29.03.1924
Efri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

100. mál, verðtollur

Sigurður Eggerz:

Það var ekki meining mín að halda hjer langa ræðu. Jeg skal taka það fram, að jeg mun styðja hæstv. stjórn til að koma frv. þessu fram sem allra fyrst. En það var stutt aths., sem jeg vildi gera við eitt atriði í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ). Mjer skildist á honum, að hann teldi fyrv. stjórn hafa íþyngt bönkunum um of með lántökum fyrir hönd ríkissjóðs. Það er að vísu rjett, að ríkissjóður mun nú skulda Landsbankanum á þriðju miljón króna. En bæði er þess að gæta, að bankinn fjekk hjá stjórninni 2 miljónir af enska láninu, og svo hefir stjórnin nú nýlega stutt hann með ríkissjóðsábyrgð til þess að taka 200 þús. sterlingspunda lán í London, sem mun nema í ísl. kr. yfir 6,6 milj. Og þegar í annan stað er litið á það, að stjórnin hefir áður lánað Íslandsbanka stórfje, t. d. mikinn hluta enska lánsins, en skuldar honum nú mjög lítið, þá verður með engu móti sagt, að hún hafi íþyngt bönkunum. Þvert á móti hygg jeg, að fáar stjórnir hafi eins lítið notað banka sína í ríkissjóðsþarfir eins og íslenska stjórnin, og fáar stutt þá eins vel og hún.