28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

100. mál, verðtollur

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg hefi fyrir hönd nefndarinnar engu verulegu við það að bæta, sem jeg sagði við 1. umr.

Frv. er ósköp stutt og efnið svo skýrt, að engin ástæða er til að fara verulega út í einstakar greinar.

Jeg vil aðeins taka það fram, að nefndin taldi heppilegast að hafa frv. sem allra styst, og er því í 2. gr., að því leyti sem til framkvæmda kemur, vísað til vörutollslaganna.

Ákvæði þeirra laga verða að vísu ekki algerlega heimfærð til þessara laga, en að breyttu breytanda eru þar öll sömu ákvæðin, svo tilvísunin virtist nægja.

Frv. hefir þannig verið borið undir lögreglustjóra, og hafði hann ekkert við það að athuga. Auk þess er svo ákveðið, að stjórnin geti í reglugerð sett önnur ákvæði, sem nauðsynleg eru til framkvæmdar laganna.

Nefndinni þótti ekki rjett að ákveða tímann, sem lögin gildi, nema til ársloka 1925. Þetta er aðeins bráðabirgðaráðstöfun, sem horfið verður frá undireins og fjárhagsástandið leyfir. Auk þess er hugsanlegt, að framkvæmdin reynist svo erfið, að það þætti ekki fært að halda lögunum lengur þess vegna.

Nefndin vildi, að undanskildar væru þessum tolli þær vörur yfirleitt, sem alveg eru nauðsynlegar til notkunar og engin ástæða er til að ætla, að verði notaðar umfram þörf, og eru því þessar undantekningar teknar upp í 1. gr. Auðvitað getur það verið álitamál, hvort ekki sjeu sumar þær vörur teknar að óþörfu, en öðrum slept. Kemur það til athugunar við þessa umræðu, og býst jeg við, að hver hv. þm. geri það upp með sjer, og komi þá með brtt., ef hann lystir.

Við nánari athugun og að gefnu tilefni þótti nefndinni rjett að fallast á brtt. á þskj. 228, II. lið, um að heimila stjórninni að undanskilja þessum tolli þær efnivörur, sem innlendum fyrirtækjum er nauðsynlegt að vinna úr. Var ógerlegt að telja þær upp. Bæði hafði nefndin ekki fullkomnar upplýsingar um þær allar, enda er það breytilegt, eftir því hvaða fyrirtæki eru starfrækt í svipinn. Geta komið upp ný fyrirtæki, sem þurfa á öðrum efnivörum að halda en þau, sem nú eru rekin, og er sjálfsagt, að hið sama gildi um þau og hin, sem fyrir eru.

Hinsvegar má segja það, að undantekning slíkra vara hefir litla þýðingu hvað fjárhaginn snertir, því tollurinn á þeim, er ekki svo hár, að neinu nemi.

Á sama þskj. er önnur brtt. frá mjer og hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), og stafar hún af því, að frv. eins og það er nú nær til ákveðinna flokka vörutollslaganna, og þessar vörur, sem taldar eru í brtt., eru í öðrum flokkum. Hefðu þær því fallið undan þessum lögum að öðrum kosti.

Varð ekki samkomulag í nefndinni um þetta, meðfram af því, að sumir töldu rjettara að banna innflutning á þessum vörum. Er ósjeð, hvað úr slíku verður og hvort nokkurt bann kemst á. Ef svo skyldi fara, töldum vjer flm. rjettara að taka þetta fram í frv.