28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta frv. er borið fram af hv. fjhn. sem tekjuaukafrv., og tel jeg mjer því skylt að gera ofurlitla grein fyrir, hver þörf sje á tekjuauka. Vænti jeg þess, að hæstv. forseti (BSv) hafi ekkert á móti því, að jeg, af þessari sjerstöku ástæðu, fari nú við þessa 2. umr. ofurlítið lengra en venja er eftir þingsköpum.

Síðan jeg tók við fjármálaráðuneytinu, hefi jeg, eftir því sem tími hefir unnist til frá þingstörfum, reynt að komast að sem glegstri niðurstöðu um það, hvernig fjárhagnum sje nú varið.

Fyrst og fremst hefi jeg reynt að kynna mjer, hverjar skuldirnar muni vera í raun og veru, því þær bera reyndar bestan vott um það, hvernig fjárhagurinn er.

Skal jeg þá leyfa mjer að gefa hjer dálítið yfirlit yfir skuldir ríkissjóðs nú, um það leyti, sem verið er að ljúka við inn- og útborganir, sem koma eiga í landsreikninginn fyrir árið 1923.

Þá eru fyrst eftirstöðvar danskra lána, sem flest eru kunn hv. þm. af landsreikningunum. Nema þau samtals 7560000 dönskum kr. Hjer við bætist bráðabirgðalán í Landsbankanum hjer, 800 þús. danskar kr. Önnur lán í erlendum gjaldeyri eru eftirstöðvar enska lánsins svonefnda frá 1921, ríkissjóðshlutans, 129 þús. pund sterling, og ennfremur í sama gjaldeyri lán hjá Landsbankanum tæp 13 þús. pund sterling. Þessar tvær upphæðir nema, eftir núverandi verðgildi peninga, í ísl. kr. 4730000, en lánin í danskri mynt eru samtals um 10285000 ísl. kr., samkv. því gengi, sem nú er.

Þá koma eftirstöðvar innlendra lána, sem einnig eru kunn frá landsreikningunum og nema samtals um 850 þús. kr. En þar að auki eru ýms bráðabirgðalán innlend, sem ekki hafa ennþá verið talin með skuldum í landsreikningi eða skýrslu um eignir og skuldir ríkissjóðs, og tel jeg því rjett að gera nokkra grein fyrir þeim nú. Þar er fyrst hlaupareikningslán í Íslandsbanka, 240 þús. kr. Er það fallið í gjalddaga, og hefir bankinn skriflegt loforð um greiðslu þess fyrir 1. næsta mánaðar. Þá eru 7 smálán í Landsbankanum, sem nema samtals um 850 þús. kr. Þar á meðal er lán vegna silfurbergsnámunnar 70 þús. kr., sem hefir reyndar verið talið í landsreikningi áður. Auk þess eru í þessari upphæð falin þessi lán: Sjerstakt lán vegna stækkunar á rafmagnsstöð Seyðisfjarðar 60 þúsund kr., hlaupareikningslán ríkisfjehirðis, sem honum er ætlað að grípa til, til þess að geta staðist daglegar útborganir, 327 þús. kr. Þá kemur konungskomunefndin með 32 þús. kr., Flóaáveitan með 61 þús. kr., innskotsfje ríkissjóðs fyrir árið 1923, sem enn er ógreitt, að upphæð 100 þús. kr. og víxillán 200 þús. kr. Frá gengur ágóðahluti ríkissjóðs af starfrækslu bankans árið 1922, að upphæð 28 þús. kr.

Þá skuldar ríkissjóður landhelgissjóði nú um 840 þús. kr., og við þá upphæð á að bæta, samkvæmt undangenginni venju, sektum fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi 1923, en þær hafa venjulega ekki verið greiddar sjóðnum fyr en eftir að reikningur ríkissjóðs fyrir komandi ár hefir verið gerður upp.

Þá er bráðabirgðalán, sem ríkissjóður hefir tekið hjá kirkjujarðasjóði, 120 þús. kr., og loks annað hjá viðlagasjóði, 160 þús. kr.

Sjeu allar þessar skuldir ríkissjóðs, sem mjer nú er kunnugt um, reiknaðar til íslensks gjaldeyris, þá verða þær, eftir núverandi gengi, 22075000 ísl. kr. eftir því sem jeg hef komist næst, og þar af hreinar lausaskuldir, að því er jeg best veit, 3700000 kr., og þar af þó nokkur hluti, eða a. m. k. l½ milj., í erlendum gjaldeyri.

Nú kunna að vera nokkrar smáupphæðir, sem rjett væri að telja enn til skulda ríkissjóðs, svo sem ógreiddir vextir af einhverjum hluta lausaskuldanna — og ennfremur ógreidd einhver lögmælt tillög úr ríkissjóði, svo sem til hafnargerðar í Vestmannaeyjum, sem jeg veit ekki enn með vissu, hve mikið verður, en fer sennilega ekki fram úr 50 þús. kr. Vera má og, að einhverjar skuldir sjeu enn vegna vegavinnu og annars, sem ríkissjóður ljet framkvæma síðastliðið sumar og fjekk greiðslufrest á. En alt eru þetta fremur smáar upphæðir, sem jeg hefi ekki ennþá getað fengið nákvæmt yfirlit yfir.

Það er í sjálfu sjer ekkert undarlegt, þó að lausaskuldir ríkissjóðs nemi svo mikilli upphæð, sem raun ber vitni um. Hv. þm. er það kunnugt, af upplýsingum, sem þeim hafa áður verið gefnar, að tekjuhalli ríkissjóðs árið 1922 varð 2,6 milj. — og einnig hefir verið skýrt frá því, að eftir því, sem næst verði komist, muni tekjuhalli á árinu 1923 reynast um 2 milj. króna, en hvorugt þessara ára hafa nokkur ný föst lán verið tekin. Þessi tekjuhalli, sem mun vera hátt á 5. miljón króna, hefir því verið greiddur þannig: Í fyrsta lagi hefir gengið til þurðar sá sjóður, sem til var í árslok 1921. Þá hefir landsverslunin afborgað talsvert af lánum sínum hjá ríkissjóði, en mestur hluti tekjuhallans hefir safnast fyrir í lausaskuldum. Hefir þessi samsöfnun skulda óhjákvæmilega í för með sjer umframeyðslu á yfirstandandi fjárhagsári, umfram það, sem fjárlög fyrir árið 1924 gera ráð fyrir. Kemur það fyrst og fremst til greina að því er 7. gr. fjárlaganna snertir, greiðslur af lánum ríkissjóðs. Jeg hefi reiknað út, hversu miklu muni nema greiðslur samkv. þeirri grein á yfirstandandi ári, og með því að eingöngu verði borgaðir vextir af lausaskuldunum, en engar afborganir, komst jeg að þeirri niðurstöðu, að sú upphæð yrði um 2400000 ísl. krónur, eftir því gengi, sem nú er. En í fjárlögunum eru þessar greiðslur áætlaðar 2040000 kr., eða hjer verður með öðrum orðum 360 þús. króna óhjákvæmileg umframeyðsla. Því miður er vitanlegt, að einnig á öðrum liðum verður ekki komist hjá umframeyðslum. Í því sambandi hefir áður verið minst á greiðslur vegna berklavarnalaganna. Þær eru í fjárlögunum áætlaðar 75 þús. kr., en hætta þykir á, að þær muni nema 300–400 þús. kr. Og þó að þinginu takist að draga eitthvað úr þessum greiðslum, þá er enginn vafi á, að liðurinn fer langt fram úr áætlun. Þar að auki sýnir reynslan árið 1923, að á þessu ári muni einnig verða ýmsar aðrar umframeyðslur, vegna þess að áætlunarliðir fjárlaganna eru ekki nógu háir.

Fjárlögin fyrir árið 1924 eru sem sje mjög lík fjárlögum ársins 1923, og er ekki sjáanlegt, að komist verði hjá þeim umframgreiðslum á þessu ári, sem óhjákvæmilegar voru á síðasta ári. A. m. k. er mjög óvarlegt að gera ráð fyrir því. En stjórnin mun að sjálfsögðu gera alt, sem í hennar valdi stendur, til þess að greiðslur ríkissjóðs verði sem allra minstar fram yfir áætlanir fjárlaga þessa árs, ef hún á að fara með völd til ársloka. Þó má nefna fleiri allstórar upphæðir, sem jafnvel væri æskilegt, ef ekki óhjákvæmilegt, að geta greitt umfram áætlun fjárlaganna. Skal jeg í þessu sambandi nefna strandgæslukostnaðinn. Hann fór fram úr áætlun árið 1923, og er þó allra manna mál, að ýmsir landshlutar, og þá einkum Vestfirðir, hafi mjög farið varhluta af aukinni strandgæslu. Hafa heyrst allsterkar raddir um aukna strandgæslu, ef nokkur kostur er á, en jeg sje þess enga leið með þeim tekjum, sem ríkissjóður hefir nú.

Nú hefir fráfarandi stjórn gert ráðstafanir til þess, að feldar verði niður ýmsar áætlaðar framkvæmdir á þessu ári. Stærstu upphæðirnar, sem sparast ríkissjóði á þann hátt, eru 100 þús. kr., sem ætlaðar voru til vegabóta, 200 þús. kr. til símalagninga og svo nokkrir smáliðir. Í heild mun þessi sparnaður ekki fara fram úr 400 þús. kr., og sjá menn þá af því, sem áður var sagt, að hann jetst nálega upp af óhjákvæmilegum umframgreiðslum samkv. 7. gr. fjárlaganna einni. Þegar nú svo stendur á, að menn vita, að tekjuhalli ársins 1923 muni verða um 2 milj. kr., en fjárlög yfirstandandi árs og þess árs eru mjög lík, þá verður að telja ómögulegt að fleyta ríkissjóði tekjuhallalaust yfir þetta ár, nema gripið verði til frekari ráðstafana til að afla honum tekna en gert hefir verið með 25% tollhækkuninni, sem þingið hefir afgreitt og orðin er að lögum. Og þegar hjer við bætist að jeg sje ekki, að komist verði hjá því að afborga eitthvað af lausaskuldum ríkissjóðs þegar á þessu ári, þá verður þörfin á tekjuauka enn brýnni. Skuldheimtumenn ríkissjóðs hafa sem sje rjett til að ganga eftir fullri greiðslu á flestum eða öllum lausaskuldum hans hvenær sem þeim sýnist, og jeg geri ráð fyrir, að þeir gangi eftir því a. m. k., að sýndur verði litur á greiðslu — en til þess þarf ríkissjóður aukið fjármagn.

Þá er eitt mál, sem sjerstaklega þarf að minnast á í þessu sambandi. Eins og kunnugt er, hafa Vestmannaeyingar ráðist í hafnargerð, sem hefir orðið þeim ærið dýr. Fyrst voru gerð nokkur hafnarvirki, en brátt kom í ljós, að þau stóðust ekki sjávaröflin, heldur hrundu og stórskemdust. Var síðan ráðist í að endurbæta þau, og var framkvæmd þess verks lokið til bráðabirgða á síðastl. sumri. Fje til þessara framkvæmda var fengið á þann hátt, að ríkissjóður lagði til en hitt áttu Vestmannaeyingar að borga, og var það gert á þann hátt, að verktakinn gaf út fyrir því víxla, sem bæjarsjóður Vestmannaeyja samþykti, en landsstjórnin, að fenginni heimild, ábyrgðist f. h. ríkissjóðs, með því að gerast ábekingur víxlanna. Þegar þessir víxlar hafa fallið í gjalddaga, hafa þeir verið endurnýjaðir án þess að borgaðir væru nokkrir forvextir nje stimpilgjöld. Víxlarnir eru í dönskum krónum og var upphæð þeirra um síðustu áramót um 834 þúsund kr., en greiðslustaður í Kaupmannahöfn. Nú gerðust skuldeigendur óþolinmóðir og kröfðust skila, og varð því að ráði, þegar hæstv. fyrv. forsrh. (SE) var erlendis í síðastl. desembermánuði, að hann semdi um greiðslu á skuld þessari. Þeir samningar tókust á þá leið, að halda skyldi áfram að gefa út víxlana til 6 mánaða í einu með 6% forvöxtum, en greitt skyldi í hvert sinn 10% af upprunalegu skuldinni, en það er sama sem, að lán þetta skuli afborgast á 5 árum með jöfnum afborgunum. Nú liggur fyrir sundurliðað, hvað greiða beri af láni þessu þegar á yfirstandandi ári, og á fyrsta greiðslan, að upphæð 25600 d. kr., að fara fram 1. apríl næstk., en samtals nema greiðslurnar um 215 þús. d. kr. á árinu. Að vísu er kröfum þessum beint til bæjarstjórnar Vestmannaeyja, og síðan jeg tók við þessu embætti, hefi jeg símleiðis sent henni áskoranir í þá átt, að hún geri sitt ýtrasta til að gera skil, og þá til að byrja með nú eftir 4 daga. En ekki má dyljast þess, að bæjarsjóður Vestmannaeyja fær með engu móti risið undir því að greiða á þessu ári 215 þús. d. kr., og þar sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir láninu, get jeg ekki búist við öðru en að hann verði að taka á sig greiðslur á því, að einhverju leyti a. m. k., þegar á þessu ári. Að sjálfsögðu verður að gera alt, sem unt er, til þess að lán þetta verði ekki óviðráðanlegt Vestmannaeyjakaupstað, t. d. með því að reyna að fá vægari afborganakjör. En jeg þykist vita, að besta leiðin til þess sje einmitt sú, að staðið verði í skilum með fyrstu greiðslurnar. Þess vegna verður að taka þetta mál til greina, þegar hv. þm. gera upp við sig, hvaða ráðstafanir verði að gera til þess að afla ríkissjóði aukinna tekna.

Þá hefi jeg gefið yfirlit yfir skuldir og ábyrgðir ríkissjóðs, sem taka verður tillit til þegar á þessu ári.

Nú kann að vakna sú spurning, hvort ríkissjóður hafi ekki talsvert handbært fje fyrirliggjandi. Því er til að svara, að „kassinn“ er sem næst tómur. Síðan jeg tók við fjármálaráðuneytinu hefir venjulega verið fyrir hendi fje, sem svarar að nægja mundi til tveggja daga útborgana. Eins og hv. þm. vita, nema útgjöld ríkissjóðs um 9 milj. kr. árlega, og verða daglegar greiðslur því 30 þús. kr. að meðaltali.

Vonin um að geta staðið í skilum með lögmæltar greiðslur nú um mánaðamótin byggjast á því, að von er á fje í ríkissjóðinn nú síðustu daga mánaðarins, sem þó er ekki víst að dugi til brýnustu útgjalda, sem stafa af mánaðamótunum.

Jeg hefi viljað skýra hv. deild frá því, hvernig fjárhagsástand ríkissjóðs er, því vitneskja um það er nauðsynleg til þess, að hv. þm. geti afráðið að taka til þeirra úrræða, sem nauðsynleg eru til þess að kippa fjárhagnum í lag. Um þetta frv. er það að segja, að það er ekki unt að segja með nokkurri vissu, hve miklar tekjur það muni gefa ríkissjóði. Þar kemur svo margt til greina. Og til þess að hægt væri að segja um slíkt með nokkurri vissu, þyrftu að vera fyrir hendi skýrslur um innflutning á þeim vörutegundum, sem á að tolla, frá líkum tímum og nú eru. En nýjustu skýrslur, sem til eru um slíkan innflutning, eru frá árinu 1921, en þá var ástandið alt öðruvísi en það er nú. Kaupgeta manna var miklu meiri þá en nú er, og því má þegar af þeim ástæðum búast við minni innflutningi á þessum vörutegundum en hann var árið 1921. Ennfremur er ekki gott að segja um, hve mikið verðhækkun sú, er af tollinum leiðir, muni draga úr innflutningi á þeim vörutegundum, sem tollurinn nær til, en það er ábyggilegt, að það muni draga nokkuð úr innflutningnum. Það er heldur ekki gott að segja, hve margar af þessum vörutegundum verður bannað að flytja inn. Nú er í gildi reglugerð, sem bannar innflutning á meira en helmingi af þeim vörutegundum, sem tolla á.

Af öllum þessum ástæðum, sem jeg nú hefi talið, er það algerlega ókleift nú sem stendur að gefa nokkra ábyggilega áætlun um, hve miklar tekjur ríkissjóður muni hafa af þessum tolli. Það er álit fjhn., að til þess að útvega ríkissjóði tekjuauka mundi hagkvæmast að grípa til þess að leggja bráðabirgðaverðtoll á ónauðsynlegan varning, og einnig á þann varning, sem ekki er hægt að segja, að sje beint óþarfur, en er miður þarfur, þannig að fólk getur sparað hann mikið við sig á krepputímum. Slíkur tollur kemur líka tiltölulega rjettlátlega niður, því að það eru aðallega efnuðustu mennirnir, sem kaupa slíkan varning. Jeg er líka á þeirri skoðun, eins og hv. nefnd, að þetta sje tiltækilegasta leiðin til þess að útvega ríkissjóði tekjuauka, þó jeg geti hinsvegar ekki gert neina áætlun um, hve mikill sá tekjuauki muni verða, sökum þess að óvíst er, hve víðtæk innflutningshöft muni verða sett, og af fleiri ástæðum, sem jeg þegar hefi nefnt.

Það er að áliti stjórnarinnar mikil ástæða til að hraða þessu máli sem mest. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefir mikið verið rætt um það manna á meðal hjer í bænum undanfarið, að innflutningsbann mundi verða sett á allan miður þarfan varning. Þetta hefir orðið til þess, að kaupmenn hafa gert meira til þess að útvega sjer slíkan varning en þeir annars hefðu gert. Og þótt reglugerð hafi þegar verið gefin út um bráðabirgðainnflutningsbann á ýmsum vörum, þá nær það ekki til þeirra vörubirgða, sem koma með næstu skipum. Ástæðan til þess er sú, að ekki þótti tiltækilegt að hindra innflutning á þeim vörum, sem þegar voru komnar í skip eða voru komnar á afgreiðslur skipanna erlendis þegar reglugerðin varð kunn. En það er vitanlegt, að það er alveg óvenjulega mikið af vörum þeim, sem innflutningshöftin ná annars til, á leiðinni til landsins, og ástæðan til þess er sú, að menn höfðu pata af því fyrirfram, að höft mundu koma. Það verður að teljast óhjákvæmilegt að hleypa þeim vörum inn í landið, sem komnar voru á afgreiðslur skipanna í Kaupmannahöfn og Leith og víðar, þegar reglugerðin varð kunn á þeim stoðum. En stjórnin álítur hinsvegar, að hún verði að gera alt, sem hún getur, til þess að ná tolli af þessum vörum. Með því finst mjer engum vera órjettur ger, því að kaupmenn munu eiga hægt með að selja vörurnar sjer að skaðlausu, þó þessi 20% tollur leggist á þær, og þeir hafa því enga ástæðu til að kvarta, þótt hann skelli nokkuð fljótt á. Og neytendur þurfa varla að kvarta undan því, því að þeir mundu alls ekki eða að mjög litlu leyti njóta þess, þó tollurinn kæmi ekki á þessar vörubirgðir, því hætt er við, að innflytjendur mundu hvort sem væri hækka þær vörubirgðir jafnmikið og þær, sem þeir yrðu að greiða toll af, og ágóðinn rynni þannig allur í vasa innflytjendanna.

Jeg hefi nú reynt að gera deildinni það fyllilega ljóst, að hagur ríkissjóðs er þannig, að hann krefst tekjuauka, og hjer er um tekjur að ræða, sem auðvelt er að ná, og þessi tollur kemur yfirleitt ekki við aðra en þá, sem færastir eru um að borga. Jeg vona því, að háttv. deild láti þetta mál fá fljóta afgreiðslu. Og jeg lofa því fyrir stjórnarinnar hönd, að hún mun verða fús til þess að ræða um innflutningshöft og vinna að því að koma þeim á, að svo miklu leyti, sem hagkvæmt þykir og fjárhagur ríkissjóðs leyfir. Og jeg vona, að háttv. þm. láti ekki lítilfjörlegan skoðanamun verða þess valdandi, að ríkissjóður fari á mis við þennan sjálfsagða tekjuauka, heldur stuðli að því, að frv. þetta geti sem allra fyrst orðið að lögum.