29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

100. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Þegar hæstv. fjrh. las upp skulda-„registur“ ríkissjóðs, skildist mjer sem það ætti að vera til þess að hræða hv. þm. til þess að samþykkja þetta frv. En á mig hefir það engin áhrif, hvort ein miljón er lesin upp í einu eða þrennu eða fernu lagi; það er jafnt ein miljón fyrir það. En það, sem einna átakanlegast kom fram við þennan lestur, var það, hve skuldir ríkissjóðs hafa aukist gífurlega nú um tvo síðustu mánuðina, vegna gengisfallsins, líklega um 2 miljónir króna. Það sýnir og ljóslega, hversu mikla þýðingu það hefir, að Alþingi geri ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir frekara gengishrun. Í janúarmánuði 1923 var sterlingspundið 26 kr. ísl., en nú er það kr. 33,50 og síðan hafa skuldirnar í sterlingspundum stórum hækkað, eða eru nú orðnar um 4 milj., en voru þá ekki nema 3 milj. Þetta sýnir, hvert er aðalatriðið í öllum bjargráðum við ríkissjóð og landið í heild, en hingað til hefir þó ekki tekist að fá þing eða stjórn til þess að fallast á neinar ráðstafanir í þá átt að hafa áhrif á gengi ísl. peninga, sem stöðugt eru hríðfallandi.

Menn hafa hugsað sjer þetta frv., sem hjer ræðir um, sem tekjuaukafrv., og hv. fjvn. gerði ráð fyrir 1 milj. kr. tekjuauka af því. Hæstv. fjrh. (JÞ) lýsti því aftur á móti greinilega yfir í gærdag, að ómögulegt væri að segja um það með nokkurri vissu, hve miklar tekjurnar yrðu, og treysti jeg það vel áætlunargáfu hans, að þegar hann treystist ekki til að áætla neitt um þetta, þá hygg jeg að það verði öðrum fullerfitt að fullyrða nokkuð um það mál. Það er því fálm eitt út í loftið, þegar verið er að telja mönnum trú um, að þetta frv. hafi svo og svo mikinn tekjuauka í för með sjer, og er það aðeins gert til þess að ginna menn fremur til þess að samþykkja það. Annað er og, sem þetta gerir, ef frv. verður að lögum, að verðtollurinn kemur allhart niður á ekki svo fáum nauðsynjavörum. Þrátt fyrir það, að ávalt megi um það deila, hvað sjeu nauðsynjavörur og hvað ekki, mun það þó sýna sig í framkvæmdinni, að það verða ekki svo fáar nauðsynjar, sem tollurinn lendir á, og verður því ómótmælanlega til þess að auka dýrtíð í landinu. Afleiðing dýrtíðarinnar er hækkun allra starfslauna, opinberra sem annara, og það er alment viðurkent, að af aukinni dýrtíð og af hækkandi starfslaunum leiðir gengishrun. Hvar er ríkissjóður þá staddur með sínar erlendu skuldir? Það er litið á það minst, sem er aðalatriðið í þessu máli, þ. e. að hafa hönd á bagga með verslun á afurðum landsins og þar með á erlendum gjaldeyri. Jeg hefi komið fram með till. um þetta, en þær hafa auðvitað ekki fundið náð fyrir augum þingsins. Hefðu þær tillögur mínar náð samþykki þingsins, er jeg sannfærður um, að ísl. krónan væri hætt að falla og að landið mundi rjetta við úr því.

Þá er enn ein hlið á þessu máli, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) drap á í gær. Það er, að sjálfsagt mundi allmikið verða gert að því að brjóta þessi lög. Þeir eru eflaust ekki svo fáir, sem æfðir eru orðnir í vínsmyglun, enda hefir löggæsluvaldið ekki verið sjerstaklega harðhent á þeim. Mjer þykir því ekki ólíklegt, að þessir náungar gefi sig einnig við þessari tegund smyglunar, og mun þeim það ekki heldur svo erfitt að koma þessum vörum inn í landið, ef eftirlitið með þessum lögum verður ekki betra en með vínbannslögunum. Fer þá margur skildingur fram hjá ríkissjóði, en ofan í vasa þeirra manna, sem gera sjer að atvinnu að brjóta lögin. Mjer skildist sem hæstv. fjrh. (JÞ) talaði með sýnilegri velþóknun um þá menn, sem brjóta vínbannslögin, og að hann teldi það óvinsælt að klekkja á þeim; ef þannig þýtur í stjórnarskjánum, hygg jeg, að valt verði að treysta á sjerstakt eftirlit í þessum efnum, frekar en í öðrum. Mjer finst alt í lausu lofti um frv. þetta að því er tekjuauka ríkissjóðs snertir, og of snemt að setja það í samband við haftafrumvarpið, eins og mátti heyra á sumum í gær. Mjer skildist svo, sem yfirlýsingar hæstv. ráðherra í gær væru aðeins gefnar til þess að villa Framsóknarflokknum sjónir. Það er augsýnilegt, að lögin frá 8. mars 1920 eru tilvalin fyrir kaupmannastjórn að fara með þau, og við þessi lög munu yfirlýsingar ráðherranna hafa átt. Það er stjórnin, sem ræður samkvæmt þeim lögum, hvað á að leyfa og hvað á að banna, og verður því stjórninni auðvelt að ívilna einstökum kaupmönnum eftir vild. Jeg skil því vel, að stuðningsmenn stjórnarinnar, kaupmennirnir, vilji hafa þessi lög, þar sem það er alkunna, að tveir ráðherranna af þremur hafa alt fram að þessu verið andvígir öllum innflutningshöftum. Því tek jeg ekki mikið mark á þeim yfirlýsingum, sem stjórnin hefir verið að gefa þinginu um, að hún muni vilja styðja einhver höft. Það hefir þá áður hent þá sömu herra að skifta um skoðun í þessu máli, og má því eins ætla, að það geti aftur komið fyrir þá, og ekki síst ef hagsmunir kaupmanna heimta.

Jeg er þó alls ekki að krefjast verslunarhafta, því jeg tel þau geta orðið til að auka enn meir á þau vandræði, sem nú standa yfir. Þau ala á smyglun og stuðla yfir höfuð að því að auka dýrtíðina. Jeg hygg yfir höfuð, að hvorugt muni hafa tilætluð áhrif á fjárhag ríkisins, verðtollurinn eða verslunarhöftin. Hið eina, sem duga mundi, er ráðstöfunarrjettur þjóðarinnar á öllum gjaldeyri, en jeg treysti þó ekki núverandi stjórn til þess að gera neitt í þá átt. Jeg hefi svo oft heyrt núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) klifa á því, hversu lággengið væri hentugt til þess að þrýsta niður kaupi verka manna o. s. frv. Jeg mun því greiða atkvæði á móti þessu frv. og vil ekki stuðla til þess, að aukið verði enn meir á dýrtíð í landinu og verðfall íslenskra peninga.