24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Kjartansson:

Jeg ætla mjer ekki að þreyta háttv. þdm. með neinum almennum athugasemdum um fjárlögin. Það er aðeins vegna tveggja brtt., sem jeg á á þskj. 196, að jeg tek nú til máls. Það er alls ekki vegna þess, að jeg hafi neina löngun til að eyða fje ríkissjóðs, að jeg ber þessar brtt. fram, heldur er það knýjandi nauðsyn, sem hefir komið mjer til þess. Jeg hefði helst viljað vera stuttorður, en sökum almennra athugasemda háttv. frsm. fjvn. viðvíkjandi þessum brtt. mínum, verð jeg að segja nokkuð frá tildrögum þessa máls. Jeg vil nú þegar nota tækifærið til þess að taka undir það með hæstvirtum forsætisráðherra, að það er illmögulegt fyrir þingið yfirleitt að taka einstök sjúkraskýli inn í fjárlögin, því jeg tel erfitt að gera upp á milli þeirra. Það er alveg rjett, sem hæstv. forsrh. (JM) tók fram, að það er best að þingið veiti eina heildarupphæð til sjúkraskýla og svo skeri stjórnin úr því þegar til framkvæmdanna kemur, hvernig styrknum verði úthlutað.

Háttv. frsm. gat þess, að undirbúningur heima í hjeraði hafi ekki verið fullkominn hjá öðrum hjeruðum en Borgarfjarðar; en þetta er ekki rjett og getur engan veginn átt við Mýrdalshjerað. Skal jeg koma að því síðar.

Önnur brtt. er þess efnis að fá 15000 kr. styrk til sjúkraskýlis og læknisbústaðar í Vík í Mýrdal. Jeg þarf eigi að skýra hv. þdm. frá því, hvernig ástandið er að því er snertir samgöngur á sjó og landi í þessu hjeraði og hversu erfitt er að koma sjúklingum burt þaðan í sjúkrahús í öðrum hjeruðum, þegar á þarf að halda. Jeg skal til dæmis nefna það, að fyrir nokkru þurfti að koma sjúkling í sjúkraskýli og það var tekið það ráð að flytja hann til Vestmannaeyja á mótorbát, en þegar báturinn kom í höfn í Vestmannaeyjum, dó sjúklingurinn, og hlýtur öllum að vera það ljóst, að svo erfið ferð með sjúklinga getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Einnig hefir það komið fyrir, að þurft hefir að flytja sjúklinga landveg að Stórólfshvoli eða til Reykjavíkur, því ómögulegt er að byggja á því, að hægt sje að koma þeim sjóleiðis sökum hafnleysisins.

Eins og jeg hefi þegar tekið fram, er það alls ekki rjett hjá hv. frsm. að þetta mál hafi verið illa undirbúið. Það er langt síðan hafist var handa þar eystra og byrjað á fjársöfnun og öðrum undirbúningi málsins. Einkum var á árunum 1919 og 1920 unnið að fjársöfnun til sjúkraskýlis, og fengust loforð um 30000 krónur og mun af því fje vera innborgaðar nálægt 25 þús. kr. Og ef þetta er ekki nokkur undirbúningur, þá veit jeg ekki, hversu mikinn undirbúning háttv. fjvn. vill heimta. Það er rjett, að það lá ekki fyrir nefndinni nein áætlun um þetta, eða teikning af byggingunni, en jeg tjáði þegar hv. fjvn. orsakir þess, sem voru þær, að húsameistari ríkisins var að vinna að teikningunum og hafði ekki lokið við þær þegar fjárveitinganefnd fjekk málið til meðferðar. Það er líka eitt, sem er mjög mikilsvert fyrir þetta hjerað; það er að fá ungan og góðan lækni. Nú gegnir hjeraðlæknisembættinu í þessu hjeraði aldraður maður, sem var góður læknir á sínum tíma. Þessi maður mundi ekki taka að sjer að starfa við sjúkraskýli, og hefir hann þess vegna lýst því yfir, að hann mundi segja af sjer þegar skýlið kæmi. Árið 1920 höfðu hjeraðsbúar í hyggju að koma skýlinu upp, en vegna dýrtíðar þá var framkvæmdum frestað. Hjeraðsbúar hafa hinsvegar reynt að fá ungan lækni austur, en það hefir ekki reynst mögulegt, því sá maður, sem þangað færi án þess að fá hjeraðslæknisembættið, gæti ekki vonast eftir að fá aðrar tekjur en það, sem hann hefði upp úr „praksis“, en „praksis“ er auðvitað ekki mikill þar, einkum þar sem ekkert sjúkraskýli er til. En nú er svo komið, að þessi aldraði góði maður er reiðubúinn til að segja af sjer hvenær sem nýr læknir fengist. Vona jeg, að hv. þdm. sjái, hve mikla þýðingu það hefir fyrir þetta fjarlæga og einangraða hjerað, að það fái styrk til sjúkraskýlis nú. Uppdrátt af byggingunni og kostnaðaráætlun, hvorttveggja gert af húsameistara ríkisins, hefi jeg nú í höndum, eins og jeg hefi skýrt hv. fjvn. frá. Kostnaðaráætlunin er kr. 46500,00.

Jeg efast mjög um, að rjett sje hjá hv. frsm. fjvn., að hvergi sje meiri nauðsyn en í Borgarfjarðarhjeraði að koma upp sjúkraskýli nú. Jeg veit, að það er nauðsynlegt að byggja skýli þar, en þó hygg jeg, að aðstæður sjeu allólíkar þar og í Mýrdalshjeraði. Samgöngur eru í besta lagi í Borgarfirði og ungur, duglegur læknir situr í hjeraðinu, en í Vík situr aldraður læknir, sem getur ekki lengur notið sín. Er þó fjarri mjer að ásaka nokkuð þennan heiðursmann. Altaf þegar um alvarleg sjúkdómstilfelli er að ræða þar eystra, þá þurfa menn að leita annaðhvort til Síðu- eða Rangárhjeraðs eða jafnvel alla leið til Reykjavíkur. Allir hv. þdm. sjá erfiðleikana á þessu og þann kostnað, sem þetta hefir í för með sjer. Vænti jeg þess því fastlega, að fje verði veitt til þessa sjúkraskýlis, því að hvergi stendur eins á og jeg get ekki sjeð, að annað samskonar mál sje betur undirbúið, og mintist þó frsm. ekki á neinn undirbúning.

Þá hefi jeg einnig aðra brtt. um viðbótarstyrk til sjúkraskýlis og læknisbústaðar á Síðu. Síðastliðið ár voru veittar í fjáraukalögum til þessa skýlis 10000 kr. Menn höfðu búist við að byggingarkostnaðurinn yrði minni en raun varð á. En því miður hefir hann orðið kr. 39894,83. Ástæðurnar til þessarar hækkunar eru meðal annars þær, að áætlunin er gerð af óvönum manni. Í áætluninni var ekki tekið tillit til neins flutningskostnaðar á sjó, uppskipunar eða flutnings frá sjó til skýlisins, sem er alllangur vegur. Viðgerðarkostnaður á íbúðarhúsinu áætlaður nokkuð af handahófi, enda í fyrstu ekki gert ráð fyrir að gera við það nema það minsta að hægt væri. Einnig var áætlunin í ýmsu öðru ófullkomin, t. d. fæðiskostnaður starfsmanna, og gerð af handahófi. Hleypti þetta alt fram kostnaðinum allmikið. Auk þessa var ýmislegur kostnaður, t. d. við vatnsveitu, sem bygð var samkvæmt fyrirmælum landlæknis, enda áhjákvæmjlegt annað að gera, því vatnsból er mjög vont. Vatnsleiðslan varð mjög dýr, enda yfir 1000 metra löng. Ýmislegur fleiri aukinn kostnaður varð beint af fyrirskipun landlæknis í samráði við hjeraðslæknirinn, sem er ungur og mjög góður læknir.

Jeg vona, að háttv. deild taki fult tillit til nauðsynjar málsins og veiti hjeraðinu þessa uppbót, því að hjerað þetta er illa stætt og á við erfiðleika að stríða eins og aðrir. Eru enn eigi gróin sár þau, er Kötlugosið veitti hjeraðsbúum, og er því meiri nauðsyn, að Alþingi veiti hjeraðsbúum þennan styrk, og að það fái ekki á sig aukabyrði að bera, því þeir hafa hana nægilega fyrir. Hjeraðsbúar, sem hafa lagt fram mikið fje til þessara bygginga, mega ekki gjalda þess, að áætlun sú, er upprunalega var gert, gat ekki staðist; þeir áttu enga sök á því. Einnig ber að líta á það, sem jeg hefi þegar nefnt, að margt af því, sem setti kostnaðinn svona langt fram úr áætlun, stafaði af fyrirskipun landlæknis. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta meir, en treysti á sanngirni hv. þdm. í þessu máli.

Jeg vildi beina þeirri fyrirspurn til hv. form. samgmn., hvað hún hugsi sjer að gera viðvíkjandi styrk til flóabáta. Mjer er kunnugt um, að hv. samgmn. hefir haft með höndum mikið vandamál, að jafna niður styrk til flóabátanna. Þessi styrkur nam á síðastliðnu ári 75 þús. kr. Stjórnin hafði bundið 52 þús. kr.; þar af fór 31 þús. til „Suðurlands“ ‘ og 19 þús. til Djúpbátsins o. s. frv. Eftir eru þá aðeins 23 þús. kr., sem jafna átti milli allra annara báta. Jeg sje á brtt. fjvn. í næsta lið á undan, að þær 100 þús. kr., sem áætlaðar eru til strandferða, vill hún binda við e. s. Esju. Er það þá meiningin, að niður skuli falla styrkur til bátaferða á flóum og fjörðum? Jeg spyr þessa af því, að jeg veit, að öllum hv. deildarmönnum má vera kunnugt, að m. b. Skaftfellingur annast sjóflutninga til allrar Vestur-Skaftafellssýslu, hluta af Austur-Skaftafellssýslu og hluta af Rangárvallasýslu. Bátur þessi er eign einstakra manna og mundi verða að hætta, ef styrkur til hans fjelli niður eða minkaði stórum. Jeg spyr því enn, hvaða leið nefndin hefir fundið út úr þessum ógöngum, ef styrkur til flóabátaferða verður látinn falla niður eða lækkaður mjög.