28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

100. mál, verðtollur

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess, að hann þyrfti að tala nokkuð alment um þetta mál. Og það gerði hann líka.

Jeg þarf líka að tala um málið nokkuð á víð og dreif.

Jeg býst við, að flestir þm. hafi orðið varir við það hjá kjósendum sínum, eins og jeg, að almenningur ber einkum fyrir brjósti, að þingmenn beiti sjer fyrir þrem stórmálum, öðrum fremur. Fyrst er það, að sparað verði á húshaldi ríkisins, annað, að þing verði aðeins annaðhvert ár, og þriðja, að koma á innflutningshöftum til þess að koma á verslunarjöfnuði og bæta gengið.

Jeg vona nú, að fjárlögin verði afgreidd frá þinginu í mjög sæmilegu horfi. Um það eru tveir aðalflokkar þingsins nokkurnveginn sammála. (HK: Þarf að gera betur). Alveg rjett hjá hv. þm. Barð. (HK).

Þá er þing annaðhvert ár. Það mál hefir flokkur hæstv. forsætisráðherra drepið í Ed., enda hafði hann gert frv. sitt svo úr garði, að ólíklegt var, að það næði samþykki. Kröfur þjóðarinnar voru og eru einungis þær, að ráðherrum verði fækkað og þing háð annaðhvert ár. Þá er Framsóknarflokkurinn sá hvert stefndi, vildi hann koma í veg fyrir, að frv. fjelli, og bauð að láta sjer nægja með þá eina breytingu á stjórnarskránni, að þing yrði háð framvegis annaðhvert ár. En þegar flokkurinn fjekk ekki við ráðið, herti hann á kröfunum og lagði til, að landskjörnu þingmennirnir yrðu og lagðir niður. Og nú er þetta áhugamál þjóðarinnar dautt fyrir aðgerðir fylgismanna forsætisráðherra. Úr því sem komið er, verð jeg stórlega að draga í efa, að það hafi nokkurntíma verið meining hæstv. forsrh. (JM), að stjórnarskrárbreytingin yrði samþykt, heldur hafi frv. aðeins verið borið fram til að slá ryki í augu kjósenda.

Og hvernig á nú að ganga frá þriðja höfuðmálinu, innflutningshöftunum! Jeg sje ekki betur en allar horfur sjeu á, að ætlunin sje að koma því fyrir kattarnef. Góður fyrirboði þess er það, að komin er fram áskorun, sem jeg held á hjer í hendinni, frá þeim, sem standa bak við Íhaldsflokkinn hjer í Reykjavík, kaupmannastjettinni. Í því ávarpi er farið fram á, að haftafrv. verði drepið og þær stofnanir lagðar niður, sem gefa nú landinu einna drýgstar tekjur.

Í fyrri ræðu sinni um þetta mál lýsti hæstv. fjrh. (JÞ) því yfir, að hann mundi fús til góðrar samvinnu um haftafrv. En í síðari ræðunni tók hann greinilega fram þann mikla mun, sem væri á tollum og höftum. Meðal annars tók hann það fram, að almenn óánægja væri yfir því, að tekin yrði haftaleiðin, en við tollana væru menn orðnir vanir. Og til þess að koma þessu frv. að, sem nú er til umr., hefir verið unnið til að hefta störf nefnda, t. d. komið í veg fyrir það, að fjvn. geti haldið fund í dag og lokið svo snemma störfum sínum, að 3. umr. fjárlagafrv. fari fram á mánudag. En hvað liggur þessu frv. á? Fyrverandi stjórn hefir gefið út reglugerð, sem bannar að flytja inn flestar þær vörur, sem um er að ræða í þessu frumvarpi. Hvers vegna mega þessi tvö frv. ekki fylgjast að? Tilgangurinn með að flýta þessu frv. svo sem gert er, virðist ekki vera annar en sá, að drepa höftin. Mun verða sagt, þegar þetta frv. hefir verið samþykt: Nú er ekki lengur nein þörf á höftum. Og það er þá tilraun til að komast fram hjá ákveðnum þjóðarvilja, eða að minsta kosti vilja alls þorra kjósenda í fjöldamörgum kjördæmum. En verði höftin feld, þá skal það verða skjallega sannað eins og hverjir það voru, sem drápu stjórnarskrárbreytinguna í Ed.

Vil jeg nú beina máli mínu til hæstv. atvinnumálaráðherra. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir fyr og síðar lýst því yfir, að hann vildi innflutningshöft. Og nú vil jeg spyrja þennan hv. þm., hvort hann, við að verða atvinnumálaráðherra, hafi breytt svo um skoðun, að hann vilji nú loka haftaleiðinni með því að taka tolla í staðinn. Þessi krafa þjóðarinnar um höft er ekki aðeins gerð til þess að bæta hag einstaklinga, heldur alls almennings, þar sem höftin verða til þess að koma á verslunarjöfnuði og bæta gengi peninga. Og einmitt það er mál málanna um öll lönd. Jeg hefi fyrir skömmu talað við merkan Dana um það, hvað mundi verða aðalmálið við kosningarnar, sem standa nú fyrir dyrum í Danmörku. Hann svaraði eindregið, að það, sem allra mest yrði lögð áhersla á, væri gengið. Og um okkur er sama máli að gegna. Ekkert er okkur frekar áríðandi en að laga gengið. Sumir segja, að sama sje, hvort farin sje tolla- eða haftaleiðin. Sje tollaleiðin farin, verði fluttur inn óþarfavarningur og hækkað á honum verðið. Síðan kaupi þeir, sem geti og vilji, og sje ekki neitt við því að segja. En jeg segi, að stórmikill munur sje á því, hvor leiðin verði farin. Tollar hjálpa ekki til þess að minka eftirspurnina eftir erlendum gjaldeyri, og þeir koma ekki á verslunarjöfnuði. Jeg er því ekki í vafa um, hvort betra er, og jeg veit, að þjóðin er ekki í vafa um það.

Hæstv. fjrh. hefir auðvitað trygt sjer meiri hluta hjer í deildinni með þessu frv. En jeg vil fá skýra atkvæðagreiðslu um það, hvernig menn ætla að velja á milli leiðanna. Og það fæ jeg með því að bera fram þessa rökstuddu dagskrá, sem jeg les nú upp, og afhendi síðan hæstv. forseta:

Þar sem komið hefir fram mjög skýr og ákveðinn þjóðarvilji með því að hanna innflutning til landsins á sem flestum þeim vörum, sem unt væri að vera án, þar sem komið er fram á Alþingi frumvarp, sem fer í þessa átt, og þar sem frumvarp það, sem hjer fyrir liggur, virðist benda til annara leiða í þessu efni, þykir deildinni ekki ástæða til að greiða atkvæði um frumvarp þetta, fyr en sjeð er um afstöðu deildarinnar til innflutningshaftafrumvarpsins, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá. Jeg vil undirstrika það, að meining mín með þessari dagskrá er ekki sú, að drepa þetta frv. umsvifalaust, heldur er það tilætlun mín að láta það fylgjast með haftafrumvarpinu, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vildi. Meðan jeg hefi ekki sjeð, hvað verður um það frv., tek jeg enga afstöðu til þessa.