17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

46. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Pjetur Ottesen:

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) mintist á lögin um stofnun mótorskóla, en jeg sje ekki, að það snerti neitt brtt. hans. Þær fella ekki þau ákvæði úr lögunum, sem snerta skólann.

Viðvíkjandi því áliti hv. nefndar, að menn, sem hafa stundað vjelgæslu svo og svo langan tíma, sjeu vel hæfir til starfsins, þannig, að þessi langi starfstími sje eða geti verið fullnægjandi trygging fyrir því, að maðurinn sje starfinu vaxinn, þá vil jeg benda á það, að það er viðurkent, að eftir það, að vjelgæslunámsskeið Fiskifjelagsins hófust, hefir vjelgæslu farið stórum fram. Svo það er full sönnun fyrir því, að í þekkingu þeirri, sem menn hafa fengið á þessum námsskeiðum, er mikil trygging fólgin fyrir varðveislu þess mikla verðmætis og mörgu mannslífa, sem um er að ræða. Hjer er yfirleitt svo mikið í húfi, að gæta verður fylstu varúðar, og ljettúð og kæruleysi í þessum efnum er þegar búið að baka þjóðinni svo mikið tjón, að ætla mætti, að það væri næg ábending til þess að fara varlega og ganga ríkt eftir, að ekki skorti á um nauðsynlega þekkingu þeirra manna, sem falið er þetta ábyrgðarmikla starf, að gæta vjelanna, og það því fremur, sem því er svo varið yfirleitt með vjelbátana, að verði eitthvað áfátt við vjelina, er alt í voða.

Þá er úrskurður stjórnarinnar um það, hvernig skilja eigi orðin „samskonar skipi“ í niðurlagi 7. gr. laganna. Hann tekur af allan vafa og jafngildir lögum, enda er það tekið fram í 9. gr., að ágreining út af lögunum eigi að bera undir úrskurð stjórnarinnar. Brtt. nefndarinnar í þessu atriði er því alveg ástæðulaus. Aftur er það rjett hjá hv. 2. þm. Reykv., að ef brtt. nefndarinnar við 3. gr. verður samþykt, þá er mín brtt. óþörf.