28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

100. mál, verðtollur

Magnús Torfason:

Jeg sje, að rúsínur eru ekki nefndar í frv., og hygg jeg því, að hv. deildarmenn muni líta svo á, að þeirra þyrfti til uppbótar hjer í háttv deild. Því fremur þykir mjer þetta undarlegt, sem sveskjur eru taldar upp. (Atvrh. MG: Það ætti að banna rúsínur).

Jeg skal ekki hella olíu í þann eld, sem hjer hefir verið kyntur, einkum þar sem jeg get ekki sjeð, að það skifti máli, hvort frv. fer nú til 3. umr. Mjer skilst, að dagskrá hv. þm. Str. hefði átt betur við við 3. umr. heldur en nú. Það virðist svo sem deilurnar snúist um það, að þeir, sem fylgja innflutningshöftum, vilji að minsta kosti fá fult tækifæri til að tala við þá, sem eru með þessu frv., en væntanlega mótfallnir höftum. Jeg verð að telja æskilegt, að menn geti rætt um þetta, og því æskilegra sem nú er kominn nýr maður í hv. fjhn., sem vænta má, að sá flokkur, sem fylgir fastast höftunum, telji sjerstaklega fulltrúa sinn í því máli.

Að jeg er svo rólegur í þessu máli, hygg jeg að komi fyrst og fremst af því, að jeg hefi á þingmálafundum í haust lýst afstöðu minni til gengismálsins yfirleitt, en þessi 2 frv., sem nú er deilt um, eru einn þáttur þess máls. Jeg tók þá fram, að vjer ættum að fara 2 leiðir, haftaleiðina og tollaleiðina. Kvaðst jeg ekki geta hugsað mjer þá skipun á innflutningshöftum, að ekki þyrfti að bæta ríkissjóði þau upp með auknum tollum.

Þriðja atriðið, sem jeg tók fram á fundunum í sambandi við þetta mál, var það, að jeg teldi lítið gagn að þessu öllu, nema gerðar væru sjerstakar ráðstafanir til þess, að lögunum yrði hlýtt. Þetta tók jeg fram vegna þess, að eftir því, sem tollar hafa verið hækkaðir og innflutningur á vörum heftur, því meir hefir borið á, að lögunum væri ekki hlýtt. Mjer hefir ætíð verið meinilla við öll lögbrot, en þó sjerstaklega þau, sem snerta tekjur ríkissjóðs. Og þetta, að gera ráðstafanir til þess, að lögunum verði hlýtt, tel jeg langeinfaldasta, ódýrasta og drýgsta ráðið til þess að auka tekjur ríkissjóðs.

Jeg vildi, áður en jeg fer lengra út í málið, drepa á það, að eftir mínu viti og reynslu eru það sjerstaklega tveir tollar, sem koma nokkurn veginn til skila, sem sje vörutollurinn og útflutningsgjaldið. Vitaskuld koma þessi gjöld ekki til skila að öllu leyti; jeg veit t. d. um stórkaupmenn, sem hafa lotið svo lágt að flytja inn spil tolllaust, þó ekki vegna þess, að þeir vildu svíkjast undan vörutollinum, heldur voru þeir að draga sig undan tolli í öðru landi, þar sem hár tollur er á spilum. Útflutningsgjaldið innheimtist einnig nokkurn veginn, það er að segja frá innlendum mönnum, en ekki útlendingum. Sem lögreglustjóri hefi jeg oft átt í feikilegri baráttu við að ná útflutningsgjaldi hjá útlendingum í umdæmi mínu, og svo hefir stundum farið, að þeir hafa komist undan, þó að aðrir lögreglustjórar hafi þá einstaka sinnum haft hendur í hári þeirra. Nú vil jeg því leggja áherslu á, að strangt eftirlit verði haft með því, að allar tekjur ríkissjóðs innheimtist, og vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn, hvort hún hygst að gera nokkrar ráðstafanir í þessu efni. Mjer er umhugað um þetta, bæði vegna stöðu minnar og ekki síður af þeirri ástæðu, að á þinginu 1917 bar jeg fram frv. í þessa átt.

Að öðru leyti vil jeg taka það fram, að aðalþýðing þessa frv. er sem bráðabirgðaráðstöfun; það er hjer ekki um neitt framtíðarfyrirkomulag að ræða. En þessi ráðstöfun verður að komast fljótt í kring, ef hún á annað borð á að koma að fullu haldi. Vildi jeg mjög mælast til þess, að kappsamlega yrði starfað að því að ná samkomulagi í þessu máli, svo að það yrði að lögum næsta mánudag. Verð jeg að líta svo á, að það sje ekki góður vilji til að rjetta hag ríkissjóðs í þessu þingi, ef ekki tekst að koma þessu í verk. Það hefði ekki svo mikið að segja, þótt ekki væri eins vel frá haftafrv. gengið eins og þyrfti, því úr því gæti stjórnin altaf bætt með reglugerð. Jeg segi þetta af því, að jeg veit, að ekki er svo vel frá þessu frv. gengið, að það geti komist af án ítarlegrar endurskoðunar. En þetta ber ekki að setja fyrir sig, ef menn á annað borð eru samþykkir því að fara þessa leið. Jeg fyrir mitt leyti er það og lít svo á, að við þurfum með bæði hafta og tolla með fullu eftirliti.