29.03.1924
Efri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

100. mál, verðtollur

Jónas Jónsson:

Jeg álít að málið hafi skýrst töluvert við ræður hæstv. fjrh. (JÞ) og hæstv. atvrh. (MG), en þó hefði jeg kosið, að sá ráðherra, sem á sæti í þessari deild, hefði látið oss samverkamenn sína vita dálítið meira um skoðun sína á málinu. Jeg vænti þess, að jeg geti gert honum skiljanlegt, að sú krafa er ekki ósanngjörn. Það kom ekki nógu glögglega fram, hvort hæstv. ráðherrar ætluðu sjer sem þingmenn og stjórnendur flokks síns að vinna að því að koma á innflutningshöftum. Mjer er það óskiljanlegt, hvers vegna þeir vilja ekki á þessum erfiðu tímum leggja óþægindi þessa máls á herðar þeim, sem fúsir vilja taka þau á sig, sem eru andstæðingar hæstv. stjórnar. Ef stjórnin er oss andófsmönnum hennar samdóma, er hefta viljum innflutning að marki, þá skil jeg ekki, hvers vegna hún kýs þá leiðina, sem er erfiðari fyrir hana og gæti, ef svo vildi verkast, gefið andófinu auðveldan skotspón, ef miður tækist um framkvæmdirnar en skyldi. Hæstv. atvrh. talaði mjög ákveðið um, að hann mundi ekki láta strauminn beygja sig, en það er hvorki af hlífð eða óhlífð við hann, að jeg kýs fremur höft með lögum en reglugerð, heldur af hinu, að jeg tel þá leið betri fyrir málið, þar sem það er þá þjóðin sjálf, sem leggur á sig þessa fjötra, en ekki einn maður.

Hæstv. fjrh. segir, að fyrst og fremst beri að líta á hag ríkissjóðs, en þá tel jeg, að hæstv. atvrh. ætti að segja, að framar bæri að meta hag almennings. Ef verkum er svo skift milli þeirra tveggja hæstv. ráðherra, að hæstv. fjrh. á að gæta ríkissjóðs, ef nokkuð er í honum, þá er það víst, að hæstv. atvrh. á að vera aðalleiðsögumaður í atvinnumálum landins. Því að til hans líta hinar mörgu þúsundir manna víðsvegar um landið, sem krefjast haftanna og forgöngu hans í því efni. Hæstv. fjrh. kvað höftin mundu minka tekjur ríkissjóðs að miklum mun. En hefir ekki verið sagt af vorri hálfu, sem erum þeim fylgjandi, að vjer værum reiðubúnir að taka afleiðingunum af því með því að styðja stjórnina til skynsamlegra úrræða í þessu máli, ef hún fylgir fram haftafrumvarpinu!

Hæstv. fjrh. talaði nokkuð hart um það, hvílík óhæfa það væri fyrir stjórnina að styðja að framgangi haftamálsins, meðan ríkissjóði væri ekki sjeð fyrir tekjuauka. Jeg fæ ekki annað sjeð en að þetta bendi á, að hæstv. fjrh. líti of þröngt á verksvið sitt. Hann er ekki settur til þess eins að gæta að tómum sjóði, sem hann kveðst nú hafa á milli handa. Það getur ekki hjá því farið, að hæstv. fjrh. fyndi afleiðingar þess áður en líður á löngu, ef aukinn væri óeðlilega innflutningur á óþörfum varningi, í því einu skyni að fylla sjóðinn. Það er ekkert vit í því að flytja inn óþarfa fyrir 5 milj. kr. til þess að fá 1 milj. kr. í sjóðinn. Jeg veit, að hæstv. fjrh. vill ekki stuðla að þessu, þegar hann hugsar sig betur um, að þjóðin eyði svo miklu fje í þessu skyni, sem hún yrði ríkari, ef hún forðaðist þessa eyðslu, því að auðvitað verður að greiða þessar vörur.

Þá vjek hæstv. fjrh. að því, að erlendir fjármálamenn teldu gengishrun sjerstaklega stafa af eyðslu hins opinbera, en ekki ríkisins. Jeg veit, að honum muni kunnugt um, að um þetta er mjög deilt. Sumir halda þessu fram, en þó þykist jeg mega fullyrða, að fleiri fjármálamenn sjeu á annari skoðun. Gengisfall dönsku krónunnar stendur í nánu sambandi við hið mikla fje, sem Landmandsbanken tapaði á braski sínu, og óhæfilegan innflutning í sambandi við fjárglæfra bankans; einnig mun það stafa að nokkru leyti af almennri velmegun í Danmörku, sem leiddi af sjer óhóflega eyðslu á ófriðarárunum. Því að auðvitað verður eyðsla einstaklinganna talin í hærri tölum en eyðsla ríkisins, en þó getur hún átt mikinn þátt í gengisfalli, og er auðvitað ekki afsakanlegt, að sum lönd og bæjarfjelög hafa tekjuhalla ár eftir ár. En jeg tel, að hæstv. fjrh. komist of auðveldlega frá málinu með því að halda fram, að hann geti stöðvað gengisfallið með því einu að koma í veg fyrir tekjuhalla, ef hagur almennings er á hverfandi hveli, eða stórkostleg óhöpp koma fyrir, svo sem varð í Danmörku, þegar Landmandsbanken tapaði 300 milj. kr.

Hæstv. fjrh. sagði eitthvað á þá leið, að stjórnin tæki enga afstöðu til haftafrv., en það var um afstöðu stjórnarinnar í því máli, sem jeg spurði. (Fjrh. JÞ: Jeg hygg, að jeg hafi ekki viðhaft þessi orð, enda hefi jeg það skrifað, sem jeg sagði um þetta). Jeg heyrði þó ekki betur. (Fjrh. JÞ: Jeg skal lesa það upp aftur: „Stjórnin .... mun framkvæma innflutningshöft á óþörfum varningi eftir því, sem frekast er unt án þess að ganga of nærri ríkissjóði.“ Og jeg bætti við, að stjórnin tæki ekki afstöðu til þess, hvort um þetta mál verði sett ný löggjöf á þessu þingi eða notuð heimildin samkvæmt lögunum frá 8. mars 1920). Þetta er ekkert svar viðvíkjandi höftunum, að segjast hefta eyðslu út á við að svo miklu leyti, sem hagur ríkissjóðs leyfir.

Hæstv. stjórn fer fram á það við andstöðuflokk sinn, að hann afgreiði með afbrigðum frá þingsköpum lítt rannsakað mál sem þetta. Vjer höfum orðið við þeim tilmælum í kvöld, en æ sjer gjöf til gjalda. Vjer þykjumst nú á móti þessu eiga heimtingu á því, að hæstv. stjórn segi oss nú skýrt og skorinort, hvernig hún og flokkur hennar ætlar að taka í þetta stórmál, framkvæmd innflutningshaftanna. Hæstv. fjrh. hefir færst undan að gefa greið svör í þessu efni, og hæstv. atvrh. hefir beint og óbeint frekar látið í ljós, að hann væri á móti oss, því að hann virðist aðallega hugsa sjer að fara reglugerðarleiðina. Að vísu hefir hann ekki sagt það berum orðum, og vona jeg því, að hann kjósi ekki þá leiðina, sem verri er.

Jeg vil í þessu sambandi víkja mjer að þeim hæstv. ráðherra, sem á sæti í þessari deild. Það munu margir líta svo á, að eftir umræðunum í hv. Nd. að dæma, mundi hæstv. atvrh. og ef til vill nógu margir flokksbræður hans greiða atkvæði með aðalatriðunum í innflutningshaftafrv., og er það auðvitað ánægjuefni fyrir oss andstæðinga hans. En hvað verður þá, þegar frv. kemur til Ed.? Ef hæstv. forsrh. (JM), sem er höfuð flokksins hjer í hv. deild, væri á gagnstæðri skoðun og beitti sjer gegn málinu, væri einskisvirði stuðningur flokksbræðra hans í hv. Nd., ef skoðanabræður hæstv. fjrh. eyddu málinu hjer. Það er þetta, sem stjórnin á ósvarað og jeg tel oss eiga fulla sanngirniskröfu á, að hæstv. forsrh. og hæstv. atvrh. svari. Ætla þeir sjer sem þingmenn að fylgja frv. um innflutningshöft, eða ætla þeir sjer að vera á móti því?