28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

100. mál, verðtollur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að meiningin með þessu frv. væri að drepa haftafrv. Jeg mótmæli þessu alveg og jeg get sagt það, að þó að jeg hafi haft stólaskifti, þá hefi jeg að engu leyti skift um skoðanir. En jeg sje það, að ríkinu er nauðsyn á tekjuauka, og þetta er einmitt frv. í þá átt að auka tekjur ríkisins. Aftur á móti vil jeg hefta innflutning svo sem ríkissjóður framast þolir. Og jeg veit það, að hæstv. fjrh. (JÞ) er mjer samþykkur í þessu efni. Það er því með öllu rangt, að við viljum drepa með þessu haftafrv., eins og hv. þm. Str. gaf í skyn og brigslaði okkur um. (TrÞ: Jeg hefi ekki brigslað hæstv. atvrh. um það). Og jeg vil taka það fram, að það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð, að þetta frv. nái ekki fram að ganga eða verði ekki samþykt mjög bráðlega. Einmitt nú er á leið mikið af varningi til landsins, sem þetta frv. gerir ráð fyrir tolli á, og verður það ærið tap fyrir ríkissjóð, ef ekki næst af þeim varningi tollur.

Þá var hv. þm. Str. að brýna okkur á því, að við værum kaupmannasinnar. En þeir gera kaupmönnunum víst mestan greiðann, sem seinka svo þessu frv., að tollur náist ekki af þeim vörum, sem nú eru á leiðinni hingað til landsins. Þær vörur eru mjög miklar, og tilætlun okkar er að ná tekjuauka strax. Það liggur því í augum uppi, að frv. er fjárhagsatriði og ekkert annað. Um innflutningshöftin er, eins og jeg hefi tekið fram, skoðun mín óbreytt, og mun jeg beita þeim eins mikið og ríkissjóður þolir. En jeg vona, að hv. deild sje mjer sammála um að fara ekki lengra í þeim efnum.

Stjórnarskrárbreytingunni kæri jeg mig ekki um að blanda inn í þetta mál. En ekki lagði jeg atkvæði að því að fella hana. Og jeg sje ekki annað en að ennþá geti komið fram frv. um það efni. En annars held jeg einmitt, að fleygur þeirra flokksbræðra hv. þm. Str. hafi orðið frv. að bana.

Um dagskrá hv. þm. er það að segja, að jeg sje ekki betur en að hún verði til þess að drepa þetta mál, ef hún nær samþykki deildarinnar. En eftir því, sem mjer hefir skilist, er það ekki tilætlun hv. þm. (TrÞ), og vona jeg því, að hann taki hana aftur, þá er hann hefir áttað sig á þessu.

Háttv. sami þm. vill láta skera úr því, hvora leiðina eigi að fara. Jeg tel báðar leiðirnar nauðsynlegar, og vil því fara þær báðar. Tollhækkunin er nauðsynleg vegna hagsmuna ríkissjóðs, og innflutningshöftin vegna almenns sparnaðar.

Annars vona jeg, að jeg hafi skýrt afstöðu mína í þessu máli nægilega, og verð jeg að treysta því, að hv. þm. Str. rengi mig ekki og taki aftur till. sína.