28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. þm. Str. spurði að því, hvað lægi á að samþykkja þetta frv. Frá því hefir nú verið sagt, hve þörfin er brýn. Ástæðurnar eru þá fyrst og fremst þær, að bæði fær ríkissjóður tekjur, sem hann mundi annars missa, og hann fær fyr auknar tekjur, ef þetta frv. er samþykt strax. Og enginn þarf að efast um, að þörf sje á þessu. Annars fann háttv. þm. (TrÞ) ekkert að efni frv., sem er að afla ríkissjóði tekna. Hann hefir líka í fjvn. sýnt það, að hann vill einmitt stíga spor í áttina til að rjetta fjárhaginn. Mjer finst það því ærið ólíklegt, að hann verði á móti þessu frv. Eina mótbáran gegn því, sem nokkurs er um vert, er sú, að menn sæju aðra heppilegri leið til þess að afla ríkissjóði tekna. En hv. þm. Str. talar aðeins um höft, eins og það sjeu einu óyggjandi bjargráðin að hoppa í hafti. Hv. þm. hlýtur þó að vita það, að eina ráðið til þess, að gengisfallið stöðvist, er að betri jöfnuður náist á tekjum og gjöldum ríkissjóðs — og vonlaust er að laga ástandið, ef ríkissjóður eyðir meiru en því, sem nemur tekjunum.

En eins og allir hv. þm. hljóta að sjá, svifta innflutningshöftin ríkissjóð tekjum. Þær vörur, sem bannaðar eru í reglugerðinni, eru einmitt vörurnar, sem hæstur er á tollurinn. Ríkissjóðurinn er því með höftunum sviftur tekjum. Þetta frv. fer fram á, að bætt sje úr þessu, og þá fyrst, þegar það hefir verið gert, getum við farið að tala um höft. Ef tekjuaukafrv. verður ekki samþykt, er heldur ekki hægt að samþykkja haftafrv. Og jeg er viss um, að hv. þm. Str. er óhætt að koma til kjósenda sinna og segja þeim, að hann hafi greitt atkvæði með tollhækkun á óþörfum varningi, til þess að afla ríkissjóði aukinna tekna. Jeg er uppalinn í næstu sýslu við kjördæmi hv. þm. og þori að segja, að jeg þekki svo mikið kjósendur hans, að mjer sje óhætt að fullyrða þetta. En verði dagskrá hv. þm. Str. samþykt, þá er það sama og að fella frv. Hv. þm. talaði um tvær leiðir. En er haftaleiðin ekki ófær, nema tollaleiðin sje líka farin? Það er því ekki um að ræða tvær leiðir, heldur tvo áfanga sömu leiðar. Og tollhækkunin er fyrri áfanginn. Jeg get því ekki skilið það, að hv. deild sjái nokkuð á móti því að samþykkja þetta frv. En það þarf að samþykkjast strax, ef það að fullu á að geta náð tilgangi sínum. Og að því loknu vil jeg tala um höftin og hve langt sje hægt að fara í því efni. Þau eru seinni áfanginn.