv. í þá átt, en úr því varð þó ekki; en orðin „til stuttra ferða“ í lögunum kemur þó varla til mála að leggja rýmri skilning í en átt er við með siglingum innfjarða í áðurnefndum dómi.

Þá kemur breytingin á 7. gr. laga 3923, í 5. gr. frv. á þskj. 48. Þar er dálítið rýmkað ákvæði laganna um það, að þeir, sem áður hafa um lengri tíma gegnt stöðu sem vjelstjórar eða vjelgæslumenn á mótorskipum áður en lögin öðlast gildi, haldi áfram rjettindum sínum, og sje það ekki bundið við starf á „samskonar skipi“, enda hefir það orðalag verið skilið á ýmsan veg. Nú gerir nefndin ráð fyrir, að þessi tími sje 12 mánuðir, í stað 18 mánaða, sem frv. til tekur.

Þá er enn sú breyting við lögin frá 1923, að samkv. 3. gr. frv. er það felt niður, að þeir, sem hafa próf frá vjelstjóraskóla Íslands, geti öðlast rjett til að verða vjelstjórar á mótorskipum með 150 ha. vjel, fyrri en þeir hafa öðlast skírteini sem 1. vjelstjóri á gufuskipi, samkv. 7. gr. laga nr. 43, 3. nóv. 1915. Undirbúningstímann þykir sjútvn. hæfilegt að ákveða 6 mánuði. Þessi brtt. er fram komin vegna þess, að menn, þó próf hafi frá vjelstjóraskóla Íslands, þykja að vonum lítt færir að fara með vjelar fyrri en þeir hafa fengið sæmilega leikni í því. Mælir nefndin með því, að þessi breyting nái fram að ganga.

Þá vil jeg taka það fram í sambandi við brtt. mínar frá í fyrra, að hjer er ekki gengið eins langt í þessu frv. Eftir því geta próflausir menn ekki farið með vjelar með 50–100 hestöflum. Þó er ætlast til þess, að próflausir menn geti unnið sig áfram til þess að geta farið með vjelar alt að 50 hestafla.

Hvað snertir brtt. hv. þm. Borgf. (PO), þá er hún svo nýlega fram komin, að jeg hefi ekki haft tök á að bera mig saman við meðnefndarmenn mína, hvort þeir geti fallist á hana. Vil jeg því að svo stöddu ekkert um hana segja. Hv. flm. mun bráðum gera grein fyrir henni, og getur þá verið, að nefndin geti eftir atvikum fallist á hana.