24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg lýsti yfir því í byrjun, að jeg myndi geyma til 3. umr. að fara nokkrum orðum um fjárhagsástand landsins og gera þá ef til vill nokkrar aths. og viðauka við skýrslu hæstv. fyrv. fjrh. (KlJ), er hann kom með í byrjun 1. umr.

Jeg skal þó nú þegar segja nokkur orð, sem nál. hv. fjvn. og orð hv. 2. þm. Rang. (KlJ) gáfu tilefni til. Jeg skal þá strax taka það fram, að jeg er nefndinni yfirleitt þakklátur, og verður ekki annað sagt en hún hafi sýnt alvarlega viðleitni í þá átt að gera fjárlagafrv. að rjettri mynd af tekjum og gjöldum ríkisins 1925.

Hv. fjvn. hefir fært niður tekjuhliðina. Og fyrir fjárhaginn er það mjög þýðingarmikið, að hún sje gætilega sett, svo hún verði ekki undir áætlun og fremur verði líkur fyrir einhverjum umframtekjum til að vega upp á móti óhjákvæmilegum umframgreiðslum. Þetta hefir nefndin skilið rjett. En því miður vantar þó ennþá mikið á, að tekjuhliðin sje eins gætilega áætluð eins og vant var á hinum fyrri löggjafarþingum.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) taldi álitamál, hvort tekjuhliðin væri rjettar áætluð hjá stjórninni eða nefndinni. En það á aldrei að vera neitt álitamál, þegar ræðir um tvær tekjuáætlanir, að þá er sú lægri ávalt rjettari, af því að hún er gætilegri. Á gætni og ógætni í því efni getur afkoma ríkissjóðs oltið. Að öðru leyti get jeg undirstrikað það, sem hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sagði, að naumast munu öll kurl vera komin til grafar útgjaldamegin, svo sem kostnaðurinn út af berklavarnalögunum. Í stjfrv. er miklu lægri upphæð tiltekin í þessu skyni en greiða verður að lögunum óbreyttum og mun lægri en greiða verður samkv. þeim brtt. við berklavarnalögin, sem mjer hafa verið afhentar og þó fara fram á talsverða minkun þessara útgjalda. Þetta frv. hefir raunar komist úr mínum vörslum, og er ekki vitað, hvar það nú er niður komið, en það mun þó ekki skaði skeður, þar sem jeg hefi tilbúið annað samskonar frv., sem fer þó öllu lengra í breytingum sínum.

Þá kem jeg að öðrum lið, sem er dýrtíðaruppbót embættismanna. Það mun fyrirsjáanlegt, að hún verður hærri árið 1925 en hún er nú, og mun hún of lágt áætluð í frv. stjórnarinnar.

Þá vil jeg benda hv. fjvn. á það, að tíska hefir verið að greiða utan fjárlaga ýmisleg gjöld eftir eldri lögum og þál. Jeg álít, að komast beri burt frá þeirri venju að greiða þau gjöld, nema þau sjeu tekin í fjárlögin. Stjórnarskráin (37. gr.) kveður líka svo á, að ekkert gjald megi greiða, nema heimild sje til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Nú er í fjárlögum gert ráð fyrir fjárgreiðslum út af lögum, sem samþykt eru á þessu þingi, en þá vantar aðeins á, að gerðar sjeu till. um fjárgreiðslur samkv. eldri lögum og þál. Virðist þó innan handar að gera það. Virðist rjettast að líta svo á, að fjárveitingum samkv. eldri lögum, sem ekki væru teknar upp í fjárlögin, væri frestað.

Hvað þál. viðvíkur, þá eru þær sjálfar ekki neinar fjárgreiðsluheimildir, nema hvað stjórnin getur greitt þau gjöld upp á fjárveitingu eftir á. Því þyrfti að taka upp í fjárlögin þær greiðslur út af þál„ sem nefndin leggur til, að greiddar verði. Skal jeg um leið geta þess, að stjórn sú, sem jeg á sæti í, mun tæplega telja sjer skylt að greiða fje samkv. þál., nema alveg sjerstakar ástæður sjeu fyrir hendi.

Viðvíkjandi hinum einstöku till. þarf jeg ekki að vera margorður. Þó skal jeg taka það fram, að jeg styð brtt. nefndarinnar við 7. gr., um að færa upp vexti af innlendum lánum um 100 þús. kr. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) var raunar þeirrar skoðunar, að hægt myndi verða að borga eitthvað af lánunum með tekjuafgangi ársins 1924, og því myndi ekki þörf að gera ráð fyrir svona miklu fje til vaxtagreiðslu. En tekjuhallinn síðastliðið ár var nærfelt 2 milj. kr., og byrjum við nú árið 1924 með nokkurn veginn jöfnum tekjustofnum sem 1923. Og þó við fellum niður flestar verklegar framkvæmdir, þá er sú upphæð þó ekki hærri en innan við hálfa miljón. Það þarf því varla að gera ráð fyrir, að tekjuafgangur verði til að borga miklar skuldir, nema slíkar tekjur komi ríkissjóðnum af einhverjum nýjum ráðstöfunum, sem þingið gerir. En jafnvel þó einhver afgangur fengist vegna þeirra ráðstafana, þá myndi hann ekki líkt því nægja til að greiða þær lausaskuldir, sem saman hafa safnast og jeg mun gera nánar grein fyrir við næstu umr.

Annars verð jeg að segja, að jeg er yfir höfuð á móti nærfelt öllum hækkunartill., nema þær sjeu áætlunarleiðrjettingar, svo sem eru till. hv. fjvn. til hækkunar á nokkrum gjaldaliðum.

(Aftan af ræðunni mun vanta alllangan kafla. — J. Þ.).