31.03.1924
Efri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

100. mál, verðtollur

Jónas Jónsson:

Jeg get ekki sjeð, að það sje ósamræmi í því að vilja láta tollinn ná til dýra skófatnaðarins, en undanþiggja ódýrari skófatnaðinn, sem vel má una við. Og eins er ekkert ósamræmi í því að taka undan vefnaðarvöru, sem allir þurfa að nota. Þá verða það efnamennirnir, sem borga tollinn, en hinir nota vatnsleðursskóna og ódýru dúkana. Jeg er algerlega sammála hæstv. fjrh. um norsku dúkana, en aftur á móti held jeg, að alversta leiðin viðvíkjandi hækkun á vörubirgðunum sje sú, að láta kaupmenn um að jafna verðið, í stað þess að ganga inn á þá braut, að leggja líka verðtoll á það, sem fyrirliggjandi er af vörum. Jeg álít, að það sje engin ásökun til innflytjenda, þó að jeg segi, að þeim sje vart treystandi til að jafna verðinu. Er því ekki nema um annaðhvort að gera, að setja hámark á vöruna, sem fyrir er, eða tolla hana. Jeg veit, að allir eru sannfærðir um, að erfitt er að halda verðinu niðri á vörum, sem fyrir eru, þegar innflytjendur hafa fengið dýrari vörur. Mælist jeg því til þess, að hæstv. fjrh., ef hann ætlar að koma fram með frv. um þetta atriði, að hann komi með það strax, svo að þingið geti látið það fylgja verðtollsframvarpinu.