29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

100. mál, verðtollur

Jón Baldvinsson:

Jeg tek það strax trúanlegt, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, að hann væri enginn kaupmannasinni. Þessi hv. þm. er þektur að því að segja það, sem hann meinar. En misskilningur er það hjá honum, ef hann heldur, að það verði vel sjeð að mæla móti frv. Að minsta kosti þarf ekki að gera ráð fyrir, að það leiði til aukins fylgis þar, sem kaupmannaríki er mikið.

Hæstv. fjrh. (JÞ) vildi vefengja það, sem jeg sagði um aukningu skuldanna við erlend ríki vegna gengishrunsins. En þá skal jeg benda á það, að í fjárlagafrv. stjórnarinnar er dönsk króna reiknuð á 115 aura (í desember), en nú mun hún að minsta kosti standa í 123–124 aurum. Svo það ætti að vera augljóst, að danskar skuldir hafa aukist að mun. Hæstv. ráðherra hefir áður látið í ljós, að ekki geri til, þó gengið fjelli. En þegar peningar okkar eru komnir eins og þýska markið, þá gæti svo farið, að við hefðum lítið að gera með hans lággengisfjármálavisku. En hvers vegna er verslunin einmitt svo gífurleg við lággengislöndin? Hvers vegna sælast menn til að kaupa sem mest hjá þeim? Er það ekki vegna þess, að þau lönd láta vörur sínar fyrir lægra verð en aðrir, og bera þannig minna úr býtum?

Þá sagði hv. samþm. minn, 3. þm. Reykv. (JakM), að jeg væri á móti öllu. En jeg get þá bent honum á, að jeg hefi áður hjer á þinginu bent á leiðir til bjargar, og flutt frv. um það, en hann veitt því máli ekki neinn stuðning. Hefði þó verið nauðsynlegt, að hlutdeild ríkissjóðs á sölu afurða landsins hefði fyrir löngu verið komið í kring, og það verður væntanlega tekið upp seinna, þó drepið hafi verið í þetta sinn.

Sami hv. þm. var að hæla sjer af því, að hafa ekki komið fram með neinar kröfur eða tekið þátt í neinni verslun um þetta mál, svo sem mjer skilst að eigi sjer stað milli Framsóknar- og Íhaldsflokksins í þessu máli. Og það mun rjett vera, að hann hafi ekki að þessu sinni komið með neinar gagnkröfur, en máske hann hafi þá fengið það ríflegri uppfylling óska sinna á bak við tjöldin.