28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

100. mál, verðtollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Eftir síðustu ræður flokksbræðra minna tveggja (SvÓ og TrÞ) gæti jeg raunar fallið frá orðinu, en úr því að jeg er staðinn upp, vil jeg þó árjetta nokkur atriði. Jeg vil styðja þá tillögu, að málið sje annaðhvort tekið út af dagskrá nú þegar eða þá að það verði þannig undirbúið milli 2. og 3. umr., að engin misklíð þurfi þá að verða um það. Fyrir þessari ósk eru aðallega tvær ástæður. Hin fyrri er sú, að málið er ekki nægilega rannsakað enn; það hefir ekki verið gefin hæfilega skýr skýrsla um það, hve mikið fje muni þurfa í landssjóð til þess að hann komist skammlaust af. Ennfremur er engin skýrsla til um það, hve mikið fje muni fást í landssjóð, ef þetta frv. nær samþykki, enda er það ekki hægt fyr en náðst hefir samkomulag um það, hversu víðtæk innflutningshöft verða sett á þessu þingi. Meðan það er ekki upplýst, hversu mikil fjárþörfin er, og eins hitt, hve mikið lögin muni gefa í tekjur, þá virðist mjer sem háttv. þd. viti ekki eins mikið um orsakir og afleiðingar eins og venja er að krefjast í hverju máli áður en það sje afgreitt. Það er því ekki ástæðulaust að fresta málinu, eða að öðrum kosti að undirbúa það betur fyrir næstu umræðu. En aðalástæðan til þess, að málinu verði frestað, eða undirbúið á ný undir 3. umræðu, er sú, að gengið verði úr skugga um það, hvort innflutningshöft muni ná fram að ganga eða ekki. Um þetta verður að fást full vissa, því margir þdm. munu ekki sjá sjer fært að greiða atkv. með verðtollshækkun nema því aðeins, að nokkur vissa sje fyrir allvíðtækum innflutningshöftum. Þeir, sem annaðhvort fylgja hvorutveggja eða hvorugu, verða að fá vissu sína áður en þeir geta greitt atkvæði. Margir íhaldsmenn hafa tekið því líklega, að samkomulag muni nást um þetta, en hví ekki að ná því sem fyrst, svo ekki sje hætta á því, að deilur verði eða brigslanir eftir á? Jeg vil því beina þeirri ósk til hæstv. fjrh. (JÞ), sem jafnframt er formaður Íhaldsflokksins, að hann láti rannsaka það milli umr., hversu margir flokksmenn hans vilji fylgja innflutningshöftum og hve langt ganga. Jeg geri ráð fyrir, að enginn Framsóknarflokksmaður vilji tefja fyrir framgangi þessa frv., ef vissa fæst fyrir því, að nægilega margir Íhaldsmenn vilji fylgja að minsta kosti 5–6 milj. kr. innflutningshöftum, þó ekki sje meira. Mjer er mjög óljúft að gerast meinsmaður þessa frv., en á hinn bóginn er mjer ekki hægt að taka afstöðu til þess, nema það sje fyrst ákveðið, hvað það er mikið af vörum, sem tolla á, og hvað á algerlega að banna. Mín skoðun í þessu efni er sú, að eitt eigi að ganga yfir alla. Þeir, sem einhverja kaupgetu hafa, eiga ekki að nota hana til þess að lækka verðgildi þeirra peninga, sem hinir fátækari hafa handa á milli, og enn síður til þess að örva eða æsa kaupgirni fátæklinga langt um efni fram. Það er mín sannfæring, að í þessu efni eigi hinir ríkari að fresta sinni kaupgetu meðan það getur komið þjóðinni að haldi. Á slíkum tímum sem þessum, og enda altaf, verður þjóðin að vera „solidarisk“ í mörgum efnum, og ef hún er það ekki hjer, þá mun verða misbrestur á því víðar. — Jeg hefi nú leitast við að rökstyðja það, að þessi tvö mál, bann og tollur, verða að fylgjast hjer að. Jeg vil undirstrika það, að sú yfirlýsing nægir ekki Framsóknarflokknum, þó hæstv. atvrh. (MG) sje fylgjandi innflutningshöftum, heldur verður það að koma í ljós, hvort nógu margir Íhaldsmenn fylgi þeim, svo þau geti náð fram að ganga. Það er ósk mín, að málið verði þannig undirbúið, sem jeg hefi nú tekið fram, svo það þurfi ekki að verða deiluefni, er það kemur aftur til umræðu, heldur verði afgreitt með samkomulagi, sem heppilegast er fyrir málið sjálft, þjóðina í heild sinni og þessa tvo flokka.