28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

100. mál, verðtollur

Klemens Jónsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú gefið deildinni glögga skýrslu um fjárhag ríkissjóðs og sýnt fram á, hve mikil þörf er á tekjuauka. Okkur hefir verið þetta ljóst áður, og jeg skil ekki í öðru en að öllum hljóti að vera það fullljóst eftir skýrslu hæstv. fjrh.

Þegar jeg tók við fjármálaráðherraembættinu, gaf jeg þinginu skýrslu um fjárhag ríkissjóðs, þótt sú skýrsla væri ekki eins ítarleg og þessi var. En annars er jeg hæstv. fjrh. þakklátur fyrir skýrslu hans og vona, að með þessu höfum við skapað fordæmi, sem fjrh. hagi sjer eftir í framtíðinni, og gefi þinginu skýrslu um allan hag ríkissjóðs, þegar þeir taka við embættinu. Það er gott fyrir alla, að það sje gert. Það er gott fyrir fjrh. sjálfan og það er gott fyrir þingið að vita, hvernig hagur ríkissjóðs er í hvert skifti, sem ráðherraskifti verða.

Jeg hefi yfirleitt ekkert við skýrslu hæstv. fjrh. að athuga. Hún kom mjer ekki neitt á óvart, en það eru nokkur atriði, sem jeg vil gera lítilsháttar athugasemdir við, af því að mjer fanst þau ekki skýrð nægjanlega hjá hæstv. fjrh.

Hæstv. fjrh. gat þess, að skuldir ríkissjóðs væru um 22,3 milj. kr. Þegar fjárlagafrv. fyrv. stjórnar var samið, gerði hún ráð fyrir, að skuldir ríkissjóðs væru 19–20 miljónir. En þetta fer auðvitað eftir gengi íslensku krónunnar, og þessi hækkun á skuldunum mun því stafa af því, að gengið hefir lækkað afarmikið síðustu mánuðina síðan fjárlagafrv. var samið. Þegar fjárlagafrv. var samið, var sterlingspundið reiknað á 30 íslenskar krónur, en hæstv. fjrh. mun hafa reiknað það á 34 kr., eða sem næst því, og er þá ekki lengi að muna, og það verulega ekki lengi að muna, og það verulega. Þetta vil jeg biðja hv. þm. að hafa í huga, þessu lága gengi stafar líka, að greiðslur þær, sem ákveðnar eru í 7. gr. fjárlaganna, munu verða talsvert hærri en gert var ráð fyrir, og þarf að laga það.

Hæstv. fjrh. gat þess, að lausar skuldir ríkissjóðs væru 3,7 miljónir. Þetta er alveg rjett. Mig minti meira að segja, að þær væru 4 miljónir. Þessar skuldir eru mjög erfiðar við að eiga, enda vildi fyrverandi stjórn fyrir hvern mun losna við þær, ef fengist hefði fast lán með góðum kjörum í útlöndum til borgunar á þeim. Þetta hefði verið mjög hagfeld lausn í málinu. Annarsvegar hefði stjórnin þá verið laus við að hugsa um að framlengja skuldir þessar, og það hefði hinsvegar verið mjög gott fyrir bankana hjer, því að þá hefðu þeir fengið skuldir sínar greiddar, og það í erlendum gjaldeyri, sem hefði komið sjer ágætlega.

Það var mikið talað um það hjer í bænum í fyrra sumar, að hægt mundi vera fyrir ríkissjóð að fá lán með góðum kjörum í útlöndum. Og það var hjer sjerstaklega maður, sem talaði oft um það bæði við mig og fleiri, að hægt mundi vera að fá slíkt lán. Bæði bönkunum og fyrv. stjórn þótti nauðsynlegt að ganga úr skugga um það, hvort svo væri, en það reyndist svo, þegar til kom, að ekki var nokkur fótur fyrir þessu. Jeg rannsakaði málið sjálfur og komst að raun um, að það mundi að vísu vera hægt að fá lán, en alls ekki með svo góðum kjörum, sem hafði verið látið í veðri vaka. Jeg get um þetta svo ítarlega sökum þess, að svo mikið hefir verið talað um þetta og ýmsir munu hafa staðið í þeirri meiningu, að hægt mundi vera að fá gott lán, en það reyndist nú samt ómögulegt.

Jeg get fyllilega tekið undir það með hæstv. fjrh., að nokkrar umframgreiðslur muni verða á árinu, og því brýn nauðsyn á því að útvega tekjuauka. Bæði strandvarnir og einkum berklaveikiskostnaður mun fara mikið fram úr fjárveitingu. Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. sagði um greiðslu á láni Vestmannaeyja, vil jeg geta þess, að samningarnir um hafnargerð voru gerðir áður en jeg kom inn í stjórnina, og löngu áður byrjað á henni, svo það var ekki annað að gera fyrir mig en að borga út samkv. hafnarlögunum.

Hæstv. fjrh. hefir skýrt frá því, að hann hafi leitað samninga við bæjarstjórn Vestmannaeyinga um lán þeirra, en hafi ekki fengið ákveðið svar. Margar tilraunir hafa verið gerðar í þessa átt af okkur í fyrv. stjórn, en árangurslaust. Við höfum venjulega ekkert svar fengið, og það má mikið vera, ef þessi stjórn fær ekki að reyna það sama. Ef til vill gengur það nú betur, vegna þess að nýr bæjarstjóri er kominn þar. Þó býst jeg við, að það verði erfitt nú sem fyr að grípa gullið í Eyjunum.

Hæstv. fjrh. gat þess, að nú væri sjóður tómur að heita mætti, varla meira en tveggja daga forði allajafna. Þetta er svipað og þegar fyrv. stjórn tók við, og þegar jeg tók við fjármálastjórn, og alla mína tíð, var fjárhagurinn bágborinn, en þó var oftast forði til vikunnar. Aðaltekjurnar komu frá Reykjavík, og lögreglustjóri borgaði altaf inn á laugardögum. Erfiðast var um mánaðamót. Að það er svo erfitt nú að komast af dag frá degi, stafar máske af því, að þing stendur yfir. (Fjrh. JÞ: Alveg rjett). Sje svo, er það þinginu næst að bæta úr því, og enda hvort sem er.

Jeg vil leyfa mjer að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh., hvort það sje svo afarnauðsynlegt að koma þessu máli af á 2–3 dögum. Sjerstaklega vil jeg spyrja hann að því, hvort brýn nauðsyn sje að ljúka umr. hjer í kvöld, hvort ekki megi fresta henni til morguns. Jeg er nýlega kominn í fjhn., í stað hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), og hefi ekki átt kost á að sitja fund með henni til að ræða þetta mál.

Mun þessi ósk mín því ekki þykja neitt óeðlileg, Jeg vil því beina þeirri ósk til hæstv. forseta að bera það undir háttv. deild, hvort ekki megi taka málið af dagskrá.