20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1599 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

97. mál, landhelgissektir í gullkrónum

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta frv. er náskylt frv. því, sem nú var rætt næst á undan. Þá var því haldið fram, að það væri hin harða lífsbarátta, sem ræki skipstjórana á togurunum inn fyrir landhelgislínuna. En það er önnur harðari lífsbarátta, sem liggur bak við þetta frv. og veldur því, að það er hjer fram komið. Það er barátta þeirra manna fyrir tilverunni, sem hafa lakari tæki til þess að afla sjer og sínum lífsviðurværis úr sjónum en þeir, sem sótt geta veiðina á altýgjuðum togurum um allan sjó. Þeir eru því bundnir við ákveðin fiskimið, sem næst liggja landinu, og geta ekki veitt annarsstaðar, vegna þess að þá skortir tæki til þess. Hafa þeir og fornhelgan rjett til þessara fiskimiða, rjett fornrar venju og gildandi laga. Það eru margar sakir til, sem minni eru en þær, að vaða inn á fiskimið þessara manna og sópa þaðan í burtu ekki aðeins allri veiðinni, heldur og veiðarfærum þeirra, sem þessi mið eiga, og svifta þá þannig skilyrðunum fyrir því að afla sjer og sínum lífsviðurværis, er tækin eru á brott eða eyðilögð. Það geta oft verið heil hjeruð, sem þannig eru á svipstundu svift þeirra einasta bjargræði. Það er hegnt þunglega fyrir ýmsar ávirðingar og gripdeildir, sem framdar eru á landi, t. d. fyrir þjófnað; en jeg hefi engan heyrt halda því fram, að sjórán sje minni sök, þó svo hafi verið til þessa, að mikill munur og öfugur sje á hegningunni.

Þetta frv. er fram komið vegna gengislækkunarinnar á íslensku krónunni. Þegar gengi hennar lækkar, hefir það þau áhrif, að það dregur úr hegningunni fyrir landhelgisbrot, og getur svo farið, að hegningin verði sama sem engin, að því er snertir fjesektirnar. Fyrir þetta verður að girða. Hjer verður því að taka í taumana, og hegninguna verður að þessu leyti ekki hægt að festa á annan hátt en með því að miða sektirnar við gullkrónu. Það er bersýnilegt, að landhelginni verður hættara við það að hegningin minkar, og aðhaldið fyrir skipin gegn því að brjóta lögin verður og minna. Tekjur þær, sem landhelgissjóðurinn hefir af sektunum, þverra einnig stórum. Strandvarnirnar eru svo dýrar, að ríkið hefir hingað til skirst við að sinna þeim, eins og því ber þó skylda til. Er því ekki annað eðlilegra en að einmitt þeir, sem valdið hafa strandvarnarþörfinni með brotum á fiskiveiðalöggjöfinni, beri mestan hluta útgjaldanna við strandvarnirnar. Landhelgislögin voru sett til þess að vernda rjett þeirra, sem frá fornu fari hafa átt rjettinn til þessara fiskimiða, og að vísu vegna allra innlendra manna, sem rjett hafa til þess að stunda veiðar í landhelgi. Þess vegna er fje eytt til framkvæmdar þessara laga. Landhelgissjóðurinn hefir rýrnað svo mjög vegna gengislækkunarinnar, að eigi er óttalaust um, að töluverður dráttur geti orðið á því, að hann komi að tilætluðum notum. Landhelgissjóðurinn er geymdur í íslenskum krónum með sífelt lækkandi gengi, en skip, sem fyrir hann á að kaupa, hafa stöðugt hækkað í verði, svo ekki er útlit fyrir, að sjóðurinn komi strandvörnunum að miklum notum, ef þessu heldur áfram.

Fyrir þetta þarf að girða, og verður það vart gert á annan hátt en að miða fjesektirnar við gullkrónur. Veiðarfæri og afli helst ávalt sem næst gullverði, en sektirnar geta vegna gengisins þorrið nær takmarkalaust; nú sem stendur eru þær tæplega helmingur á móts við það, sem var, er þær voru upphaflega ákveðnar. En það er sjálfsögð krafa, að hegningin haldist í því horfi, sem upphaflega var til ætlast. Það er því sjálfsagðara að taka þetta ráð, sem yfirgangur togaranna á grunnmiðum hefir farið sívaxandi síðan ófriðnum mikla lauk.

Háttv. þingdeild er nýbúin að afgreiða til efri deildar frv. um 25% tollhækkun vegna gengisfallsins; hversu miklu sjálf sagðara er það þá ekki að láta þessa staðreynd, verðfall peninganna, bitna rjettlátlega á lögbrjótunum, sem, eins og reynslan sýnir, aðallega eru útlendingar, en vitanlega gengur hegningin jafnt yfir innlenda menn sem erlenda, ef þeir verða brotlegir og til þeirra næst. Jeg vil geta þess, að í greinargerð frv. stendur: „vegna .... útlendinga“ o. s. frv., en á að vera: „Vegna .... þeirra“ o. s. frv. Hefir þetta orðið af vangá, og bið jeg hv. nefnd, sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, að athuga þetta. Verðfall krónunnar má ekki verða til þess, að erlendum sökudólgum sjeu gefnar upp sakir, en börn landsins sektuð vegna gengishrunsins, með hækkuðum tollum á öllum nauðsynjum. Til væntanlegrar nefndar beini jeg hjer með þeim tilmælum, að afgreiðslu þessa frv. verði hraðað svo sem frekast má verða, vegna þeirrar vertíðar, sem nú er fyrir nokkru byrjuð, en sektarákvæði frv. þurfa sem fyrst að komast í framkvæmd.

Vænti jeg svo, að frv. verði að lokinni umræðu vísað til sjávarútvegsnefndar.