17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

46. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er rjett hjá hv. þm. Borgf., að það er ekki farið fram á það í brtt. að fella niður úr lögunum neitt um mótorskólann í Reykjavík, en hinsvegar er það þýðingarlaust við samning slíkra laga sem þessara að binda atvinnurjett manna við prófskírteini frá þessum skóla. Að vísu bjuggust menn við því þá, að hann mundi taka til starfa innan skamms, og því var gengið svona langt. En nú horfir alt öðruvísi við um stofnun þessa skóla, en ákvæðin standa og hafa óbein áhrif í þá átt að bægja próflausum mönnum frá því að halda áfram starfi sínu.

Öðru þarf jeg ekki að svara í ræðu hv. þm. Borgf. Hvað snertir úrskurð stjórnarinnar og það, sem háttv. þm. var að vitna í 9. gr. laganna, þá sje jeg ekki annað en það standi óhrakið, sem jeg sagði áðan um það atriði, enda hljóðar 9. gr. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vill einhver ekki hlíta úrskurði lögreglustjóra um útgáfu skírteinis, og skal hann þá leggja málið undir úrskurð stjórnarráðsins, en við það skerðist þó ekki rjettur hans til þess að leita dómsúrskurðar um málið.“

Af þessu er auðsjeð, að úrskurður stjórnarráðsins er ekki síðasti úrskurður í málinu, og því er rjett og eðlilegt að breyta 7. gr. laganna svo, sem nefndin leggur til.