28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg þarf litlu að svara háttv. 1. þm. S.-M., úr því hann lýsti yfir því í lok ræðu sinnar, að hann ætlaði að greiða þessu frv. atkv. til 3. umr. Og fyrst hann hefir gefið það loforð, þá læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvaða hugur stýrir hönd hans við atkvgr. En hvað það snertir, er hann vjek að fjhn. og bar henni á brýn, að hún hefði tafið haftafrv., þá verð jeg sem formaður þeirrar nefndar að segja, að þetta er ekki sanngjarnlega mælt. Það stóð sem sje þannig á, að mjög mörgum málum hafði verið vísað til nefndarinnar áður en haftafrv. kom fram. Nefndin varð fyrst og fremst að snúa sjer að aðalviðfangsefni sínu, því, að búa út frv. til tekjuauka fyrir ríkissjóð. Þetta frv. tók nefndina nokkuð langan tíma, vegna þess að það góða samkomulag, sem fyrst ríkti í nefndinni, versnaði við það, að við höfðum sameiginlegan fund fyrir fjárhagsnefndir beggja deilda, en á þeim fundi lagðist einn flokksmaður hv. 1. þm. S.-M. fast á móti frv., enda fanst þá á á eftir, að þessi háttv. þm. (SvÓ) dignaði í því að fylgja frv. upp frá því. Þó gekk þetta ekki lakar en svo, að á fundi nefndarinnar 17. mars var gengið frá þessu frv. til fulls og frsm. kosinn. Þá lágu enn mörg mál fyrir nefndinni, sem hafði verið vísað til hennar, önnur en haftafrv. Þar að auki nokkur erindi frá hæstv. stjórn. Jeg rjeð því, að næstu fundirnir þrír, 18., 19. og 20. mars, voru teknir til þess að afgreiða þessi mál; og á þessum fundum hygg jeg, að afgreidd hafi verið ein 7–8 mál. Mjer var ljóst, að haftafrv. var tímafrekt, og það var ekki forsvaranlegt að láta öll þessi mál bíða þangað til nefndin hefði lokið við að ganga frá því. Svo komu stjórnarskiftin. Fundurinn 21. mars var síðasti fundurinn í nefndinni, sem jeg stýrði. Þetta, sem nú hefir verið talið, er eina ástæðan til þess, að nefndin hefir ekki þegar afgreitt haftafrv. Hún hefir því ekki tafið það umfram það, sem var beint nauðsynlegt. Stjórnarskiftin og fjárlögin hafa auðvitað tafið málið síðan, en á því á nefndin enga sök.

Hv. 1. þm. S.-M. sagðist mundu fylgja þessu frv. til 3. umr., ef haftafrv. yrði látið koma inn í deildina áður en 3. umr. fer fram um tollafrv. Jeg hefi leyft mjer að fara fram á það, að þetta frv. verði afgreitt hjeðan úr deildinni á morgun með afbrigðum frá þingsköpum, en jeg veit ekki, hvort hv. fjhn. getur skilað nál. um haftafrv. fyrir þann tíma. En hinsvegar get jeg ekki sjeð, að það samband sje milli þessara mála, að þetta frv., sem samkvæmt eðli sínu verður að flýta sem mest, megi ekki ganga áfram, svo sem rjettmætar ástæður heimta, þó hitt sje enn ekki komið úr nefnd.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) kvaðst vera tortrygginn í garð okkar ráðherranna. Hann er stjórnarandstæðingur, og það er því hans hlutverk að vera tortrygginn og leggja orð og gerðir stjórnarinnar á tortryggninnar vogarskálar. Þessi hv. þm. sagði, að jeg hefði lýst því yfir, að mjer þætti meira um það vert, að ríkissjóður fengi 100 þús. kr. heldur en ef þjóðin sparaði 2 milj. kr. Þetta er auðvitað ekki rjett, eins og sjest á frv. Þar er farið fram á 20% tollhækkun, svo ríkissjóður fær af hverri miljón 200 þús. kr. Annars ber okkur hv. þm. Str. það einkum á milli, að hann telur það efalaust, að innflutningshöft muni hækka gengi íslensku krónunnar. Þá trú hefi jeg ekki. Innflutningshöft geta verið gagnleg og að vissu leyti nauðsynleg, en mjer dettur ekki í hug, að þau muni hækka gengið. Tollur, sem gefur ríkissjóði tekjur, svo hægt sje að afgreiða fjárlög ríkisins tekjuhallalaust og greiða nokkuð af skuldum, hefir meiri áhrif í þá átt að rjetta við gengið heldur en innflutningshöft.

Háttv. þm. Str. vildi verja sig gagnvart orðum mínum um það, hvers vegna hann benti ekki á aðra leið til þess að auka tekjur ríkissjóðs, með því að segja, að það mætti leggja gjald á óseldar vörubirgðir. Háttv. þm. veit, að ekki muni auðvelt að framkvæma þetta. En þó þetta yrði gert, líklega með brtt. við þetta frv., þá er það sannast að segja, að sú upphæð, sem þannig fengist, nægir ekki. Smáupphæð í eitt skifti fyrir öll getur ekki komið í staðinn fyrir innflutningsgjald sem það, er hjer um ræðir.

Að þeir menn standi að baki stjórninni, sem einkum hafa óhag af höftum, hefir ekki við nein rök að styðjast. Það mætti þá eins segja það um háttv. þm. Str. Eins og allir geta sjeð á síðustu kosningum, þá stendur að baki þessari stjórn langfjölmennasti flokkur landsmanna, sá flokkur, sem hefir nálega helmingi fleiri atkvæði heldur en nokkur hinna flokkanna. En í þeim flokki eru kaupmenn svo lítill hluti, að þeirra gætir ekki; en annars eru þeir vitanlega eins góðir borgarar eins og hverjir aðrir kjósendur. Annars geri jeg ráð fyrir því, að það verði fyrir þessari stjórn eins og öðrum, að ef hún vill líta eftir vilja kjósenda, þá líti hún þangað, sem fjöldinn er.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að málið væri ekki nægilega rannsakað; það vantaði bæði skýrslu um fjárþörf ríkissjóðs og eins áætlun um það, hvað mikið fje muni fást með þessu frv. Mjer datt ekki í hug, að nokkur þm. fylgdist svo illa með, að þetta þyrfti að endurtaka, því það er gerð ítarleg grein fyrir þessu í nál. fjhn. á þskj. 114 og 119, viðvíkjandi stjfrv. um 25% gengisviðauka á innflutningsgjaldi. Og hvað það snertir, hve miklar tekjur þurfi til þess, að ekki verði tekjuhalli, þá er mín niðurstaða sú, að til þess þurfi 1½ miljón kr. í nýjar tekjur. Samkvæmt nál. þessu er gert ráð fyrir því, að tekjuaukinn af stjfrv. um 25% tollhækkun, sem nú er orðið að lögum, nemi ½ miljón kr., og því, sem þá skortir, er hugsað til að ná með þessu frv., og ef til vill einu litlu frv. enn, sem ekki er komið frá fjhn. En það er frv. frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um það, að áfengisverslunin megi leggja á lyfjaspíritus eins og annað áfengi. Mestum hluta þessarar miljónar verður að ná með þessu frv. Í greinargerð frv. er skýrt frá því, að innflutningur þeirra vörutegunda, sem verðtollurinn á að ná til, hafi numið 10 milj. kr. árið 1921, en yngri skýrslur eru ekki til ennþá. Og án þess að með neinni vissu verði sagt um, hversu mikill innflutningurinn muni verða, ef tollhækkun þessi kemst á, þá geta hv. þm. ef þeir vilja líta með velvild á málið, reiknað út, hversu mikið þessi innflutningur megi lækka frá því, sem var 1921, án þess að frv. þetta missi marks síns. Til þess að ná 1 milj. kr. tekjuauka með þessu frv. þarf verð þeirra vörutegunda, sem eftir því verða tollskyldar, að nema 5 miljónum fob. í erlendri höfn, og er því gert ráð fyrir, að innflutningur þeirra minki um 5 milj. kr. að minsta kosti. Það sýnist því vera lítið raunverulegt ágreiningsefni milli okkar og hv. Framsóknarflokksmanna, þar sem þeir halda því að stjórninni, að hún gefi yfirlýsingu um, að hún vilji að minsta kosti hefta innflutning, sem svarar 5–6 milj. kr., en við gerum ráð fyrir, að þeim árangri verði náð með þessu frv., sem þar að auki mun auka tekjur ríkissjóðs um eina miljón. Og enda þótt við viljum ekki gefa neina ákveðna yfirlýsingu um þetta efni, þá geta þeir ekki forsvarað að tefja fyrir framgangi þessa frv. á þeim grundvelli, að svo mikið beri á milli að því er þetta atriði snertir.

Þá má ekki gleyma því í sambandi við þetta mál, að ef albanna á sumar vörutegundir, en tolla aðrar, þá getur enginn búist við því, að innflutningur haldist óbreyttur á þeim vörum, er svo mjög verða tollaðar, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. Svona hár tollur hlýtur að hafa í för með sjer stórmikla takmörkun á innflutningi þeirra vörutegunda, sem hann nær til.

Það nær því engri átt að gera þær kröfur, að fyrst sje bannaður með öllu innflutningur helmings þess varnings, sem hjer um ræðir, en tolla síðan svo mjög hinn helminginn. Með því móti nægir frv. þetta ekki til að bæta úr hinni brýnu þörf ríkissjóðs.

Eins og jeg hefi áður sagt, er ekki mögulegt að gera neina ákveðna áætlun um tekjur ríkissjóðs samkv. þessu frv. Það getur vel brugðist, að innflutningur umræddra vörutegunda nemi 5 milj. kr., sem þarf til þess að áætlun fjhn. standist. Það getur meir en vel farið svo, og reyndar ekki ósennilegt, að svona mikil tollhækkun dragi enn meira úr innflutningnum, og er sjerstaklega hætt við því, að fyrsta og jafnvel annað árið verki hún að mestu sem algert bann. En um það er ekki hægt að segja að svo stöddu. Reynslan verður að skera úr því. En í augum þeirra, sem telja takmarkaðan innflutning fyrir öllu, ætti ekki að vera ástæða að leggjast á móti frv. þessu af þeim ástæðum, að tekjur samkvæmt því verði óvissar, sökum þess, hversu mjög það dragi úr innflutningi.

Mjer virðist sem nokkur metnaður sje kominn í hv. þm. út af máli þessu, og finst mjer á tali þeirra, er mesta trú hafa á innflutningshöftum, að þeir leggja svo ákaflega mikið upp úr því að þau verði sett nú með nýjum lögum.

Kemur þetta einkum í ljós hjá hinum nýju þm., og munu þeir sennilega ætla að hrósa sjer af þeim lögum eftir á. Fæ jeg ekki betur skilið en að þeim þætti miður, að höftin yrðu sett með reglugerð samkv. heimild í eldri lögum. En jeg á bágt með að trúa því, að svona atriði verði gert að því kappsmáli, að þetta frv. verði látið gjalda þess og tafinn framgangur þess á þeim grundvelli, og vona jeg, að við 3. umr. komi í ljós, að svo er ekki. Hitt, að rannsaka hve margir Íhaldsflokksmenn eru fylgjandi innflutningshaftafrv., eins og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) talaði um, er ómögulegt. Jeg býst við, að svo sje ástatt um þá, eins og aðra hv. þm., sem ekki eru þá bundnir sjerstaklega við flokkssamþyktir á bak við tjöldin, að afstaða þeirra til slíks frv. fari mjög eftir því, hvernig frv. er. Jeg þykist vita, þó mjer sje það ekki fullkunnugt, að fáir þeirra muni geta gengið að haftafrv. því, sem nú liggur fyrir þessari hv. deild, óbreyttu. Jeg er líka viss um, að fáir hv. Framsóknarflokksmenn muni gera það, ef þeir ættu á hættu, að atkvæði þeirra rjeðu því, að það frv. yrði að lögum. Því frv. þarf að breyta og það allverulega. Það er því vonlaust, ef þetta frv. á að ná fram að ganga með hæfilegum hraða, að rannsaka áður skoðanir þm. Íhaldsflokksins á haftafrv., eins og háttv. þm. (ÁÁ) bað um. Ef fyrir lægju ákveðnar skynsamlegar uppástungur í haftamálinu, mætti bera þær undir Íhaldsflokkinn, en lengra verður ekki farið með jafnskynsama menn og þann flokk skipa. Þeir geta tekið afstöðu til þess, sem þeir sjá skýrt lagt fram fyrir sig, en ekki til hins, sem þeir vita ekkert hvað er og sjá hvorki haus nje hala á.

Jeg vil enda mál mitt með því að minna á það, sem hæstv. atvrh. (MG) tók fram, og jeg hefi reyndar áður um getið, að ef menn vilja ná tolli þeim, sem frv. gerir ráð fyrir, af þeim vörum, sem koma til landsins með næstu skipum, sem eru sum á leið hingað, þeim vörum, sem bann bráðabirgðareglugerðarinnar nær ekki til, þá verð jeg að biðja um, að frv. verði afgreitt frá þessari hv. deild með afbrigðum frá þingsköpum á morgun. Framsóknarflokkurinn hefir að vísu atkvæðamagn til þess að neita um þau afbrigði, en jeg treysti því, að sá litli ágreiningur, sem kann að vera um efni haftafrv., verði þess ekki valdandi, að ríkissjóður þar fyrir missi þessar tekjur í vasa einstakra manna, einkum kaupmanna.