29.03.1924
Efri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

100. mál, verðtollur

Ingvar Pálmason:

Sökum þess, að vel getur svo farið, að jeg greiði atkvæði gegn þessu frv., þá vil jeg með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þess.

Ástæðurnar til þess, að jeg er mótfallinn þessu frv., eru talsvert margar, og mun jeg nú telja upp þær helstu.

Fyrsta ástæðan er sú, að jeg tel þetta frv. vera reist á röngum grundvelli. Það er rangt að heimta inn tekjur handa ríkissjóðnum á þennan hátt. Það er hjer um neysluskatt að ræða, en þeir skattar koma jafnan þyngst niður á þeim, sem síst mega við því — barnamönnunum.

Önnur ástæðan er sú, að jeg tel gjaldþol gjaldþegna ríkisins ofhlaðið nú þegar. Því til sönnunar vil jeg benda á það, að fyrir þinginu liggja hjálparbeiðnir frá 2 hreppum á landinu og einum kaupstaðnum (Hafnarfirði). Bendir þetta ljóslega til þess, að gjaldþol landsmanna er nú þegar ofhlaðið, enda væri hægt að telja mýmörg fleiri dæmi upp á þetta.

Þriðja ástæðan er sú, að jeg tel frv. verði til þess að auka dýrtíðina í landinu. Það er ljóst af orðum hæstv. fjrh. (JÞ), að hjer er um tekjuaukafrv. að ræða fremur en haftafrv., og hlýtur því afleiðingin að verða enn frekari dýrtíð. Hefði frv. verið borið fram í því skyni að hefta innflutning á ónauðsynjavöru, þá hefði þetta snúið nokkuð öðruvísi við, enda óvíst nema jeg hefði þá treyst mjer til að greiða því atkvæði.

Fjórða ástæðan er sú, að þar sem nú er áliðið þings og ekki útlit fyrir, að komið verði fram með nein frv. til bjargráða við þjóðina, þá treysti jeg mjer ekki til að bæta þessu á hana, eins og efnahagur hennar er fyrir. — Skal jeg bæta því við, að fari svo, að hjer sjeu upptaldar allar björgunarráðstafanir þingsins, þá vildi jeg óska þess, að jeg hefði aldrei á þing farið.

Jeg veit, að fjárhagur ríkissjóðsins er mjög erfiður, en því er eins farið um fjárhag einstaklinganna. Eins og menn vita, þá byggist fjárhagur ríkissjóðsins ekki á öðru en gjaldþoli þegnanna. Þótt ríkissjóður skuldi um tuttugu miljónir, þá hefði mjer ekki vaxið það svo mjög í augum, ef gjaldþol þegnanna hefði verið í lagi. En því fer miður, að svo er ekki. Víðast hvar er fjárhagur einstaklingsins engu betri. Og hvar á þá að taka þetta fje!

Hæstv. fjrh. sagði í gær í Nd., að þessum tekjum yrði að ná í tóman ríkiskassann, hvað svo sem gengi íslensku krónunnar liði. Jeg teldi vel fara á því, að hæstv. ráðherra gerði þetta að einkunnarorðum sínum sem fjármálaráðherra, því betur verður hans fjármálastefnu varla lýst. Hann sjer aðeins tóman kassann; annað virðist hann ekki skynja. Íslenskum bændum hefir stundum verið brugðið um það, að þeir sæju lítið út fyrir asklokið. En mjer virðist sem til sjeu önnur lok, sem skyggi fyrir sjónir ýmsra annara manna. Og þótt asklok bænda þyki lítið, þá býst jeg við, að það sje engu óþjóðlegra en asklok hinna.

Jeg hefi setið á einum fundi, þar sem þetta frv. var til umr., og var hæstv. fjrh. þar líka sem formaður fjhn. Jeg hreyfði þá andmælum gegn frv., en hann svaraði og kvað þá menn, sem ekki vildu ganga inn á þessa leið, verða að benda á einhverja aðra til þess að afla ríkissjóðnum þessara tekna. Jeg skal játa, að þetta væri æskilegt. Og þótt jeg sje þeirra manna ófærastur, sem hjer eru, til þess að benda á slíkar leiðir, þá vil jeg þó vekja athygli hæstv. fjrh. á því, að til eru hjer stórir annmarkar, sem ekkert hefir verið gert til þess að bæta úr. í hv. Nd. voru nýlega feld 2 frv., þess efnis, að ríkið tæki í sínar hendur einkasölu á saltfiski og síld. Jeg ætla ekki að fara að lýsa afstöðu minni til þeirra frv. nú, en með því að fella þessi frv. umræðulaust hefir Nd. lýst yfir því, að hún telji ekkert athugavert við sölu þessara afurða vorra eins og hún fer nú fram. En í þessu tel jeg þó felast eitthvert mesta mein viðskifta vorra. Jeg sat fyrir skömmu síðan á fundi hjer í bænum, og heyrði jeg þar einn velmetinn borgara bæjarins lesa upp kafla úr skýrslu erindreka stjórnarinnar á Spáni. Í þeim kafla skýrir þessi fulltrúi frá því, að Íslendingar hafi á síðasta ári fengið 5 miljónum kr. minna fyrir fisk sinn en þeir hefðu átt að fá samkvæmt þarlendu markaðsverði. Þetta hlýtur að vera rjett með farið, því þessi fulltrúi, senn skýrsluna hafði gefið, var sjálfur á fundinum og mótmælti þessu ekki. Kom það fram í skýrslunni, að þetta fje hefir mestalt runnið til erlendra milliliða. Sje nú þessi skýrsla rjett, og jeg tel enga ástæðu til að efa það, þá verð jeg að segja það, að hjer fer sorglega mikið fje forgörðum. Og ef þessar 5 miljónir væru komnar í kassann hjá hæstv. fjrh., þá myndi hverfa tómahljóðið í kassanum, án þess þó að hagur landsmanna væri nokkuð skertur. Hefði nú hæstv. ráðherra reynt að stinga á þessu slæma kýli, þá kynni það að vera, að jeg hefði fremur litið á þessa málaleitun hans, en meðan annað eins viðgengst og þetta með fisksöluna, þá hefi jeg ekki samvisku til að greiða slíku frv. sem þessu atkvæði mitt.

Jeg hefi nú lýst áliti mínu á þessu máli og aðalástæðum fyrir því, að jeg er frv. mótfallinn. En úr því jeg stóð nú upp, þá vildi jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvers vegna hafi verið svo hljótt um þessa skýrslu, sem jeg gat um áðan. Hví var hún ekki í þingbyrjun lögð fram, svo að þm. gæfist kostur á að sjá hana? Er það máske meiningin að slíta svo þessu þingi, að þetta verði ekki gert? Það var aðeins af tilviljun, að jeg heyrði þetta um fisksöluna, og það er sú tilviljun, sem veldur því, að hv. þdm. heyra nú þessa skýrslu hjer nefnda. Jeg lít svo á, að það muni vera til leiðir, sem hægt væri að fara til að bæta úr þessu ömurlega fjárhagsástandi, sem nú ríkir hjá þjóðinni, aðrar en sú, að bæta nýjum tollum á þjóðina. En jafnframt held jeg því fram, að á meðan allar leiðir hafa ekki verið rannsakaðar, þá sje ekkert vit í því að grípa til slíkra örþrifaráða sem þessa frv. Vil jeg nú nota tækifærið og skora á hæstv. stjórn að taka það til ítarlegrar yfirvegunar, hvort ekkert sje hægt að gera til þess að koma sölu sjávarafurðanna í betra horf en nú er. Takist það, þá er ekki örvænt um, að jeg ljái fylgi mitt til þessa máls.

Það má nú vera, að einhver kunni að segja: En hví hefir þú þá ekki, maður minn komið fram með frv. þess efnis að kippa fisksölunni í lag! — Til þess liggja þær ástæður, að jeg á hjer sæti í fyrsta sinn, og treystist jeg því vart til að hrinda fram slíku máli. Auk þess virtist mjer móttökur þær, sem þessi 2 frv. um einkasöluna, sem jeg gat um áður, fengu í hv. Nd., benda til þess, að sá róður myndi sækjast mjög erfiðlega. En jeg taldi það samt skyldu mína að hreyfa þessu máli hjer opinberlega, úr því jeg fjekk svo gott tækifæri til þess. Vona jeg, að hæstv. stjórn veiti einhver svör máli mínu, og beini jeg þar orðum mínum aðallega til hæstv. atvrh. (MG). Það má vera, að álíka ólag sje á síldarsölunni og sölu fiskjarins. Að minsta kosti veit jeg, að oft hefir þar verið mjög óskynsamlega að farið. Það er í þennan liðinn, sem við verðum að reyna að kippa, og það áður en sá þroti verður í kominn, að ekkert verði við gert. Ef við ekki rekum þessa höfuðatvinnuvegi okkar með dugnaði og fyrirhyggju, þá heldur fjárhagurinn áfram að hrapa norður og niður. Takist okkur þetta aftur á móti, þá björgumst við. — Á þessu veltur alt.