28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

100. mál, verðtollur

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg kippi mjer ekki upp við það, þó að gustasamt verði um þm. Str. og þó að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hafi lengst af vikið máli sínu til mín, mun jeg láta hann hvíla í friði, en snúa orðum mínum til hæstv. stjórnar.

Jeg hygg, að engum hafi dulist, sem hlýddi á fyrri ræðu mína, að tilgangur minn var að reyna að bjarga innflutningshöftunum. Jeg er sannfærður um, að ákveðin höft eru nú nauðsynleg, og jeg get bætt því við, að jeg álít, að sú stjórn sem ekki vill hefta innflutning á ónauðsynlegum vörum, eins og fjárhag þjóðarinnar er komið nú, og vill ekki segja þjóðinni að neita sjer um þessar vörur í bili, á ekki skilið, að þingið fái henni í hendur stórfelt tollaukafrv.

Jeg skal þá víkja að þeim ummælum hæstv. fjrh. (JÞ) í minn garð, er hann gaf í skyn, að jeg væri að steypa ríkissjóði á höfuðið. Það er þá lítil þúfa, sem ríkissjóður getur hnotið um, ef það setur hann á höfuðið, verði þetta frv. afgreitt nokkrum dögum síðar en fyr, eða ekki fyr en sjeð verður um afdrif haftafrv.

Hæstv. atvrh. (MG) vil jeg þakka fyrir orð hans um haftamálið. En þó varð jeg var við dálitla veilu í máli hans. Fyr á þinginu kvaðst hann vera ákveðinn með innflutningshöftum, en nú fylgdi sá böggull skammrifi, að þau yrði að framkvæma án þess, að of nærri yrði gengið ríkissjóði. Það getur verið, að þessi varnagli marki enga stefnubreytingu hjá honum, en þó má vera, að svo sje. Samt vil jeg vona, að það sje ekki.

Jeg vil að lokum beina því til hæstv. fjrh., að jeg er fús á að reyna að stefna að samkomulagi í þessu máli, ef hann vill lýsa yfir því af sinni hálfu, — og jeg tel víst, að nægilega margir hv. þm. muni þá fylgja honum — að hann muni, ef þetta frv. fær fljóta afgreiðslu, vilja vinna að framgangi frv. um innflutningsbann á vörum, sem nema 5–7 milj. kr. árlega. Vilji hann vinna að framgangi slíks frv., og sje þá ákveðinn í því, að slík höft standi það langan tíma, að eitthvert gagn yrði að, t. d. 3 ár, þá skal jeg ekki verða meinsmaður þessa frv.

Jeg átti tal við hæstv. forseta (BSv) um þá rökstuddu dagskrá, sem jeg hefi borið fram, og heyrðist mjer á honum, að hann teldi samþykt hennar hafa það í för með sjer, að þessu máli væri þá lokið. Þetta var alls ekki tilgangur minn. Jeg hafði lesið þá grein þingskapanna, sem lýtur að þessu, og er í fyrri málsgrein talað um að vísa máli frá, einnig um tiltekinn tíma. Síðari málsgreinin ræðir um að vísa máli frá með rökstuddri dagskrá, og hugði jeg, að ákvæði fyrri málsgreinarinnar, um að vísa máli frá um tiltekinn tíma, ætti einnig við um þetta. Jeg get fallið frá þessari rökstuddu dagskrá, en gefi hæstv. fjrh. ekki þá yfirlýsingu, sem jeg hefi beðið um, mun jeg greiða atkvæði gegn frv., því að höftin vil jeg fá. Ef það er því vilji hæstv. stjórnar, að einhver höft komist á, vænti jeg þess, að hæstv. fjrh. gefi þá yfirlýsingu, er geti komið mjer til að fylgja þessu frv.