31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

100. mál, verðtollur

Frsm. (Jakob Möller):

Fjhn. hefir athugað breytingar þær, er hv. Ed. hefir gert á frv., þar sem bætt hefir verið aftan við upptalninguna í 1. gr. um þær vörur, sem skildar eru undan tollinum, nokkrum vörutegundum, aðallega ódýrum vefnaðarvörutegundum, sem 2 hv. þm. vildu undanskilja við 3. umr. hjer í hv. deild, og ennfremur blautsápu og grænmeti. Nefndin gat ekki orðið sammála um þetta atriði. Vjer þrír, sem flytjum brtt. um, að þessi undantekning sje aftur feld niður, vitum ekki með vissu um huga allra hinna nefndarmannanna, því að vjer náðum ekki til þeirra allra. Jeg vil eindregið mæla með því, að hv. deild færi frv. að þessu leyti til sama vegar, sem það var, þegar það var afgreitt hjeðan. Eins og jeg sagði við 3. umr., er þetta ekki vegna þess, að ekki sje æskilegt að geta undanþegið nauðsynlegustu vefnaðarvörutegundir þessum tolli, heldur verður að telja svo mikla örðugleika á framkvæmd laganna, ef þessi undanþága er samþykt, að það hlýtur að auka stórkostlega allan kostnað og fyrirhöfn við innheimtuna, og er með því stofnað til enn meiri tekjurýrnunar heldur en tollurinn af þessum vörutegundum mundi nema. Þessar tegundir vefnaðarvöru geta tekið til meiri hluta af vefnaði en flm. þessarar tillögu gera sjer grein fyrir. Það er tiltölulega takmarkaður flokkur, sem gengur undir þessum nöfnum í meðvitund almennings, en þegar innflytjendur fara að gefa skýrslur, getur mesti fjöldi af vörum komið undir þessi nöfn. Það er um þessar vörur sem margar aðrar, að notkun þeirra er mjög mismunandi, og má vel draga úr notkun þeirra, en tilgangur frv. er ekki einungis sá að afla tekna, heldur líka einmitt að draga úr innflutningi. Jeg vil því eindregið leggja til, að þessi viðbót, sem hv. Ed. setti aftan við upptalninguna í 1. gr. verði aftur feld niður.

Um brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) get jeg ekkert sagt fyrir hönd fjhn., en fyrir mitt leyti mun jeg geta greitt þeim öllum atkvæði. Þó að gerduft sje felt niður, sje jeg ekki eftir því, þar sem það er búið til innanlands, blautsápan er tekin upp í brtt. okkar, og að taka sjálfvinnandi þvottaduft undan tollinum skal jeg ekki standa á móti. Það hefir enga þýðingu fyrir tekjuhlið frv. og mundi ekki auka erfiðleika við framkvæmd laganna, en þessi tegund er mikið notuð og má engu síður teljast nauðsynjavara en önnur hreinlætisefni, og er ekki framleidd hjer á landi.