29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

100. mál, verðtollur

Hákon Kristófersson:

Umræðurnar eru nú orðnar það umfangsmiklar, að það virðist vera að bera í bakkafullan lækinn að fara að auka á þær. En það vill nú svo til, að jeg á brtt. á þskj. 249, sem fer í þá átt að fella niður bursta og kústa. Jeg hefi heyrt það, og tel það á rökum bygt, að allmikil hreyfing sje hjer til þess að koma á innlendum iðnaði í þessari grein, og til þess að hlynna að þessum sem öðrum tilraunum til innlends iðnaðar er þessi brtt. borin fram. Þá er hinn liður brtt. um að fella niður blautasápu og stangasápu. Hjer er þegar kominn á nokkur iðnaður í þessari grein, og ætti hann því að njóta þessarar verndar verðtollslaganna. Jeg tel mig ekki þurfa að gera frekari grein fyrir þessu, þar eð allir munu sjá, að þetta er rjettmætt frá þeirra manna sjónarmiði sjeð, er vilja efla innlendan iðnað. Hvað sápuna snertir, eru hjer framleiddar ýmsar tegundir innanlands af sápu, og eru sumar þeirra allmikið notaðar, og þótt jeg hafi ekki neitt sjerstakt vit á þessum hlutum, veit jeg þó til, að hún hefir víða þótt mjög góð; t. d. hefir ísl. sápa talsvert verið notuð á mínu heimili og reynst vel.

En úr því að jeg tók til máls á annað borð, vil jeg taka það fram, að jeg tel það vera mikið neyðarúrræði að þurfa að samþykkja þetta frv., með tilliti til hins mjög svo litla eða veika gjaldþols landsmanna, en hinsvegar, er menn hafa litið á hina glöggu skýrslu hæstv. fjrh. (JÞ) um fjárhagsástæður ríkissjóðs, þá munu allir sjá, að eitthvað verður að gera til þess að taka í taumana og afstýra fjárhagslegum voða. Það mun því nú sem fyr sá verða upptekinn hjá hv. Alþingi að bæta úr þörfum ríkissjóðs með auknum sköttum á landsmönnum, í stað annarar bjargráðaviðleitni, svo sem sparnaðar eða takmörkunar á útgjöldum. Jeg skal ekki dyljast þess, að þetta er neyðarúrræði, en menn verða nú oft að gera fleira en gott þykir, og þó að jeg hafi verið hlyntur verslunarhaftastefnunni, er jeg ekki fallinn frá henni fyrir það, þótt jeg muni samþykkja þetta frv. Enda tel jeg líklegt, að þeirra muni einnig neytt að einhverju leyti. Jeg verð og að segja það, að til þess að þessi verðtollslög komi að tilætluðum notum, verðum við að afgreiða frv. frá þessari deild í dag, og jeg tel Framsóknarflokkinn þakkarverðan fyrir það að hafa nú ákveðið að tefja ekki frekar fyrir þessu frv., enda hefði það hvort sem er ekki leitt til annars en nokkurra daga frests á samþykt frv.

Viðvíkjandi ræðu hv. 2. þm. Reykv. er hann hjelt því fram, að lögin frá 1920 væru góð fyrir stjórnina og þá kaupmannasinna, er hana styddu, get jeg ekki tekið neitt af því til mín, þótt jeg sje fylgismaður þessarar stjórnar. Jeg hygg ekki, að hann geti með nokkrum rjetti sannleikans kallað mig kaupmannadindil. Þá mætti með meiri rjetti viðhafa það um hann sjálfan. Það er ekki alt undir því komið að tala eins og fjöldinn vill heyra, en hv. 2. þm. Reykv. hefir verið talinn fjármálaspekingur með 42 manna vit í höfði, og þó hefi jeg ennþá ekki sjeð neitt frá honum koma, sem við fáráðlingarnir höfum getað aðhylst eða talið mundu miða að því að rjetta gengi ísl. peninga. Aftur er jeg sammála honum í því, að vafasamt sje, að þetta frv. sje aðalþátturinn í því að rjetta við gengið, en jeg ætla, að þetta frv. geti átt ekki óverulegan þátt í því, að ríkið geti staðið í skilum, og þó okkur stuðningsmönnum frv. sje óljúft að leggja nýja skatta á þjóðina, teljum við okkur ekki geta komist hjá því. Jeg treysti stjórninni fullkomlega til þess að gera sitt til þess að sporna við því, að þetta frv. verði til að auka dýrtíð í landinu, og, svo framarlega sem hún sjer það fært, að varna því, að okrað verði um of á þeim vörum, sem til eru í landinu. Mjer er ekki grunlaust um, að síðan reglugerðin kom út, sem bannaði innflutning á svo mörgum vörutegundum, að þá hafi síðan eitthvað átt sjer stað í þá átt. Þætti mjer því vænt um, ef stjórnin sæi sjer fært að gera eitthvað í þessu skyni. Að hún hefir ekki getað gert það að þessu, getur vel stafað af ýmsum önnum öðrum. Jeg þykist ekki hafa verið mikill þátttakandi í bruðlunarsemi þings og stjórna á undanförnum árum, en því er nú þannig varið, að við höfum farið ógætilega að ráði okkar, og er því komið að skuldadögunum, og er útlitið miður glæsilegt. Jeg veit, að úti um land muni auknar álögur eiga litlum vinsældum að fagna jafnaðarlega, enda veit jeg að gjaldþol almennings ber vart meira en komið er. En þar sem ríkið hefir ekki annað á að byggja en óbeina skatta verður maður að fara þessa leið að þessu sinni, með þá von og vissu auðvitað, að lög þessi standi alls ekki lengur en nú er gert ráð fyrir. Því eins og jeg hefi áður tekið fram, er þetta vandræðaráðstöfun; ráðstöfun, sem engan rjett ætti á sjer, ef ekki væri hinni brýnustu þörf ríkissjóðs til að dreifa.

Jeg vænti þess, að hv. deildarmenn sjái sjer fært að samþykkja þessar brtt. mínar og sýni með því, að þeir vilji styðja, að innlendur iðnaður komist á fót.