28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg þarf ekki að gefa aðra yfirlýsingu en þá, að staðfesta orð hæstv. atvrh. (MG), sem hann mælti áðan og tók um leið fram, að jeg væri samþykkur. Sje jeg ekki ástæðu til að fara að endurtaka þau ummæli. (TrÞ: Hve víðtæk höft?). Svo víðtæk, sem fjárhagur ríkissjóðs leyfir; það er ætlun stjórnarinnar.

Jeg verð að segja, að mjer líkar mun betur við hv. þm. Str. eftir síðari ræðu hans heldur en eftir hina fyrri. Því að eftir henni og rökstuddu dagskránni, sem hann bar fram, varð ekki sjeð annað en að hann vildi snúast á móti þessu frv. og heimta höftin. Það tvent væri sama sem að stefna ríkissjóði í þurð, ef hann er sviftur tekjustofnum sínum án þess að nokkuð sje sett í staðinn. Nú heyri jeg, að þetta hefir ekki verið tilgangur hv. þm., og gleður það mig mjög. (TrÞ: Orðalag dagskrárinnar sagði til þess). Jeg skildi dagskrána svo, sem venja er til eftir þingsköpum, að málinu væri vísað frá með henni.

Hv. þm. kvað nú svo fallega að orði, að nú væri spurningin um það eitt, hvort frv. þetta yrði samþykt nokkrum dögum fyr eða síðar. Þetta voru orð, sem mjer líkaði að heyra. En sje ekki spurning um annað, þá mun hver maður geta sjeð, að rjettara er að samþykkja frv. nokkrum dögunum fyr, áður en þær vörur koma, sem nú eru á leiðinni.

Mjer þykir undarleg þau ummæli hv. þm. Str., að sú stjórn, sem er á móti innflutningshöftum, eigi ekki skilið, að henni sjeu fengin í hendur lög um tollauka. Jeg vona, að hv. þm. láti landið sitt ekki gjalda þess, þó að honum sje kalt til þessarar stjórnar. Það er óþarfi fyrir hann, því að hann hefir fullkomlega þinglegri ráð til þess að koma stjórninni frá, ef hann hefir annars atkvæðamagn til þess, en að neita um nauðsynlegan tekjuauka. Segi jeg þetta ekki vegna þarfar minnar að halda áfram að vera fjármálaráðherra, heldur vegna nauðsynjar ríkissjóðs.