31.03.1924
Efri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

100. mál, verðtollur

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg þarf ekki að vera langorður. Andmælum þeim, sem hafa komið fram gegn minni hl. fjhn., er að mestu svarað af hv. 5. landsk. þm. (JJ). Aðeins vildi jeg taka það fram, að ræða hv. sessunauts míns (JJós) sannaði töluvert, sem jeg vildi halda fram, að málið væri stórgallað og því hraðað alt of mikið. Hann fann ýmsa galla á frv. frá sjónarmiði kaupmannsins; á því sviði hafði hann líka meiri þekkingu en jeg. Þetta bendir í þá átt, að brtt. um það, að lög þessi standi ekki lengur en þangað til næsta þing kemur saman, sje á nokkrum rökum bygð. Hæstv. fjrh. benti á, að tíminn, sem næsta þingi er ætlaður til að ráða fram úr því máli, sje of stuttur. Þó jeg ekki að öllu leyti beri traust til hæstv. stjórnar, ber jeg þó svo mikið traust til hennar, að hún muni nota tímann milli þinga til að undirbúa málið. Og ef stjórnin gæti í þingbyrjun verið viðbúin að leggja fyrir þingið ítarlega hugsað frv. um þetta efni, þá þyrfti afgreiðslan hjá þinginu ekki að verða neitt fljótvirknisleg.

Eins og komið hefir fram, er frv. þetta stórgallað, og hafa hv. flm. kannast við það. Þess vegna tel jeg skyldu þingsins að láta það ekki gilda nema til næsta þings. En ef við gætum bætt úr einhverjum göllum á frv., finst mjer að við ættum ekki að hlífast við að lengja umr. dálítið, og þó yrði að skjóta málinu til hv. Nd.

Hæstv. fjrh. tók það fram í ræðu sinni sem ástæðu gegn fyrri brtt. okkar, a-lið, að innlendur skófatnaður væri hreinasti „luxus.“ Jeg get ekki sagt um, hvernig þessu er varið í Reykjavík, en úti um land er öðru máli að gegna. Þar þekki jeg menn, sem hafa lært þessa handiðn og stunda hana á veturna, þegar ekkert er að gera, og selja lítið dýrara en búðir. En handunninn skófatnaður endist betur. Svo er guði fyrir að þakka, að ennþá notar meiri hluti þjóðarinnar handunninn skófatnað, hina gömlu íslensku skó.

Um málfræðiskýringar hv. 2. þm. G.-K. (BK) má segja, að það er rjett eins og að deila um keisarans skegg. Það er engin ný bóla í löggjöf, að leggja megi í orð misjafnan skilning. Úti um landið er „boldang“ skilið sem sængurdúkur. Þó það væri skilið sem strigi, gerir það ekkert til í þessu tilfelli, því strigi verður undanþeginn tolli. Jeg leiði minn hest frá að skýra hitt orðið, „Bommesie“, hvort það merkir dúk, sem er loðinn báðumegin eða öðrumegin aðeins, enda álít jeg það lítilsvert atriði.

Þá vil jeg víkja örfáum orðum að viðaukatill. hv. 6. landsk. þm. (IHB) og lýsa því yfir, að jeg er fús til að ljá henni fylgi mitt. Jeg hefi reyndar mjög stuttan tíma til að athuga málið, og jeg játa, að það eru eflaust fleiri tegundir sem rjett væri að undanþiggja. En jeg er þakklátur hv. 6. landsk. þm. fyrir að hafa bætt úr fljótvirkni minnihlutamanna; því þessi till. er áreiðanlega samkvæmt stefnu okkar í þessu máli. Það var eitt atriði í ræðu hv. 6. landsk. þm., sem orkar tvímælis. Mjer er kunnugt um, að úti um land er bambus og bast mikið notað víða til heimilisiðnaðar; og þann iðnað tel jeg mikilsverðan fyrir menningu okkar Íslendinga. Þessi efni eru líka mikið notuð í barnaskólum. Það er heimilunum aðstoð við tilbúning ýmsra smááhalda, en höfuðkosturinn er, að börnin venjast á iðjusemi og verklægni. Álít jeg rjettmætt að undanskilja þessar tegundir frá tolli.

Það kunna að vera einhver önnur atriði, sem vert væri að minnast á, en jeg treysti því, að brtt. okkar nái fram að ganga og málið verði látið ganga milli deilda.