29.03.1924
Efri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

100. mál, verðtollur

Jónas Jónsson:

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. stjórn telji þessa hv. deild hafa tekið kurteislega við frv. þessu, því að undir venjulegum kringumstæðum mundi svo stórt mál ekki hafa verið afgreitt með afbrigðum frá þingsköpum, lítt rannsakað af deildinni.

En með því að þetta er eitt af allra stærstu málunum, sem fyrir liggja, þykist jeg vita, að hæstv. stjórn sje fús til, nú við þessa 1. umr., að ræða það við hv. deild og gefa sem allra fylstar skýringar.

Jeg verð nú að líta svo á, að hægt hefði verið fyrir hv. Nd. að halda betur á málum þessum en gert hefir verið. Því annað mál, skylt þessu, liggur fyrir þeirri hv. deild, sem að rjettu lagi hefði átt að ganga á undan. Jeg á þar við frv. um innflutningsbann á ýmsum vörum, sem þar er enn í nefnd — og verð jeg að átelja, að hæstv. fjrh. (JÞ), sem til skamms tíma var formaður þeirrar nefndar, fjhn., hefir ekki beitt áhrifum sínum meira en raun ber vitni um til þess að það frv. fengi skjótari framgang og gengi á undan þessu frv. Til þess að mönnum verði enn ljósara, við hvað jeg á, skal jeg taka það fram, að svo virðist sem tvær stefnur, eða kannske öllu heldur tveir hliðstæðir straumar, ríki hjer í þinginu í fjárhagsmálum. Önnur stefnan er sú, að bæta skuli hag einstaklinganna til þess að fjárhagur landsins í heild verði bættur á þann hátt. Þeir, sem þessari stefnu fylgja — og það geri jeg — hugsa sjer að ná takmarki sínu fyrst og fremst með því að draga sem mest úr öllum miður nauðsynlegum innflutningi til landsins, til þess að verslunarjöfnuðurinn verði okkur hagkvæmari og betri not verði að þeim erlenda gjaldeyri, sem við fáum fyrir afurðir okkar, en verið hefir, og á þann hátt rjettist gengi ísl. peninga sem fyrst. Fylgismenn þessarar stefnu leggja höfuðáhersluna á það, að gengishrun eða lággengi peninga sje stærsta þjóðarbölið. Stafi það ekki eingöngu af tekjuhalla fjárlaganna, þó að hann sje vondur og síst bót mælandi, heldur einnig og miklu fremur af óhagstæðum verslunarjöfnuði, þ. e. a. s., að þær 40 miljónir, sem þjóðarbúið veltir í viðskiftum sínum við útlönd, sjeu áhrifameiri heldur en 8 milj. ríkissjóðs, þegar um gengi ísl. krónu er að ræða.

Jeg skal geta þess, að þessi stefna hefir eindregið fylgi þjóðarinnar, að undanskildum tiltölulega mjög fámennum flokki manna. Hvort sem það er nú rjett eða rangt, þá trúir þjóðin því, að fyrsta bjargráðið sje, að sett verði ströng innflutningshöft. Sumir óska, að gengið verði ennþá lengra, jafnvel svo langt, að tekin verði upp skömtun á ýmsum brýnum nauðsynjum, svo sem kornvörum o. fl. Því til stuðnings skal jeg skýra frá því, að mjer er kunnugt um, að í Norður- Þingeyjarsýslu t. d. hefir fjelag neytenda, sem kaupir sjálft inn allar sínar nauðsynjar, ákveðið að takmarka stórvægilega notkun erlends varnings. T. d. ætla fjelagsmenn í framtíðinni ekki að eyða meiru en 33% af sykri á móts við það, sem áður tíðkaðist, og svipað mun um flestallar vörutegundir. Jeg þykist því viss um, að hæstv. stjórn, sem leggur mikla áherslu á það, að frv. þetta nái fram að ganga, geti skilið, að þeir, sem vilja fórna svo miklum lífsþægindum til þess að rjetta við verslunarjöfnuðinn, muni illa sætta sig við, að haldið verði áfram að flytja inn í landið allskonar glingur fyrir margar miljónir króna, þó að með því sje haldið við hagsmunum fárra manna, því að með því móti kemur hinn frjálsi sparnaður einstaklinga þjóðarinnar að litlu liði.

Þó að ekki komi það beinlínis þessu máli við, þá vil jeg geta þess, að jeg hefi heyrt, að til væru búðir hjer í Reykjavík, sem hefðu fyrirliggjandi birgðir, er væru 800 þús. til 1 milj. kr. virði, af allskonar varningi, sem vel mætti komast af án. Ef svo er, að ein einasta búð hefir fyrirliggjandi í slíkum vörum jafnmikið og hæstv. stjórn ætlar að fá með þessum þunga tolli, þá geta menn skilið, hvílíka þýðingu það hefir að stemma á að ósi. Vænti jeg því þess, að hún veiti því liðsinni, að slíkur ófögnuður verði ekki látinn viðgangast lengur. Jeg gat ekki komist hjá því að minnast á þennan þátt viðskiftamálanna, því að jeg tel frv. það, sem nú er til umr., hafa gripið inn í annað mál, sem jeg verð að telja enn stórvægilegra.

Þá er hinn straumurinn, sem hæstv. fjrh. hefir nægilega lýst, að vegna þess. hve fjárhagur ríkissjóðs sje bágborinn og hafi stöðugt farið hnignandi í nokkur ár, þá verði að grípa til alvarlegra ráðstafana til að afla landinu nýrra tekna. Þetta er minna böl en hitt, fjárhagsörðugleikar þjóðarbúsins í heild, og þó að sjálfsagt sje og óhjákvæmilegt að bæta úr því, þá kemur sú bót að litlu liði meðan hið meira böl er ólæknað.

Nú vil jeg benda á eitt atriði, sem kom ljóst fram í ræðu hæstv. fjrh. Hann hugsar sjer, að ef áætla má, að þær vörur, sem í hæsta lagi hefir verið talað um að hefta innflutning á, nemi 10 miljónum króna, myndi innflutningur þeirra, ef engar hömlur yrðu lagðar á hann nema samkvæmt þessu tollhækkunarfrv., verða 5 milj. kr. og landið fá 1 milj. kr. í toll samkv. frv. Það er engum blöðum um það að fletta, að hjer er veikur punktur hjá hæstv. fjrh., að vilja flytja inn í landið miður þarfar vörur fyrir 5 milj. kr., til þess eins að halda við atvinnu nokkurra manna, sem versla með þennan varning, og ná í eina miljón sem toll af þeim handa ríkissjóði. Þjóðhagslega sjeð væri betra að spara kaup á þessum 5 miljónum og borga ríkissjóði miljónina á annan hátt. Og jeg vona, að hæstv. stjórn sje mjer samdóma um það, að vont sje að þurfa að auka þjóðareyðsluna til þess eins að afla ríkissjóði tekna.

Þess vegna hafa þau vinnubrögð vakið mótstöðu, að haftamálið stóra skuli sett á hakann, en smámáli, örlitlu broti fjárhagsmálsins, ýtt fram með afbrigðum frá þingsköpum. Að vísu er sagt, að hlaðið skip sje á leiðinni til landsins, fult af glysvörum, og þurfi að ná tolli af þeim vörum, sem það flytur. En það var hægt að gera á annan hátt, t. d. með tolllögum, sem stæðu aðeins á meðan þing stendur yfir, meðan verið er að ráða fram úr viðskiftamálunum, og hefði tollurinn þá gjarnan mátt vera eitthvað hærri. En úr því að svo er komið, að þetta frv. er látið ganga á undan, er ekkert annað að gera en að fella það, eða samþykkja, ef menn vilja ná í skip þau, sem eru á næstu grösum. Þó að jeg nú játi, að gott væri fyrir ríkissjóð að fá svo sem 200–300 þús. kr. tekjuauka og hann hefði þess fulla þörf, þá verð jeg að telja þeim vorkunnarmál, sem álíta, að líf og velferð þjóðarinnar sje undir gengi ísl. krónunnar komið, þó að þeir reyndu að sporna við þessu frv., ef það stofnaði hinu málinu, sem að þeirra viti er langtum þýðingarmeira, í hættu.

Þá vil jeg sjerstaklega tala um það við hæstv. stjórn, hvernig hún muni taka í haftamálin. Í gær heyrði jeg einn eða fleiri hæstv. ráðherra lýsa yfir því í hv. Nd., að þeir vildu hefta innflutning svo mjög, sem ríkissjóður þyldi. Þetta verður varla skýrt öðruvísi en svo, að ef ríkissjóður þyrfti að fá tolltekjur af bílum, silki o. s. frv., þá myndu þeir ekki sjá sjer fært að banna innflutning á þessum vörutegundum.

Þessi ummæli hæstv. ráðherra eru því engin trygging fyrir því, að þeir ætli sjer að gera alvarlegar ráðstafanir í þessu máli. Jeg er samdóma því, sem jeg hefi heyrt, að einn hv. íhaldsmaður hafi haldið fram á þingmálafundum í hjeraði sínu síðastl. haust, að hann væri ekki með innflutningshöftum, nema því aðeins, að með þeim væru sparaðar a. m. k. 5 milj. kr. Það er ekkert gagn að neinu smákáki í þessum efnum. 5–8 miljónir er það minsta, sem um dregur. Því vil jeg spyrja hæstv. stjórn, og þá einkum hæstv. forsrh. (JM), sem á atkv. hjer í þessari háttv. deild og kemur því til að ráða úrslitum málsins hjer með okkur hinum, hvort hún í útreikningum sínum um innflutningshöft telji of hátt takmark að spara með þeim a. m. k. 5 milj. kr. árlega frá því, sem verið hefir.

Því næst vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn um, hvernig form hún hefir hugsað sjer á takmörkun innflutningsins. Jeg hefi heyrt, að Íhaldsflokkurinn muni ætla að fella haftafrv. það, sem nú liggur fyrir hv. Nd., með dagskrá, þar sem tekið sje fram, að frv. sje óþarft, með því að fela megi atvrh. að nota heimild í lögum frá 8. mars 1920 til þess að banna innflutning, svo sem honum sýnist þörf. Jeg skal ekki neita því, að þá heimild má nota, svo að gagni megi koma, ef þingvilji er á bak við, og var það t. d. gert á meðan innflutningsnefndin starfaði. En reynslan hefir sýnt, að þetta er erfitt, því þegar mótstaða verslunarstjettarinnar óx, neyddist þáverandi stjórn til að leggja heimildina á hilluna, og síðan hefir hún sama sem ekkert verið notuð, fyr en á dögunum, að reglugerð var gefin út um strangt bráðabirgðabann á ýmsum vörum, að fenginni sjerstakri, þó ekki opinberri, heimild þingsins.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að einmitt skifti ákaflega miklu máli, hvor leiðin farin verður, því að ef hefta á innflutning með reglugerð samkv. lögunum frá 1920, þá er það fyrst og fremst eingöngu á valdi hæstv. stjórnar, hvað bannað verður og hvað ekki. Í öðru lagi er hver stjórn mjög illa sett, að þurfa að beita slíku banni harkalega hjer í Reykjavík. Þriðjungur bæjarbúa lifir hjer á verslun, og þarf því ekki að fara í neinar grafgötur með það, að ströng verslunarhöft af þessu tægi skapa hallæri í Reykjavík. Jafnvel þó nú að stjórn landsins, hverjir sem með hana færu, styddist ekki sjerstaklega við þær stjettir, sem mestan óhag hafa af innflutningshöftum, þá get jeg vel skilið, að óþægilegt yrði fyrir hana að umgangast daglega árum saman þúsundir manna, sem væru að fara á hausinn vegna ráðstafana stjórnarinnar, og þola alla þá kveinstafi og kvartanir, sem bærust ráðuneytinu út af þessu. Þó að jeg beri ekkert sjerstakt traust til núv. hæstv. atvrh. (MG), þá er það ekki eingöngu þess vegna, að jeg kem með þessar mótbárur. Aðstaða hverrar stjórnar, jafnvel þó að hún væri mynduð af Framsóknarflokknum, sem styðst ekki mikið við fylgi verslandi manna hjer í bænum, þó bændastjórn ætli að beita heimildinni frá 1920, í stað nýrra laga um innflutningsbann, yrði það svo erfitt, að líkja má við það að standa á Dettifossbrúninni. Stjórninni hlýtur að verða ákaflega erfitt að standast þann þunga, sem legst á móti slíkum ráðstöfunum, ef þær eiga eingöngu að hvíla á viljaafli ráðherranna, og það því fremur, sem núverandi hæstv. stjórn á stuðning sinn aðallega undir þeim mönnum, sem mestan óhag hafa af innflutningshöftum. Þess vegna vænti jeg þess, að hæstv. stjórn svari því, hvort hún vill fara þá leið í þessu máli, að samþykt verði ný lög um innflutningsbann, eða hvort hún vill fara reglugerðarleiðina samkvæmt heimildinni frá 1920. Ennfremur þætti mjer vænt um að fá upplýst, hversu langt hún vildi ganga; hvort hún vildi láta sjer nægja að spara með innflutningshöftum 1 eða 2 miljónir, eða hvort hún vill ganga lengra. Jeg myndi telja viðunandi, ef hún treysti sjer til þess að spara 5 milj. kr. með hreinu banni. Það eru þá þessi tvö atriði, sem jeg vildi biðja hæstv. stjórn að svara: hvort hún vill fara þá leið, að ný lög verði sett um innflutningsbann og hversu langt hún vill ganga.

Annars má hæstv. fjrh. ekki halda, að með frv. þessu sjeu tæmdar allar leiðir til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Hvers vegna var tollupphæðin ákveðin 20%, en ekki t. d. 30%? Og ennfremur eru til fleiri vörutegundir, sem hefði mátt tolla á sama hátt. Þá má geta þess, að nýlega hefir einn helsti læknir okkar skrifað um niðurstöðu læknavísindanna í einu atriði, sem byggja mætti á tollafrv. Jeg á við þá skýringu, að hveiti sje þeim mun dýrara en rúgur, miðað við næringargildi, að jafngildi þess, sem við kaupum af hveiti fyrir 1 krónu, getum við fengið með því að kaupa rúg fyrir 33 aura.

Hví er t. d. ekki lagður tollur á hveiti? Jeg hefi sjeð heila laupa fulla af hveitibrauðum flutta út í togarana. Sjómönnunum mundi alveg eins holt að borða rúgbrauð. Hveiti yrði flutt inn þrátt fyrir tollinn; gætu þá þeir, sem vildu, keypt það, en hinir notað ódýrari mjölmat. Yrði þetta allálitlegur tekjustofn fyrir ríkissjóðinn. Enn vil jeg nefna, að aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, hafa farið þá leið, að krefjast tollgreiðslunnar í gulli. Sumstaðar, einkum í stríðslöndunum, hafa ríkinu verið veittar allríflegar tekjur með hækkuðum eignaskatti. Gætum við af því lært. Hjer í bænum er fjöldi gamalla húsa, sem eru leigð óhæfilega hátt; borga þau í arði andvirði sitt á örskömmum tíma. Væru þessi hús ágætur tekjustofn fyrir ríkissjóðinn. Jeg tek þetta fram til þess að benda á það, að enn má finna margar leiðir aðrar en farnar hafa verið. Að síðustu þetta: Þótt 20% verðtollur verði lagður á meiri hluta innfluttrar vöru, mun það engin áhrif hafa á gengi krónunnar. Má búast við því, að innflutningur óþarfavarnings haldi áfram þrátt fyrir tollinn.

Ríkissjóðnum eru að vísu trygðar tekjur, en aðalmálið er óunnið, það, að bæta gengi íslenskrar krónu.

Loks vil jeg spyrja hæstv. landsstjórn: Hvaða loforð getur hún gefið oss, sem höldum fram haftakenningunni? Ætlar hún að beita reglugerðinni frá 1920? Hve langt ætlar hún að ganga í því ? Vill hún hjálpa til að spara landinu 5 milj. kr. á innflutningi?