28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

100. mál, verðtollur

Sveinn Ólafsson:

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, fyrir hönd minni hl. fjhn., að við værum samþykkir því, að þetta frv. kæmi fram, með því skilyrði, að frv. um innflutningshöft yrði einnig hraðað gegnum þingið. Þessir tveir þættir í viðreisnarstarfseminni, tollar til rjettingar fjárhag ríkissjóðs og innflutningshöft, eru svo nátengdir, að eðlilegast er og best, að þeir fylgist að. Jeg tók þá líka fram, að minni hl. nefndarinnar gerði ráð fyrir, að þetta frv. færi aðeins til 1. umr., og biði svo eftir haftafrv. og yrði því samferða út úr deildinni.

Þetta frv. miðar fyrst og fremst að því að auka tekjur ríkissjóðs, en síður að hinni hlið málsins, sem þó er öllu mikilsverðari, en það er að bæta hag gjaldendanna og takmarka falska kaupgetu, eins og líka að reisa skorður við okursölu. Það er augljóst, að ef frv. eins og þetta nær fram að ganga, þá leiðir af því, að þær vörubirgðir, sem til eru í landinu og sleppa þar af leiðandi við verðtollinn, verða seldar jafndýrt og hinar tolluðu vörur. Það eykur því að óþörfu vöruverð í landinu og ágóðinn af þeirri óþörfu verðhækkun rennur að öllu leyti í vasa kaupmanna, ef ekki koma jafnhliða ráðstafanir þær, sem felast í frv. á þskj. 88 með brtt. við það.

Annar aðalgallinn á þessu verðtollsfyrirkomulagi er sá, að þar sem verðtollur er á vörum en ekkert bannað, má búast við því, að tollsviknum vörum verði laumað inn í landið í skjóli hins leyfða og tollaða varnings, og það er ekki gott að segja, hvað kann að falla undan tolli á þann hátt. En ef bannaður er innflutningur á vörum og talið það, sem til er í landinu af bannvöru jafnframt, þá er tiltölulega auðvelt að sjá um, að slíkum vörum verði ekki laumað inn í landið.

Hæstv. fjrh. hefir bent rjettilega á það, hve mikil þörf sje á tekjuauka handa ríkissjóði. Hann hefir gefið deildinni ítarlega skýrslu um fjárhag ríkissjóðs og horfur. Auðvitað höfðum við yfirlit yfir það áður, en við höfum þó fengið ennþá nánari vitneskju um það með skýrslu hans, sem mjer þó virðist telja að óþörfu allar útlendar skuldir með gengismun þessa tíma. Og jeg fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að það þarf að gera alt, sem mögulegt er, til þess að afla ríkissjóði tekna. En það er ekki einhlítt að safna í ríkissjóð. Jafnhliða því þarf að finna ráð til þess að bæta hag gjaldendanna, og jeg fullyrði, að það verður ekki með öðru fljótar gert en með takmörkun mikilli á kaupum útlends varnings.

Jeg skal ekkert fullyrða um það, hvort samherjar mínir í fjhn. vilja styðja að því að afgreiða þetta frv. í flaustri, áður en haftafrv. kemur, en jeg fyrir mitt leyti vil láta haftafrv. koma fram áður en þetta frv. verður afgreitt, svo þau geti orðið samferða.

Viðvíkjandi þeirri hættu, sem hæstv. fjrh. benti á, að gæti verið á því að vörur slyppu við tollinn, vil jeg taka það fram, að ef haftafrv. nær lögfestingu, þá er sjeð fyrir tekjum af þeim vörum, sem koma næstu daga.

Nokkur ástæða er til að líta svo á, sem hinn óeðlilegi dráttur á því, að haftafrv. á þskj. 88 komi fram, sje vegna þess, að nefndin hafi tilhneigingu til þess að draga málið á langinn. Þetta gildir vissulega ekki um minni hl. nefndarinnar, heldur er það að miklu leyti að kenna þeim stóru viðburðum, sem hjer hafa orðið nú undanfarið — stjórnarskiftunum, meðferð fjárlaganna og fleiru — og þess vegna er alt komið í eindaga með bæði þessi frv.

Ef þetta verðtollsfrv. verður afgreitt í skyndi, þá er það heilög skylda þingsins að afgreiða haftafrv. svo fljótt, sem mögulegt er, því þó þetta tekjuaukafrv. verði samþykt, þá er, eins og jeg áður hefi tekið fram, aðeins hugsað um annan þáttinn í þeim ráðstöfunum, sem gera þarf til þess að bæta fjárhag landsins. Og með því er þar að auki hlaðið undir hagsmuni einstakra stjetta. Það má með sanni segja, að þessi verðtollar einn og án haftanna sje hrein kaupmannapólitík, því þær vörur, sem til eru í landinu, þegar tollurinn kemst á, og tollurinn nær því ekki til, verða auðvitað seldar jafnháu verði og þær, sem tollaðar verða. Og það kemur mjög órjettlátlega niður, því ágóðinn af þeirri hækkun lendir allur hjá kaupmönnum, en lamar að sama skapi kaupgetu almennings.

Jeg skal svo ekki tefja tímann með lengri ræðu. En jeg tek það að endingu fram, að jeg lofa engu um að styðja þetta frv., fyr en jeg sje, hvað gert verður í haftamálinu.